Fjölmiðill í almannaþágu?

frettinFjölmiðlar, Jón Magnússon3 Comments

Jón Magnússon hæstaréttarlögmaður skrifar:

Ríkisútvarpið hefur á undanförnum misserum stundað lítt dulbúinn áróður í ýmsum málum,sem starfsfólki miðilsins eru hugleikin og hefur þá ekki verið gætt hlutleysis eða hlutlægni í fréttaflutningi, við val á viðmælendum eða meintum sérfræðingum.

Sérstaklega hefur kveðið rammt að þessu undanfarið varðandi málefni ólöglegra hælisleitenda. Þar hefur RÚV farið hamförum í baráttu gegn lögum sem gilda í landinu um þennan málaflokk, birt einhliða  og oft misvísandi og rangar fréttir. Fréttir og fréttaskýringaþættir eru undirlagðir undir afbakaðar frásagnir eða hreinar falsfréttir.

Barnaefni er notað til að koma einhliða áróðri á framfæri og svo virðist sem betur fer, að augu margra hafi opnast þegar gerð var blygðunarlaus grein fyrir því að meiningin væri að misnota jóladagatal ungbarna á RÚV  til að niðurlægja og sverta ímynd forstöðumanns ríkisstofnunar,sem ekkert hefur til saka unnið.

Málefni ólöglegra hælisleitenda eru ekki þau einu, sem Rúv tekur fyrir og rekur einhliða áróður í stað þess að stunda hlutlæga, lýðræðislega fréttamiðlun og umræður.

Allt fer þetta í bág við lög um Rúv nr.32/2013 en þar segir m.a. í 1.gr., að RÚV eigi að stuðla að lýðræðislegri umræðu og félagslegri samheldni og rækja hlutverk sitt af fagmennsku, metnaði, heiðarleika og virðingu.

Í 3.gr. laganna segir m.a að RÚV skuli sinna lýðræðislegu hlutverki sínu m.a. með því að m.a. Hafa í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur. Veita víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga frétta- og fréttaskýringarþjónustu um innlend og erlend málefni líðandi stundar. Vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem efst eru á baugi hverju sinni og almenning varða.

Ekki þarf að skoða fréttaflutning, fréttaval, viðmælendur og þá sem eru kvaddir til sem sérfræðingar til að átta sig á því, að ofangreind grundvallaratriði í lögum um RÚV eru ítrekað þverbrotin.

Þegar svo háttar til, að lög um RÚV eru þverbrotin nánast á hverjum  einasta degi, er spurningin hvað gerir útvarpsstjóri eða stjórn RÚV sem að meginstefnu er kjörin af Alþingi. Já og hvað gerir innra eftirlit RÚV eða fjölmiðlanefnd.

Það er engin skortur á silkihúfunum, sem eiga að gæta þess að lögum um RÚV sé fylgt. En það gerir engin neitt og þessvegna komast öfga pólitískir starfsmenn RÚV upp með að brjóta lögin.

Hvað lengi enn ætlum við að láta RÚV misbjóða þolinmæði okkar. Ætlar ríkisstjórnin og viðkomandi fagráðherra að halda áfram að láta sem ekkert sé þó að lýðræðislegar reglur sem varða RÚV séu þverbrotnar. 

3 Comments on “Fjölmiðill í almannaþágu?”

  1. RÚV, vettvangur fyrir mismunandi skoðanir? Hef ekki orðið var við það! Þetta er bara áróðursstöð fyrir vissar hugsjónir m.a. fjölmenningu, transgenderism, styður Joe Biden og ýtir undir hatur á Donald Trump.

  2. Gott hjá þér Jón Magnússon að skrifa um þetta, þetta er þörf umræða

Skildu eftir skilaboð