Víkurfréttir segja frá því að Arion banki telji fullreynt að í Helguvík verði rekin kísilverksmiðja og því tekur við nýr kafli sem miðar að því að flytja verksmiðjuna eða færa henni nýtt hlutverk.
Arion banki og PCC hafa slitið formlegum viðræðum um möguleg kaup PCC á kísilverksmiðjunni í Helguvík. Samhliða hefur Arion banki sagt upp raforkusamningi við Landsvirkjun þar sem framleiðsla kísils var forsenda samningsins. Því er allt útlit fyrir að kísilverksmiðjan í Helguvík verði ekki gangsett á ný og að hún verði flutt eða henni fært nýtt hlutverk, segir í frétt frá Arion banka.
Arion banki eignaðist kísilverksmiðjuna árið 2018 í kjölfar gjaldþrots fyrri eiganda, United Sílicon hf. Síðan þá hefur dótturfélag bankans, Stakksberg ehf., unnið endurbótaáætlun fyrir verksmiðjuna og leitað að hæfum kaupendum sem gætu rekið verksmiðjuna með ábyrgum hætti. Að höfðu samráði við viðeigandi stjórnvöld var nýju umhverfismati, sem byggðist á endurbótaáætluninni, lokið og sýndu fjárfestar verksmiðjunni umtalsverðan áhuga. Arion banki gerði þá kröfu að mögulegir kaupendur væru traustir aðilar sem byggju yfir yfirgripsmikilli reynslu af rekstri kísilvera.