Fávitaréttur, mannréttindi og lýðræði

frettinPáll Vilhjálmsson, Pistlar2 Comments

Eftir Pál Vilhjálmsson:

Saga mannréttinda er, í grófum dráttum, þessi: fram að frönsku byltingunni 1789 réð forréttindastétt, aðall. Réttlaus þriðja stéttin var allur almenningur. Stéttin þar á milli, önnur stéttin, var klerkaveldið er hafði í megindráttum það hlutverk að miðla málum milli hinna tveggja í anda kristilegs kærleika.

Klerkarnir voru eins og aðallinn forréttindastétt. Málamiðlunin gekk mest út á að verja forréttindi. Almenningur átti að sætta sig við sult og seyru í mannlífinu gegn loforði um himnaríkisvist að loknu jarðlífi.

Í Norður-Evrópu, snemma á nýöld, komu mótmælendur til sögunnar sem rugluðu í ríminu ríkjandi ástand. Fyrirkomulagið hélt þó fram á 19. öld er náttúruréttur verður ríkjandi skoðun. Samkvæmt náttúrurétti eru allir fæddir jafnir og eiga sama tilkall að láta ljós sitt skína.

Önnur stéttin, kennd við klerka, hætti að skipta máli og sneri sér að serimóníum s.s. skírn, fermingu og giftingu. Siðferðileg kjölfesta kirkjunnar gufaði upp í veraldlegu samfélagi. Enginn var lengur handhafi úrskurðarvalds góðs og ills.

Mannréttindi nútímans verða til í þessu umhverfi. Þau þýða að illa gerður til hugar og handa nýtur sömu réttinda og vel gerður einstaklingur.

Fávitavæðing 20. aldar birtist í ismum með forskeyti eins og fas, nas og kommún. Helstu fjöldamorðingjar sögunnar komu fram á sjónarsviðið. Á 21. öld gildir enn að hvaða imbi sem er á sama rétt og hver annar til áhrifa og mannaforráða. Stórir ismar síðustu aldar eru aftur að mestu á bak og burt.

Í skjóli tæknivæðingar s.s. samfélagsmiðla fjölgar þeim stórkostlega sem fá áheyrn og við það tvístruðust stóru ismarnir. Fávitavæðingin birtist í sérgreindum málaflokkum t.d. loftslagi og líffræði. Þar sem áður var viska og þekking er boðið upp á fávisku og vanþekkingu. Með reiknikúnstum í tölvulíkönum er loftslagið gert manngert; líffræðileg kyn eru ekki lengur tvö heldur þrjú, fimm eða seytján.

Fávitar ná forræði í málaflokkum þar sem þeir hópast margir saman. Fáviskan nýtur tæknivæðingar sem breytir lýðræði í atkvæðagreiðslu á samfélagsmiðlum.

„Umræðan einkennist af pólitískri rétthugsun sem ákveðinn hópur áhrifavalda stjórnar," segir Óttar Guðmundsson geðlæknir og pistlahöfundur. Þeir sem hætta sér inn á lendur fávísinnar eru umsvifalaust útskúfaðir. ,,Mönnum er velt upp úr tjöru og borinn eldur að þeim í beinni útsendingu,“ segir geðlæknirinn.

Fávitaræði og lýðræði haldast í hendur. Það boðar ekki, í sögulegu ljósi, bjarta framtíð lýðræðis. Er fávitarnir komast í auknum mæli til valda vex þeirri hugsun ásmegin að ekki gangi til lengdar að illa gerðir til hugar og handa ráði ferðinni.

Ekki-fávitarnir sannfærast um að lýðræðið sé fyrir imba. Hver vill búa við imba-lýðræði?

2 Comments on “Fávitaréttur, mannréttindi og lýðræði”

  1. Það eru vísbendingar úr fornleifafræðinni um að meðal mannsheilinn hafi minnkað um ca. 150 ml á um 40.000 árum eða svo. Sumir kenna um „domestication“.

Skildu eftir skilaboð