800.000 ólæsir á aldrinum 16 – 65 ára í Svíþjóð

Gústaf SkúlasonErlent, InnflytjendamálLeave a Comment

Samkvæmt skýrslu skólayfirvalda í Svíþjóð færist ólæsi í aukana. Í dag er talið að í Svíþjóð séu tæplega 800.000 ólæsir á aldrinum 16 til 65 ára.

Að kunna ekki að lesa og skrifa getur fljótt leitt til firringar og erfiðleika við að klára hversdagslega hluti eins og að fara í bankann, gera innkaup, taka á móti og skilja upplýsingar eða bóka tíma hjá lækni. Þá verður einnig verulega erfitt að fá vinnu og leita að vinnu.

Rita Sommarkrans, SFI-kennari í Västerås, segir að um 8-10 nemendur komi í hverjum mánuði sem hvorki kunni að lesa eða skrifa. Hún segir í viðtali við sænska ríkissjónvarpið SVT:

„Að læra að lesa og skrifa eru mannréttindi og nauðsynlegt til að geta tekið þátt í samfélaginu. Þrátt fyrir það er umtalsvert hlutfall fullorðinna ólæs í Svíþjóð.“

Af þeim 123.474 nemendum sem tóku þátt í sænsku fyrir innflytjendur (SFI) árið 2022 kom meirihlutinn frá löndum eins og Sýrlandi, Afganistan, Erítreu og Írak. Geta má þess að í Afganistan er til dæmis aðeins um þriðjungur íbúanna talinn læs.

Engin lausn í sjónmáli

Yfir 20% Svía eru fæddir erlendis og hafa margir þeirra komið til landsins á síðustu tveimur áratugum. Svíþjóð stendur frammi fyrir gríðarlegum vandamálum varðandi aðlögun þessa fólks

Samkvæmt sænsku hagstofunni var 18,4% atvinnuleysi ár 2021 meðal þeirra sem fæddir eru erlendis samanborið við 4,4% atvinnuleysi meðal þeirra sem fæddir voru innanlands. Sérstaklega var atvinnuleysi mikið meðal innflytjenda sem fæddir eru í Asíu og Afríku.

Johan Pehrson, vinnumarkaðs- og aðlögunarráðherra, tilkynnti nýlega að verið væri að setja þriggja ára markmið fyrir sænskukunnáttu með það að markmiði að auðvelda innflytjendum að komast út á vinnumarkaðinn.

Samkvæmt nýjustu könnun sænsku hagstofunnar eru um það bil 800.000 ólæsir á aldrinum 16 – 65 ára í Svíþjóð. Búist er við að talan fari hækkandi í komandi skýrslum.

Skildu eftir skilaboð