Orkuskiptin, rafmagnsbílar, kuldi og gróðurhúsaáhrif

frettinGeir Ágústsson, Orkumál, PistlarLeave a Comment

Geir Ágústsson skrifar:

Við erum á svolítið einkennilegri vegferð á Vesturlöndum og sérstaklega í Evrópu.

Við erum að ýta út bílum sem nota bensín og olíu. Í staðinn eiga að koma rafmagns- eða vetnisbílar. Rafmagn þarf að fara á batterí. Vetni þarf að framleiða með notkun rafmagns. Hvoru tveggja þýðir að við þurfum miklu meira rafmagn. Í íslensku samhengi þarf svo mikið rafmagn til að leysa af jarðefnaeldsneytið að það svarar til að virkja nokkurn veginn jafnmikið og búið er að virkja nú þegar. Í evrópsku samhengi er nauðsynleg viðbót við raforkuframleiðsluna sennilega mun hærri, hlutfallslega.

Við erum að neyta okkur um hagkvæma og aðgengilega orkugjafa og reiða okkur á mun óáreiðanlegri og dýrari orkugjafa. Við búum til mælikvarða fyrir fjárfestingar sem gefa fjárfestingum í olíu og gasi mjög lélega einkunn og drögum þannig úr slíkum fjárfestingum. Við setjum á viðskiptahöft sem draga mjög úr framboði og leiða til hækkandi verðlags á orku. Við viljum ekki virkja fleiri fallvötn því þau eru svo falleg. Það verður sífellt erfiðara að bæta við orkuframleiðsluna.

Við erum að auka orkunotkun okkar. Sumir segja að heimurinn sé að hlýna, sem krefst loftkælingar, eða að kólna, sem krefst upphitunar. Við bætum í sífellu raftækjum við líf okkar, frá fleiri flatskjáum og símum til snjalltækja af ýmsu tagi. Nú fyrir utan að okkur er að fjölga.

Hvernig í ósköpunum á þetta að hanga saman?

Það gerir það auðvitað ekki og spilaborgin er í raun og veru hrunin í Evrópu. Kolin eru að koma aftur. Nýjar gaslindir á að opna á sumum svæðum í fyrsta skipti í áratug eða meira. Jarðefnaeldsneytið streymir inn og virðist sú regla gilda að því spilltari sem stjórnvöld eru, því meira fá þau að flytja inn til Evrópu. Kjarnorkuverum á að fjölga. Námur sem var búið að loka á að opna að nýju.

Allt er þetta auðvitað tímabundið ástand, segja menn. En menn byggðu upp spilaborg sem hrundi og mjög líklegt að sú saga eigi bara eftir að endurtaka sig.

Nema auðvitað að hið ótrúlega gerist og menn rifji upp hvernig samfélög án orku líta út. Þar sem fólk brennir þurrkaðri mykju innandyra til að hita vatn. Þar sem bæði hiti og kuldi er banvænn. Þar sem þvottavélar eru gagnslausar því það er engin innstunga fyrir þær.

Þá vakna menn kannski úr værum draumi og byrja á ný að samþykkja hagkvæma, örugga og sveigjanlega orku.

Því annars erum við í vandræðum.

Skildu eftir skilaboð