Rússneska orkufyrirtækið Gazprom hefur nú staðið við hótanir sínar frá í gær og hefur skrúfað fyrir gasflutning til Póllands og Búlgaríu, en Rússar stöðvuðu gasflutning til landanna þar sem kröfu þeirra um að greiða fyrir gasið í rúblum var hafnað. Þetta eru hörðustu hefndaraðgerðir sem er beint að evrópskum hagkerfum hingað til vegna stríðsins í Úkraínu, segir á vef Reuters.
Aðgerðirnar hafa verið fordæmdar af Evrópusambandinu og þær kallaðar fjárkúgun. Mörg evrópulönd hafa að undanförnu gengið til liðs við Bandaríkin og aukið vopnasendingar til Úkraínu, sem þau segja gert í þeim tilgangi að reyna verjast nýrri árás Rússa í austri.
Úkraína greindi frá því í morgun að rússneskir hermenn hefðu náð árangri í nokkrum þorpum þar. Rússar tilkynntu um fjölda sprenginga sín megin við landamærin, þar á meðal eldsvoða í vopnageymslu sem ráðamenn í Kyiv kalla „karma“.
Höfuðstöðvar í Moskvu segja að skrúfað hafi verið fyrir gasflutninginn til að framfylgja kröfunni um greiðslu í rúblum, sem þarf til að verja hagkerfið fyrir refsiaðgerðum.
Talsmaður Kreml, Dmitry Peskov, segir hinsvegar að Rússar væru áreiðanlegir orkubirgjar og neitar því að þeir stundi fjárkúgun.
Ítarlegar um málið má lesa á Reuters.
Uppfært: Rússneskt gas er aftur farið að streyma til Póllands en hlé var gert á þeim sendingum í morgun. Þá hafði streymi gass í gegnum evrópsku Yamal-gasleiðsluna frá Hvíta-Rússlandi til Póllands lækkað niður í ekkert.