Geir Ágústsson skrifar:
Ríkisskattstjóri heldur úti tímariti. Það heitir Tíundin og vísar til fyrstu skattheimtu Íslandssögunnar þegar tíund af sérhverjum tekjum eða ákveðinni eignamyndun átti að renna til kirkjunnar.
Með réttu ætti þetta tímarit í dag að heita Helmingurinn, en það er önnur saga.
Skattkerfið er óendanlega flókið og þökk sé tæknivæðingu og sjálfvirkni er hægt að bæta í það flækjustigum. Hið opinbera fær fullt af upplýsingum sjálfkrafa inn í kerfið sitt og getur út frá því reynt að reikna út hvað hver og einn á inni eða skuldar, hvaða frádrættir gilda og svona mætti lengi telja. Í lok uppgjörs er svo ákveðið hvort viðkomandi skuldar meira í skatt eða þarf að borga meira í skatt.
Með réttu ætti tímarit ríkisskattstjóra að heita Völundarhúsið.
Höfum eitt á hreinu: Það er ekki sniðugt að svindla á skatti og brjóta lög. Betri er blankur maður og gjaldþrota en sá í fangaklefa.
Það má samt spyrja sig að því hvert hlutverk skattkerfisins er. Er það að afla hinu opinbera nægra tekna til að standa undir rekstri á þjónustu og framkvæmdum sem allir eru sammála um, eða til að klappa sumum á öxlina og berja á öðrum?
Er hlutverk skattkerfisins að innheimta á fyrirsjáanlegan hátt eða afla fjölda opinberra starfsmanna starfa í að eltast við venjulegt fólk?
Er markmiðið að afla tekna fyrir hið opinbera eða sjá til þess að tæla fólk og fyrirtæki í gildrur?
Mér finnst svörin ekki endilega blasa við.
Auðvitað eru þeir til sem svindla á kerfinu, hvaða nafni sem það nú nefnist. En er flókið kerfi eða einfalt betra fyrir slíka einstaklinga?
Hérna þarf að innleiða svolitla hreinskilni. Skattkerfið er of flókið og ruglingslegt. Það fælir fólk frá því að afla verðmæta. Það gefur glæpamönnum færi á að misnota kerfið. Það kostar of mikið í framkvæmd af fé sem gæti annars runnið í góð verkefni. Það hefur misst sjónar af markmiði sínu og er orðið pólitískt verkfæri.
Hver er þá lausnin?
Jú, að fækka svokölluðum skattstofnum, fækka undanþágum, lækka skatthlutföll, fækka þrepum og undanþágum, og leyfa samfélaginu að skilja skattkerfið.
Niðurstaðan hlýtur að vera sú sama og samanburður á Svíþjóð og Sviss á sínum tíma: Bæði ríki öfluðu svipað mikilla skatttekna á íbúa, en Sviss gerði það með helmingi lægri skattbyrði en Svíþjóð.
Stundum er minna meira.