Björn Bjarnason skrifar:
„Það er tímabært að sýna Íslendingum fulla hörku (e. play hardball) þar til þeir átta sig á að kínverskir fjármunir muni ekki vega upp á móti kostnaðinum við að stofna öryggi Norður-Atlantshafs og norðurslóða í hættu.“
Michael Rubin, sérfræðingur við bandarísku hugveituna American Enterprise Institute (AEI), birti 22. nóvember á vefsíðu National Security Journal grein undir fyrirsögninni: Iceland: China's Trojan Horse in Europe? – Ísland: Trójuhestur Kína í Evrópu?
Hér má nálgast greinina og sjá æviágrip höfundarins.
Greinar sem sérfræðingar í hugveitum í Washington skrifa og birta um þessar mundir snúa margar að því að gefa Donald Trump og stjórn hans ráð um forgangsmál eftir að stjórnarskiptin verða 20. janúar 2025.
Rubin minnir í upphafi greinar sinnar á að í forsetatíð sinni 2016 til 2020 hafi Trump gripið til fjölda ráða gegn áhrifum og ítökum Kínverja, hann hefði þó getað gert mun betur.
Undir millifyrirsögninni: The Iceland Dilemma – Vandinn vegna Íslands – segir Rubin að sé athyglin sem Trump sýni Kína meiri á borði en í orði kunni Ísland brátt að lenda undir smásjánni.
Kínavandi Íslendinga hafi byrjað með fjármálakreppunni árið 2008. Þá hafi menn gert að gamni sínu og spurt: „Hvað heitir höfuðborg Íslands?“ og svarað „25 cents“. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi veitt aðstoð við að tryggja stöðugleika krónunnar en Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra vinstri stjórnar, hafi leitað aðstoðar Kínverja eftir að Vesturlönd hafi mótmælt boði Rússa um að létta skuldabyrði af einu af stofnríkjum NATO. Síðan lýsir höfundur nánar samskiptum Íslendinga og Kínverja á þessum árum eins og þau blasa við honum.
Í augum íslensks lesanda er þar ýmislegt málum blandið og vekur athygli að Rubin minnist t.d. ekki á þátt Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands í þróun Kínasamskiptanna.
Næsta millifyrirsögn er: China and Iceland: Warming Ties – Kína og Ísland: hlýnandi tengsl.
Rubin nefnir undirritun tvíhliða viðskiptasamnings Íslands og Kína 15. apríl 2013, fyrsta viðskiptasamningsins sem Kínverjar gerðu við Evrópuríki en Össur Skarphéðinsson ritaði undir hann fyrir Íslands hönd. Gerir höfundur grein fyrir þróun viðskipta og fjárfestinga milli ríkjanna síðan. Hann segir: „Útlendingar sem fara inn á kínverskan markað í von um gull og græna skóga verða oft gjaldþrota. Fullyrðingar Arctic Green [ísl. fyrirtækis] um að Kína, mesta mengunarríki heims, stefni að kolefnishlutleysi eru barnalegar.“
Þegar Rubin segir að fjárfestingar Kínverja á Íslandi á árunum 2012 til 2017 nemi næstum 6% af vergri landsframleiðslu eru það tölur sem skoða á í ljósi hugmynda sem urðu að engu, t.d. um kínverskan hlut í olíu- og gasvinnslu á Drekasvæðinu. Rubin getur þess ekki að íslensk stjórnvöld hafi ekki samþykkt aðild að kínverska fjárfestingarverkefninu sem kennt er við belti og braut.
Rubin bendir á starfsemi Konfúsíusarstofnunarinnar . Talsmenn hennar víða um heim segi að hún veiti tungumálafræðslu og standi að menningarviðburðum en í raun vinni hún aðeins í þágu kínverska kommúnistaflokksins og sé oft skjól til að njósna um Kínverja erlendis og til að sporna gegn viðburðum sem séu andstæðir hagsmunum kínverskra stjórnvalda, t.d. í Tíbet og á Tævan. Það hafi tekið nokkur ár að skilgreina raunverulegt hlutverk Konfúsíusarstofnana á Vesturlöndum og þess vegna megi afsaka að Konfúsíusarstofnunin Norðurljós hafi orðið til í Háskóla Íslands árið 2008 en það gildi ekki um samning frá 2017 um fimm ára framhald á störfum stofnunarinnar.
Þá rifjar Rubin upp að kínverski auðmaðurinn Huang Nubo reyndi að kaupa hér 300 ferkílómetra land við Grímsstaði á Fjöllum árið 2011.
Rubin bendir á að á Íslandi eins og á Svalbarða hafi Kínverjar haft áhuga á því sem þeir segja að séu vísindastofnanir en séu í raun breiðsla yfir njósnir og starf í þágu kínversks öryggis. Hann bendir á stöðina sem opnuð var á Kárhóli í Þingeyjarsveit í október 2018. Hafi Halldór Jóhannsson talsmaður Huangs Nubos verið einn helsti hvatamaður stöðvarinnar. Ekki hafi liðið nema fáeinar vikur frá því að stöðin var opnuð þar til hún var nýtt til að fylgjast með ferðum gervihnatta. Í þjóðaröryggisstefnu sem Joe Biden birti 2022 og nær til hagsmuna Bandaríkjanna á norðurslóðum segir að vísindastarf Kínverja þar þjóni tvíþættum tilgangi og snúi annars vegar að njósnum og upplýsingum í þágu hernaðar.
Lokamillifyrirsögnin er: Donald Trump Needs to Watch This Space – Donald Trump verður að hafa auga með þessu svæði.
Þar segir að í augum herfræðinga í Peking sé Ísland fullkomni Trjóuhesturinn, í skjóli hans fái Kínverjar aðgang að Norður-Íshafi, Atlantshafi, Evrópu og NATO. Ef til vill megi afsaka að Ísland hafi verið undir ratsjá Trumps á fyrsta kjörtímabili hans en enginn þurfi lengur að efast um áhuga Kínverja á eyjunni né hve veikir Íslendingar séu fyrir kínverskum fjármunum og strategískri ásókn.
„Það er tímabært að sýna Íslendingum fulla hörku (e. play hardball) þar til þeir átta sig á að kínverskir fjármunir muni ekki vega upp á móti kostnaðinum við að stofna öryggi Norður-Atlantshafs og norðurslóða í hættu.“
Þótt ekki sé allt nákvæmlega rétt sem bandaríski sérfræðingurinn Michael Rubin segir í þessari grein sinni um íslensk málefni er boðskapurinn skýr eins og ráðin til Trumps. Bandaríska stjórnkerfið einkennist í öryggismálum af samspili milli sérfræðinga í hugveitum og þeirra sem taka pólitískar ákvarðanir og framkvæma þær. Þessi grein er ekki skrifuð að tilefnislausu og ekki aðeins sem ráð til Trumps heldur einnig sem viðvörun til okkar Íslendinga.
Hér hafa íslensk stjórnvöld nýlega sýnt veiklyndi gagnvart kínverskum fjármunum þegar Kínverjar komust upp með að losa eiganda landsins á Kárhóli af skuldaklafanum fyrir milligöngu Byggðastofnunar og starfsmanna hennar.
Kosið verður til alþingis eftir viku. Kjósendur eiga rétt á að vita afstöðu stjórnmálamanna til álitamáls eins og þess sem hér er reifað. Þegar Trump og repúblikanar voru við völd síðast voru þeir ómyrkir í máli varðandi hættuna af Kínverjum á norðurslóðum. Þeir láta örugglega ekki sitt eftir liggja núna enda beinir bandarískir öryggishagsmunir í húfi. Það er óþolandi að Ísland sé skilgreint sem Trjóuhestur gegn eigin hagsmunum og bandamanna sinna.