Þó nokkur skuldsett ríki eiga í erfiðleikum með að greiða af lánum sínum sökum vaxandi verðbólgu og hækkandi vaxta. Margar þessara þjóða söfnuðu mikið af skuldum á síðasta áratug á meðan verðbólga og vextir voru í lágmarki.
Frá því innrás Rússa hófst í Úkraínu hafa refsiaðgerðir Vesturlanda leitt til hækkunar á innfluttum varningi og margir helstu seðlabankar hækka nú vexti til að reyna sporna við verðbólgu.
Allt frá Islamabad til Kaíró til Buenos Aires, berjast yfirvöld við aukinn innflutningskostnað og hækkandi afborganir af lánum.
Á þriðjudag lýsti Sri Lanka því yfir að landið þyrfti að fresta lánagreiðslum og óskaði eftir neyðaraðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Fjármálaráðuneyti landsins lýsti því yfir að Úkraínustríðið og heimsfaraldurinn, sem hefur skaðað ferðaþjónustuna, hafi gert það að verkum að landið hefur ekki getað aflað nægra tekna.
Þó að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sé ekki að spá fyrir um alþjóðlegri skuldakreppu eins og er, „þá er hættan mikil og við höfum af því áhyggjur,“ sagði Seyla Pazarbascioglu, forstöðumaður hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.
„Það verða vanskil, hættan er til staðar. Þegar við verðum fyrir áfalli af þessu tagi er allt mögulegt,“ sagði Kenneth Rogoff, hagfræðingur við Harvard háskóla, í pallborðsumræðum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir skömmu. Vextir eru lágir á heimsvísu og það sama á við um þróunarríkin.
„Fullvalda ríki eru nú skuldugri en í fjármálalalkreppunni árið 2008,“ sagði Roberto Siphon-Arevalo, hjá lánshæfismatsfyrirtækinu S&P. „Er skuldakreppa handan við hornið? Ég myndi ekki segja það. En það eru nokkur fullvalda ríki sem eru í mjög erfiðri stöðu,“ sagði hann.