Forsetakosningarnar 2024 eru um aðra helgi. Ég hlustaði á hinn ágæta spyrjanda Stefán Einar Stefánsson ræða við Arnar Þór Jónsson forsetaframfjóðenda í Spursmálum um siðferði í pólitík. Afar áhugaverð orðræða. Arnar ætlar að beita sér fyrir siðbót. Sem forseti Íslands hefði Arnar Þór ekki samþykkt hrókeringar Bjarna Benediktssonar og Svandísar Svavarsdóttur sem mættu til vinnu í ný ráðuneyti eins og ekkert hefði í skorist. „Ég tel að stjórnmálamenn hafi of lengi umgengist lýðveldið Ísland eins og að það sé einkafyrirtæki þeirra,“ sagði Arnar.
Þessa mögnuðu orðræðu fannst mér gott að heyra í Spursmálum. Það er ögurstund í sögu þjóðar. Það þarf nýja vendi. Ef Íslendingum á að takast að verja Ísland, íslenska lýðveldið, sið þjóðar, menningu og tungu þá verður þjóðin að ná forsetaembættinu úr höndum elítunnar á Alþingi, ríkisstjórn og embættisvaldi. Það þarf forseta á Bessastaði sem vísar ásælni útlends valds til þjóðarinnar; bókun 35, orkupakka 4 og sprautuvá WHO.
LÝÐVELDIÐ ER BROTHÆTT
Lýðveldið er brotthætt. Jón Sigurðsson forseti vakti þjóðina af værum svefni þegar öll sund virtust lokuð um miðja 19. öld. Stjórnarskrá vannst 1874 og Heimastjórn 1904. Forfeður okkar hétu hlutleysi hollustu þegar þeir stofnuðu fullveldið 1918 í lok fyrra heimsstríðs. Lýðveldi var stofnað á Þingvöllum 1944. Þeir neituðu að lýsa stríði á hendur nokkurri þjóð þó allir fordæmdu fasizma og nazisma. Þeir tókust á við Breta í þorskastríðunum og unnu fiskimiðin. Íslendingar voru stoltir meðal fullvalda þjóða, virkjuðu fallvötn og jarðvarma. Ísland skipaði sér í fremstu röð velsældar og farsældar. Ísland er þjóðarinnar, ekki elítunnar.
HERVÆÐING ÍSLANDS
Nú stendur yfir hervæðing Íslands. „Íslenskar byssukúlur“ eru sendar á vígvelli Úkraínu um fjögur þúsund kílómetra í burtu, P8 þota frá KEF sveimaði yfir Nordstream þegar gasleiðslurnar voru sprengdar, Helguvík er kafbátalægi, Reykvíkingum var ögrað með torséðum B2 kjarnorkuváfuglum, alþjóðaflugvöllur okkar er Nato-herstöð. Milljarðar fara í styrjaldarrekstur án þess að fólkið í landinu sé spurt. Þetta var ekki Ísland liðinnar aldar …