Páll Vilhjálmsson skrifar:
Allir dómarar í héraðsdómi Reykjavíkur eru vanhæfir til að fjalla um kærumál Örnu McClure fyrrum yfirlögfræðings Samherja. Landsréttur kemst að þessari niðurstöðu. Lítil og látlaus frétt prentútgáfu Morgunblaðsins í morgun segir mikla sögu. Fyrirsögnin er Allir dómarar vanhæfir.
Í máli Örnu sameinast tvö sakamál, Namibíumálið og byrlunar- og símastuldsmálið. Í Namibíumálinu, ásakanir RÚV og Heimildarinnar um mútugjafir Samherja, er Arna sakborningur. Í byrlunar- og símastuldsmálinu er Arna brotaþoli ásamt Páli skipstjóra Steingrímssyni.
Arna kærði til héraðsdóms að hún hefði stöðu sakbornings í Namibíumálinu. Héraðsdómur hafnaði kröfu Örnu. Nú úrskurðar landsréttur að allir dómarar héraðsdóms séu vanhæfir.
En hvers vegna er heill dómstóll vanhæfur? Jú, vegna bræðranna Finns Þórs og Inga Freys Vilhjálmssona. Finnur Þór var saksóknari í Namibíumálinu þegar það hófst með ásökunum RÚV og Heimildarinnar (áður Stundarinnar og Kjarnans) í nóvember 2019. Ingi Freyr er blaðamaður á Heimildinni, áður á Stundinni. Hann er jafnframt sakborningur í byrlunar- og símastuldsmálinu. Ingi Freyr undirbjó Namibíumálið í hendur Finns Þórs, eins og tilfallandi vakti athygli á í febrúar á síðasta ári.
Finnur Þór varð dómari við héraðsdóm Reykjavíkur í september 2023. Þar með gerði hann allan dóminn vanhæfan til að fjalla um mál Örnu, samkvæmt úrskurði landsréttar. Í frétt Morgunblaðsins í morgun segir:
Lögð voru fram ný gögn sem sýndu að héraðssaksóknari hefði leynt aðkomu sinni að rannsókn í máli lögreglustjórans á Norðurlandi eystra vegna ætlaðra brota fjölmiðlamanna gagnvart Örnu. Í því máli hefur bróðir Finns Þórs réttarstöðu grunaðs manns.
Í þessum orðum sameinast stærsta fjölmiðla- og réttarfarshneyksli í sögu Íslands. Tvö afar ógeðfelld mál, Namibíumálið og byrlunar- og símastuldsmálið, eru búin til af blaðamönnum til að fremja réttarmorð. Landsréttur segir hingað og ekki lengra.