Fjöldamorð fá viðurkenningu – vestrið klofnar

frettinErlent, Páll Vilhjálmsson1 Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Norðmenn verðlauna fjöldamorð Hamas 7. október með viðurkenningu á sjálfstæði Palestínu. Hamas stjórnar Gasa en hinn hluti Palestínu, vesturbakkinn, er undir stjórn Fatha-samtakanna. Palestínuríkin eru tvö, aðskilin landfræðilega og með tvenn stjórnvöld.

Norska stjórnkerfið þekkir mætavel átakasögu Ísraela og Palestínuaraba. Á tíunda áratug síðustu aldar voru fundir í Osló, höfuðborg Noregs, um tveggja ríkja lausn. Tilraunin bjó til heimastjórn Palestínuaraba, þá undir stjórn PLO. Vonir um gagnkvæma viðurkenningu Ísraela og Palestínuaraba á tilvist tveggja ríkja fóru út um þúfur um aldamótin.

Núverandi átök milli Ísrael og Palestínuaraba byrja með fjöldamorðum Hamas 7. október á síðasta ár. Hryðjuverkamenn drápu um 1200 óvopnaða borgara og tóku um 200 gísla. Í framhaldi kemur innrás Ísraelshers á Gasa. Viðurkenning á Palestínu sem sjálfstæðu ríki er umbun sem veit á frekari hryðjuverk. Samlandar Breivik ættu að vita betur en að verðlauna skepnur í morðhug.

Frá Óslóar-samningum er stríðsástand með hléum, líkt og verið hafði frá stofnun Ísraelsríkis um miðja síðustu öld. Palestínuaröbum vegnar vel í áróðursstríðinu og fá nú viðurkenningu Noregs, auk Írlands og Spánar.

Kjarninn í deilu Ísraela og araba er sá sami og frá miðri síðustu öld. Þorri araba afneitar tilvist Ísraelsríkis. Þar stendur hnífurinn í kúnni.

Ef vestræn ríki fylgdu fordæmi Norðmanna, Íra og Spánverja væri skammt í endalok Ísraelsríkis. Hamas-vinir í vestrinu myndu fagna. Ísraelar sætu ekki með hendur í skauti og biðu eftir annarri helför. Stórstríð í landinu helga ylli hamförum á heimsvísu.

Vestrið mun ekki snúa baki við Ísrael að svo komnu máli. En hættuleg teikn eru á lofti. Útspil Norðmanna sýnir vestræna hnignun. Í Úkraínu stendur vestrið frammi fyrir töpuðu stríði sem aldrei átti að heyja. Eftirgjöf í miðausturlöndum tvíeflir þá sem vilja vestrið feigt. Þar eru meðtaldar fimmtu herdeildirnar í vestrænum háskólum.

Álitsgjafi norska ríkisútvarpsins, NRK, segir með kurteisu orðalagi að við núverandi aðstæður sé fávitaháttur að viðurkenna palestínskt ríki. Við munum næstu daga sjá íslenska fáráðlinga lepja upp norska fávisku.

Noregur og Írland eru smáríki. Spánn er í evrópskri millivigt. Ekkert þessara ríkja skiptir sköpum um alþjóðaþróun. Dvergarnir fyllast oflæti vegna sofandaháttar risanna. Axarsköft vestursins minna óþægilega á heimskupörin í aðdraganda fyrra stríðs. Vestfirsk kerling ku hafa sagt sumarið 1914 að hætti menn ekki þessari vitleysu endi þeir á að drepa einhvern.

Til dæmis heimsfriðinn.

One Comment on “Fjöldamorð fá viðurkenningu – vestrið klofnar”

  1. Vestfirskar kerlingar vita lengra en nef þeirra gefa til kynna.
    Sérstaklega þessar á Ströndum.

Skildu eftir skilaboð