Eitrað samkrull ákæruvalds og blaðamanna

frettinInnlent, Páll VilhjálmssonLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Namibíumálið er tilraun til réttarmorðs. Bandalag blaðamanna, öðru nafni RSK-miðlar, í samvinnu við embætti héraðssaksóknara ætluðu sér að fá dæmda einstaklinga fyrir sakir sem þeir voru saklausir af. Á árarnar lögðust þingmenn, einkum úr röðum Samfylkingar og Pírata.

Namibíumálið verður til með fundi Kristins Hrafnsonar ritstjóra Wikileaks og Jóhannesar Stefánssonar, ógæfumanns sem flæmdist úr starfi hjá dótturfélagi Samherja í Namibíu um miðjan síðasta áratug vegna óreglu. Í hefndarhug bar Jóhannes þær sakir á saklaust fólk að hafa greitt mútur. Kristinn Hrafnsson kallaði í vin sinn Helga Seljan fréttamann RÚV. Helgi hafði nýverið farið með miklar sakir á hendur Samherja í Seðlabankamálinu. Það mál byggði á fölsuðum gögnum.

Félagarnir Kristinn og Helgi fengu til liðs við sig blaðamanninn Inga Frey Vilhjálmsson á Stundinni. Meginkostur Inga Freys er að bróðir hans Finnur Þór Vilhjálmsson er saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara þegar Namibíumáli er hleypt af stokkunum í nóvember 2019.

Auk RÚV og Stundarinnar hér á landi tryggði Kristinn Hrafnsson sér samvinnu við alþjóðlegan fréttamiðil, Aljazeera. Wikileaks, sem Kristinn ritstýrir, lifir á alþjóðlegum framlögum undir því yfirskini að afhjúpa spillingu.

Tilfallandi nefnir tvö dæmi úr fréttaumfjöllun í nóvember og desember 2019 sem hefðu átt að fá fólk með snefil af dómgreind til að efast um orð Jóhannesar og RSK-miðla. Tökum fyrst umfjöllun Aljazeera sem birtist 1. desember. Þar segir strax í fjórðu efnisgrein:

Andspænis Jóhannesi standa ríkir hagsmunir, pólitískt vald og fjármálarisar, allir í bandalagi, segir Jóhannes, við undirheima suður-afrísku mafíunnar.
Facing Johannes was a formidable array of vested interests, political power and financial behemoths, all in league, Johannes claims, with the murky underworld of the South African mafia.

Namibía var lengi nýlenda Suður-Afríku. Ekki er kunnugt um ítök Samherja í mafíunni þar syðra. En síðar í umfjöllun Aljazeera játar Jóhannes að hafa sjálfur verið í samskiptum við mafíuna í Suður-Afríku eftir að hann hætti hjá Samherja. Jóhannes, segir í fréttinni:

kunni að meta samtengda heima viðskipta og mafíu í Suður-Afríku.
he came to appreciate the interconnected worlds of business and the mafia in South Africa.

Augljóst er að Jóhannes er með nokkrar skrúfur lausar. Hann stundar ósiðsamlegt líferni, svo vægt sé til orða tekið, og kemst í kast við lögin en kennir öðrum um. Ranghugmyndir Jóhannesar eru öllum skýrar, sem á annað borð nenna að lesa og hlusta. Nú er ekki víst að þeir hjá embætti héraðssaksóknara fylgist með fréttum á útlensku. En Jóhannes mætti í Kastljós á RÚV 11. desember 2019 þar sem alþjóð mátti sjá hann löðrandi í tvöfeldni. Tilfallandi fjallaði um tilhlaup uppljóstrarans til að gera sig að trúverðugri heimild. Hér er kjarninn úr bloggi með yfirskriftinni Kastljós: fer Jóhannes með sanna sögu eða samsæri?

Á fjórtándu mínútu Kastljóssviðtalsins í kvöld segir Jóhannes þetta: ,,Fyrsta skrefið hjá mér var að upplýsa glæpi Samherja gagnvart kvótahöfum sem voru í samvinnu við þá. Svo þróaðist þetta lengra þegar ég fór að gera mér grein fyrir hvað var í gangi og hvað maður var hluti af."

Spyrill Kastljóss var vitanlega of upptekinn af ,,umræðunni" um spillingu Samherja til að kveikja á orðum Jóhannesar og hvað þau þýða.

Jóhannes byrjar sem sagt því að vinna með namibískum kvótahöfum sem eru viðskiptafélagar Samherja. Hér er á ferðinni viðskiptadeila. Ef Jóhannes var enn í starfi hjá Samherja þegar hann tók að vinna fyrir namibísku kvótahafa er augljóst að hann hafi leikið tveim skjöldum.

Jóhannes segir að það var ekki fyrr en eftir að hann fór að vinna með ósáttum viðskiptafélögum Samherja að hann hafi gert sér ,,grein fyrir hvað var í gangi og hvað maður var hluti af". Hér getur Jóhannes ekki verið að vísa í neitt annað en meginþema umræðunnar, þ.e. meintar mútugreiðslur Samherja til namibískra embættis- og stjórnmálamanna.

Það rennur upp fyrir Jóhannesi, eftir atburðina, að hann hafi verið þátttakandi í spillingu. Nærtækt að álykta að meintar mútugjafir hafi haft fremur sakleysislegt yfirbragð fyrst þær fóru framhjá honum í fyrstu. En það er allt önnur mynd en dregin var upp í Kveiks-þættinum. Þar skipti rauð íþróttataska sneisafull af peningum um hendur mútugjafa og þiggjanda. Sá sem ekki er meðvitaður um að hér sé á ferðinni eitthvað misjafnt, tja, hlýtur að vera meðvitundarlaus.

Sem heimild, hvort heldur blaðamanna eða saksóknara, er Jóhannes járnbrautaslys án eftirlifenda. Það sást þegar í upphafi Namibíumálsins að maðkur var í mysunni. Kexruglaður maður, djúpt sokkinn í áfengi og dóp, er tekinn sem góð og gild heimild. Blaðamenn og ákæruvald vildu trúa Jóhannesi. Hann færði þeim boðskap sem rímaði við fordóma í fjölmiðlum og lattelepjandi embættismannaliði. Að ekki sé minnst á vinstripólitíkusa.

Það sem gerist, í stuttu máli, er að fyrir þrýsting frá ósvífnasta hópi blaðamanna sem starfað hefur á Íslandi og með 200 milljón króna hvatningu frá þingmönnum Samfylkingar og Pírata, fór embætti héraðssaksóknara í leiðangur sem aldrei, aldrei átti að fara. Þessar 200 milljónir snúa að ,,að þeim tíðindum sem bárust á síðustu klukkutímum er varða framkomu Samherja í Namibíu," eins og Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingar segir í þingræðu 13. nóvember 2019. Það má með sanni segja að sé mútufé fjárveitingavalds til ákæruvalds.

Namibíuleiðangur blaðamanna, ákæruvalds og þingmanna er tilraun til réttarmorðs. Opinbert ákæruvald á hlut að máli og hlýtur það að hafa eftirmála þegar skelfilegar afleiðingarnar blasa við alþjóð.

Skildu eftir skilaboð