Alheimsyfirráð í heilbrigðismálum – Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO)

frettinArnar Sverrisson, HeilbrigðismálLeave a Comment

Eftir Arnar Sverrisson:

Flestir hafa líklega gert sér grein fyrir ógnarlegum völdum Alþjóðheilbrigðisstofnunarinnar (WHO), sem er hluti Sameinuðu þjóðanna (UN ), sem vestræn ríki komu á koppinn eftir aðra heimsstyrjöld.

Í skýrslu heilbrigðisráðherra á löggjafarþingi 2003-2004, segir m.a.:

„Stofnskrá Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) var samþykkt 22. júlí 1946 á sérstöku alþjóðlegu heilbrigðismálaþingi. Stofnunin sjálf tók ekki til starfa fyrr en 7. apríl 1948 þegar 26 af 61 aðildarríki Sameinuðu þjóðanna höfðu staðfest stofnskrána. Aðildarríki WHO eru nú 192.

Höfuðstöðvar stofnunarinnar eru í Genf en auk þess fer stór hluti starfseminnar fram í sex svæðisnefndum og skrifstofum þeirra. Alþjóðaheilbrigðisþingið, sem haldið er einu sinni á ári, er sá vettvangur sem tekur helstu ákvarðanir varðandi starfsemi WHO og markar stefnu stofnunarinnar á hverjum tíma. Framkvæmdastjórnin, sem kemur saman tvisvar á ári, er hins vegar framkvæmdanefnd þingsins. Svæðisnefndir WHO koma saman einu sinni á ári, í 1–2 vikur hverju sinni. Þess á milli starfa fastanefndir svæðisskrifstofanna. …

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur gegnt forustuhlutverki á sviði heilbrigðismála í heiminum um áratugaskeið. Á síðustu árum hafa hins vegar alþjóðlegar stofnanir eins og Alþjóðabankinn, Heimssjóðurinn í baráttu gegn alnæmi, berklum og malaríu (e. The Global Fund to Fight AIDS, Tuberculosis and Malaria) og svæðisbundnir fjárfestingarbankar orðið æ meira áberandi á heilbrigðissviðinu. Hefur það aðallega komið til af því að fjárhagslegur stuðningur og lánafyrirgreiðsla við einstök lönd hefur í vaxandi mæli tengst ákveðnum aðgerðum í heilbrigðismálum.“

Félag Sameinuðu þjóðanna segir: „Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (e. World Health Organization, WHO) var stofnuð árið 1948 og er sérhæfð stofnun innan Sameinuðu þjóðanna sem samræmir aðgerðir á sviði alþjóðlegra heilbrigðismála og vinnur að betri lýðheilsu í heiminum. WHO starfar með öllum 193 aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna til að stuðla að bættu heilbrigði og þróun innan aðildarríkjanna. WHO starfar einnig með ríkisstjórnum aðildarríkjanna og öðrum aðilum í að framfylgja heilbrigðisstefnum þessara ríkja. Markmið WHO er að heilsufar alls fólks alls staðar sé sem allra best.“

Fjármögnun WHO

Eins og heilbrigðisráðherra benti á í fyrrgreindri skýrslu koma hálfopinberir aðiljar og fyrirtæki í æ meira mæli að fjármögnun og starfsemi AH. Þar á meðal er GAVI, samtök nokkurra ríkisstjórna um bólusetningar með fátækra þjóða, og auðmenn, þar á meðal Bill Gates. Á grundvelli vitnisburðar, starfsemi og þróunar, er öll ástæða til að ætla, að þátttökuþjóðir hafi takmörkuð áhrif á stofnunina.

Fyrir tæpum tuttugu árum skýrði fyrrverandi sóttvarnalæknir, Haraldur Briem, frá átökum á Alþjóðaheilbrigðisþinginu:

„Fundurinn í Genf fór öðruvísi en ætlað var. Lítið sáttarhljóð var í fundarmönnum og lítið um málamiðlanir. Tekist var á um stór mál og smá. Megin átökin stóðu um sjálfsákvörðunarrétt þjóða, valdsvið aðalframkvæmdastjóra WHO, nefnda og ráðgjafahópa hans og pólitískt hlutverk þeirra. Þá voru átök um ákvörðunarferli sem leiðir til viðvörunar um atburði sem valdið geta alþjóðlegri útbreiðslu sjúkdóma. Snerust deilurnar um það hvort ákvörðunar¬ferlið ætti að byggjast á lýsingu á atburði (algóriþma) eða hvort fyrir ætti að liggja listi með sjúkdómum sem bæri að tilkynna eða hvort tveggja.“

Fyrsta Alþjóðaheilbrigðisreglugerðin var gefin út árið 1969. Hún hefur síðar verið endurskoðuð. Síðasta útgáfa hennar er frá 2005. (Þýdd á íslensku.) Henni var fyrst beitt í hinni hálfspaugilegu svínaflensu árið 2009.

Afríkuríki, Kína og Brasilía mótmæltu

Enn er tekist á um völd og sjálfsákvörðunrrétt. Fyrsta tilraun til að skapa alþjóðaalræði í heilbrigðismálum, nánar tiltekið alræði um skilgreiningu á og viðbrögð við faröldrum, sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin telur vera ógn við heilsu heimslýðsins, mistókst fyrir skemmstu á Alþjóðaheilbrigðisþinginu (World Health Assembly).

Eins og vænta mátti greiddu angló-saxískar þjóðir (og fylgihnettir þeirra) atkvæði með. En andstaðan var sterk. Það var eftirtektarvert, að tæplega fimmtíu Afríkuríki greiddu atkvæði gegn og sameinuðust um sameiginlega yfirlýsingu. Það gerðu einnig fleiri ríki eins og Kína. Það kom á óvart. Brasilíumenn voru óstýrilátir að vanda og hótuðu að segja sig úr félagsskapnum. Eins og lesendur vafalaust muna, andæfðu þeir einnig skilgreiningu WHO á covid-19 heimsfaraldri og viðbrögðum við honum. En þar er nú kominn nýr forseti.

Það væri einfeldingslegt að trúa því, að nefndir hagsmunaaðiljar og áhugamenn um heimsyfirráð séu af baki dottnir. Evrópusambandið, G20 og Alheimsefnahagsráðið leggjast á sömu sveif. Eftir tvö ár verður vafalaust önnur atlaga gerð.

Alræðisþróun lengi sjáanleg

Þessi alræðisþróun hefur reyndar verið sjáanleg í áratugi: Á árinu 2018 áttu aðalframkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og forseti Alþjóðabankans (World Bank) frumkvæði að því að stofna „Alheimsundirbúnings- og vöktunarstjórn“ (The Global Preperedness Monitoring Board – GPMB) ásamt „stjórnmálaleiðtogum, forstöðumönnum stofnana og heimsþekktum sérfræðingum,“ sem hefur það verkefni að auðga stefnumörkun með víðtæku, óháðu áliti, þegar heimsfaraldur dynur yfir.

Leiðtogi þessara heimsins almannavarna var Gro Harlem Brundtland, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs. Norðmenn leggja drjúgan skerf af mörkum til GAVI samtakanna. Meðal stjórnarmanna var sjálfur veirualvaldur Bandaríkja Norður-Ameríku (BNA), Anthony Fauci, og forstjóri fjárvörslusjóðsins, Wellcome Trust, Jeremy Farrar.

Ári síðar gaf nefnd stjórn út skýrsluna, „Heimur í hættu“ (World at Risk). Þar er m.a. skýrt frá löngum undirbúningi fyrir heimsfaraldur og ríkisstjórnum lagðar lífsreglurnar um aðgerðir og framvindu þeirra.

Síðar á sama ári, þ.e. 2018, gaf Evrópusambandsráðið (EU commission) út plagg, sem ber heitið „Elfd samvinna gegn bólusetningarhæfum sjúkdómum“ (Strengthened Cooperation Against Vaccine Preventable Diseases). Plaggið felur í raun í sér vegvísi að framkvæmd bólusetningar Evrópubúa., þ.e. framkvæmdaráætlun. Þar er m.a. fjallað um þá framtíðarsýn, „að það bresti á með óvæntum heimsfaraldri,“ sem kynni að réttlæta markaðsleyfi fyrir „nýjungabóluefni.“

Stafræn bólusetningabréf

Evrópskir framleiðendur voru hvattir til að taka stöðu við rásmarkið, því þeir hefðu lykilhlutverki að gegna. Mikilvægt er talið, að stafræn bólusetningarbréf verði innleidd í Evrópusambandinu Lög, er að þessu lúta, skulu samþykkt 2022.

Að þessu sögðu verður líklegt að teljast, að andstaða andófsríkjanna innan AH verði barin niður og frumvarpið að sáttmála verði samþykkt. Þá öðlast hann gildi sem alþjóðalög. Með lagabókstafinn að vopni er AH í lófa lagið að knýja ríki heims til hlýðni, og beitingar sömu afarkosta og kunnir eru frá því, að versta covid-19 fárið gekk yfir.

Mikilvæg ákvæði í frumvarpinu lúta að eftirfarandi: Alþjóðlegu bólusetningabréfi og ferðarakningu; alþjóðlegu eftirliti; leiðréttingu rangra upplýsinga, áróðurs og ofgnóttar upplýsinga (AH kallar þetta: „upplýsingafarsótt“); heimild stjórnvalda til að þvinga óháða til „upplýsingaherskyldu.“ Greiðsla þátttökugjalda nema fyrir fjárlagaárið 2022-2023 950 milljónum dala.

Það er hægt og hljótt á heimavígstöðvunum um málið. Hver ætli sé afstaða íslenskra stjórnvalda til fullveldisafsals í heilbrigðismálum að þessu leyti? Í skýrslu heilbrigðisráðherra frá í fyrra er engar hugleiðingar að finna um þróun Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar. Hins vegar er þar upplýst, að ráðherra hafi fengið Finnborgu S. Steinþórsdóttur „nýdoktor í kynjafræði“ til að skrifa skýrslu um jafnrétti kynjanna með tilliti til heilbrigðisþjónustunnar.

Tilvísanir með grein má sjá hér.

Skildu eftir skilaboð