Litríki sjónvarpsmaðurinn Piers Morgan fer af stað með eigin þátt, Piers Morgan Uncensored, í kvöld 25 apríl 2022 og verður hann sendur út á nýrri breskri stöð, TalkTV, en einnig á Fox News, BNA og Sky News, Ástralíu.
Morgan er eindreginn stuðningsmaður málfrelsis - sérstaklega síns eigin - og hefur BBC eftir honum að í spjallþætti sínum muni slaufunarmenningunni verða slaufað og þeim er hafi verið útilokaðir veitt tækifæri á að tjá sig. "Ekki ætti að niðurlægja menn, rægja þá eða útiloka þá fyrir að hafa skoðanir, nema það sem þeir láta út úr sér sé augljóslega haturs- og fordómafullt bull". "Við vitum öll hvar sú lína liggur," bætti hann við.
Piers yfirgaf spjallþáttinn Good Morning Britain í mars í framhaldi af því að ummæli hans um Megan Markle fengu 58.000 manns til að kvarta til Ofcom, eftirlitsstofnunar breskra fjölmiðla. Hann sagðist "ekki trúa orði af því sem Megan hefði sagt" í viðtali hjá spjallþáttadrottningunni Oprah Winfrey. "Mér líður eins og Nelson Mandela er hann kom út úr fangelsinu" hefur BBC eftir honum í tilefni þess að hann fær nú eigin þátt. "Það er eins og ég hafi verið á göngunni löngu til málfrelsisins".
Piers Morgan hefur vakið töluverða athygli undanfarið með því að halda því fram að Donald Trump hafi móðgast við sig og stormað út úr viðtali sem verður sýnt í þætti hans. Kynningarmyndbandið má sjá hér. Trump neitar því og segist hafa upptökur er sanni annað. Sumir kunna vel þá list að vekja eftirtekt manna og á það vel við um þá báða.