Páll Vilhjálmsson skrifar:
Tvöfalt fleiri ungir karlar á aldrinum 18 til 24 ára hverfa frá námi hér á landi en jafnöldrur þeirra. Tveir af hverjum tíu körlum hætta námi en ein af hverjum tíu konum. Aldurinn 18 til 24 ára nær yfir síðustu ár í framhaldsskóla, iðnnám og fyrstu háskólagráðu.
Brottfall ungra karla frá námi á Íslandi er það mesta meðal Evrópuþjóða.
Tölfræðin býður upp á tvær túlkanir. Í fyrsta lagi að íslenskir ungkarlar séu þeir skynsömustu í viðri Evrópu. Þeir átta sig á að háskólanám er æ meira húmbúkk kjánafræða sem lítt eða ekkert eru í tengslum við hversdagslegan veruleika. Í háskólum er haft fyrir satt að kynin séu þrjú, fimm eða seytján; að veðrið sé ekki náttúrufyrirbæri heldur manngert; og að Hamas séu samtök mannvina.
Fyrir utan almennan hálfvitahátt og hindurvitni skaffar háskólanám ekki það sem menn hafa öðrum þræði auga á - meiri tekjur. Fyrir sex mánuðum sagði í Viðskiptablaðinu:
Kaupmáttur launafólks með meistaragráðu hefur staðið í stað frá aldamótum á sama tíma og kaupmáttur launþega með grunnmenntun hefur vaxið um 44% og lágmarkslauna um 84%.
Meistaranám tekur að jafnaði tvö ár að lokinni grunngráðu í háskóla, BA/BS, sem tekur þrjú ár. Með vinnu, eins og algengt er hér á landi, tekur oft 6 til 8 ár að ljúka meistaranámi. Áfram skrifar Viðskiptablaðið:
Samkvæmt nýjustu tölum gefur háskólamenntun 17% hærri laun en grunnmenntun hér á landi sem er langtum lægst meðal samanburðarlanda þar sem meðaltalið er 50%.
Jafnlaunalandið Ísland gerir minni greinarmun á háskólamenntun og grunnmenntun en samanburðarlönd. Það einfaldlega borgar sig ekki, mælt í krónum og aurum, að ná sér í háskólagráðu. Sé maður ekki þess meira fyrir vókfræðslu er einboðið að gera eitthvað frjórra við líf sitt en skrá sig í háskólanám.
Í öðru lagi má túlka tölfræðina um brottfall karla á þann veg að skólakerfið sé sniðið að stúlkum en ekki strákum. Meginþorri kennara, 70-80 prósent, er kvenkyns. Kennsla er kvenlæg og notar hugtök og viðmið úr heimi kvenna. Yndislestur, þægð og samvera eru forskriftin en ekki hasarsögur, fjör og stríðsleikir. Strákum er á unga aldri óbeint kennt að skólinn sé fremur fyrir konur en karla.
Vandamálið er ekki nýtt. Fjöldi útskrifaðra kvenna úr framhaldsskólum fór fram úr fjölda karla fyrir síðustu aldamót. Menn fara ekki í háskólanám án þess að ljúka stúdentsprófi. Fyrir áratug birtist grein á heimasíðu Jafnréttisstofu um kynjahalla í háskólum. Lokaorðin:
Ef ekkert verður að gert munu háskólar á Íslandi þegar fram líða stundir standa undir nafni sem hinir nýju kvennaskólar.
Tíu árum síðar má slá föstu að ekkert var gert. Háskólar eru svo gott sem kvennaskólar.