Vanhæfi Finns Þórs gildir einnig um Namibíumálið

frettinDómsmál, Innlent, Páll VilhjálmssonLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Saksóknarinn í Namibíumálinu, Finnur Þór Vilhjálmsson, skrifaði yfirvöldum í Namibíu bréf 17. október fyrir tveim árum. Tilfallandi bloggaði um bréfið mánuði eftir að það var sent og sagði:

Bréfið er ítarlegt, 12 blaðsíður. Sá sem skrifar undir bréfið er enginn annar en Finnur Þór Vilhjálmsson saksóknari og bróðir Inga Freys blaðamanns Stundarinnar. Gagnkvæmir hagsmunir bræðranna í Namibíumálinu voru gerðir að umtalsefni í tilfallandi athugasemd sl. sunnudag.

Finni Þór er umhugað að hann einn sé til svara gagnvart Namibíumönnum. Í bréfinu er aðeins heimilisfang og tölvupóstur Finns Þórs gefinn upp. Í niðurlagi segir hann að ef namibísk yfirvöld vilja ná sambandi við Ólaf Þór Hauksson héraðssaksóknari, skuli þau samskipti fara í gegnum Finn Þór.

Þegar tilvitnað blogg var skrifað, í nóvember 2022, var það eitt vitað um sameiginlega aðild bræðranna að Namibíumálinu að Finnur Þór saksótti og Ingi Freyr bæði skrifaði fréttir um málið og átti aðild að undirbúa það í hendur héraðssaksóknara þar sem bróðir hans starfar. Namibíumálið er ásakanir RÚV og Heimildarinnar (Stundin/Kjarninn) um að Samherji hafi greitt mútur í Afríkuríkinu til að fá veiðiheimildir. Ingi Freyr var ,,kallaður til" eins og segir í bók um upphaf málsins. Alltaf stóð til af hálfu blaðamanna að beita fyrir Namibíuvagninn embætti héraðssaksóknara. Bræðurnir höfðu áður leikið sama leikinn í Sjólamálinu, Finnur Þór saksótti og Ingi Freyr skrifaði fréttir. Nema síðustu fréttina, þegar málinu var vísað frá dómi. Ingi Freyr þagði, Morgunblaðið sagði.

Í mars 2023 er upplýst að Ingi Freyr er sakborningur í byrlunar- og símastuldsmálinu. Bjöllur hefðu átt að hringja hjá embætti héraðssaksóknara. Bróðir saksóknarans í Namibíumálinu er sakborningur í nátengdu máli. Yfirlögfræðingur Samherja Arna McClure er með réttarstöðu grunaðs í Namibíumálinu en brotaþoli í byrlunar- og símastuldsmálinu. Menn þurfa ekki í próf í lögfræði til að sjá að vinnubrögð af þessu tæi ganga ekki. Tilfallandi bloggaði fyrir rúmu ári:

Eina réttarfarslega rétta niðurstaðan sem Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari getur komist að er sú að Finnur Þór sé vanhæfur til að rannsaka Namibíumálið. Ólafur Þór er ekki svo skyni skroppinn að hann setji nýjan saksóknara í að berja til lífs dauða namibíska hrossið.

En, nei, það var látið gott heita að Finnur Þór héldi áfram að rannsaka mál þar sem bróðir hans blaðamaðurinn og sakborningurinn Ingi Freyr átti ríkra hagsmuna að gæta.

Undir lok árs 2023 verður Finnur Þór dómari við héraðsdóm Reykjavíkur og fær skipun í embætti í byrjun árs 2024. Kærumál fyrrum yfirlögfræðings Samherja, Örnu McClure, koma fyrir dóminn. Arna tapað og áfrýjaði til landsréttar. Í gær birtust fréttir um úrskurð landsréttar að dómarinn Finnur Þór gerði alla 24 dómara héraðsdóms Reykjavíkur vanhæfa í málum Örnu McClure.

Í niðurstöðukafla dóms landsréttar segir að Finnur Þór sé

vanhæfur til að fara með rannsókn málsins vegna tengsla sóknaraðila [héraðssaksóknari/Finnur Þór] við rannsókn á máli lögreglustjórans á Norðurlandi eystra þar sem bróðir hans hefur réttarstöðu sakbornings og varnaraðili [Arna McClure] hefur stöðu brotaþola.

Landsréttur segir berum orðum að Finnur Þór hefði ekki átt að fara með rannsókn Namibíumálsins eftir að upplýst var um aðild bróður hans að byrlunar- og símastuldsmálinu.

Í haust verður Namibíumálið fimm ára. Það átti aldrei að verða að máli; blaðamenn keyptu fyllibyttu að segja skrök. En fyrst skrökið varð að opinberri rannsókn átti Finnur Þór aldrei að koma nálægt rannsókninni, sem bróðir hans var ,,kallaður til" að eiga aðild að og setti blaðamannsorðspor sitt að veði að væri eitthvað annað en áfengur uppspuni.

Namibíumálið verður til að frumkvæði spilltra blaðamanna sem gefa sér fyrirfram niðurstöðu og skreyta hana óráðshjali áfengis- og fíkniefnaneytanda. Vinstrimenn á alþingi, Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingar þar framarlega í flokki, mögnuðu upp rangar sakargiftir og útvegðu embætti héraðssaksóknara 200 milljónir króna í aukafjárveitingu til að rannsaka alvarlegar ásakanir sem voru úr lausu lofti gripnar. Opinbert fé var lagt til höfuðs saklausu fólki.

Síðast fréttist af Namibíumálinu er sex manna hópur frá embætti héraðssaksóknara heimsótti Afríkuríkið í byrjun árs. Þarlend yfirvöld höfðu ekki hugmynd um erindi hvítingjanna úr norðri. Í Namibíu skilja menn ekki þann hátt opinberra embættismanna á Íslandi að eyða auðfengnu fé, fengnu með pólitískum samböndum, í tilgangslausa óráðsíu. Var einhver að tala um spillingu?

Skildu eftir skilaboð