Forsetaviðtalið – Kominn tími til að gera Ísland að landi allra landsmanna

Gústaf SkúlasonInnlendar, KosningarLeave a Comment

Forsetaframbjóðandinn Eiríkur Ingi Jóhannsson tók vel í að koma í viðtal til Fréttarinnar til að ræða framboðið og ástand þjóðmála. Hann hefur í miklu að snúast síðustu vikuna fyrir kjördag. Eiríkur Ingi sker sig úr frá sumum frambjóðendum, þar sem hann hefur enga digra sjóði til að kaupa auglýsingar sem skerðir sýnileikann. Sjálfum finnst honum það ekki vera framgangur réttvísinnar ef aðgangur að peningum eigi að vera lausnin á öllu, þar með talið hverjir geta gegnt embætti forseta Íslands.

Eiríki er umhugað að auka lýðræðið í stjórnarháttum landsmanna sem honum finnst ekki vera vanþörf á og eru margir honum hjartanlega sammála. Hann segir að byrja verði á forsetanum sem síðar getur flutt inn sterkara aðhald að stjórnarskrá lýðveldisins. Eiríkur segir:

„Vandamálið er, að það er ekki farið eftir stjórnarskránni.“

Aðspurður segist hann ekki vilja færa stjórnarhætti Bandaríkjanna til Íslands, heldur nýta það sem þegar finnst í stjórnskipunarlögum gagnvart þeim ójöfnuði sem ríkir, þegar sömu aðilar geta haft meirihluta á Alþingi og samtímis ráðið yfir framkvæmdavaldinu. Segir Eiríkur þetta gera það að verkum, að stjórnarandstaðan verður máttlaus og fái engu ráðið.

Landsmenn þekkja sögu Eiríks er hann komst af úr sjóhremmingum en félagar hans fórust. Hann segir það hafa verið mikla lífsreynslu sem kæmi að gagni í þjónustu þjóðarinnar.

Aðspurður um ófriðarlíkur í heiminum, segir Eiríkur að forseti Íslands eigi að stuðla að raunverulegum friði. Hann leggur áherslu á að þetta æðsta embætti þjóðarinnar sé ekki til komið svo spjátrungar geti sest á forsetastól til að sinna eigin hégóma. Telur hann það vera mistök, að sendiráði Íslands var lokað í Moskvu, það geri hlutina aðeins verri. Fólk verður að tala saman og eitt af verkefnum forsetans er að halda góðu sambandi við erlenda þjóðhöfðingja.

Fréttin.is óskaði Eiríki velfarnaðar í framboðsbaráttunni og hér að neðan má hlusta á viðtalið en þátturinn var tekinn upp miðvikudaginn 29. maí 2024. (Í upphafi þáttar mismælti fréttamaður sig og sagði Eirík vera Jóhannesson en hann er Jóhannsson. Beðist er velvirðingar á mismælunum).

 

 

author avatar
Gústaf Skúlason

Skildu eftir skilaboð