Rakel og Helgi vitni í RSK-sakamálinu

frettinDómsmál, Páll VilhjálmssonLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Rakel Þorbergsdóttir fyrrverandi fréttastjóri RÚV og Helgi Seljan fyrrum fréttamaður RÚV eru vitni í RSK-sakamálinu. Eftir yfirheyrslur snemma í október í fyrra greindu þau Stefáni Eiríkssyni útvarpsstjóra frá stöðu sinni. RSK stendur fyrir RÚV, Stundina og Kjarnann, sem eru vinnustaðir sakborninga í opinberu refsimáli.

Stefán tók sér tvær til þrjár vikur að fara yfir málið. Þann 9. nóvember var tilkynnt að Rakel hætti sem fréttastjóri um áramótin. Stefán virðist ekki hafa borið traust til starfsmanna því hann lét um sinn hjá líða að auglýsa stöðu fréttastjóra. Ef starfsmenn RÚV, sem tengdir eru málinu, hefðu gert hreint fyrir sínum dyrum og upplýst útvarpsstjóra að fullu um málsatvik hefði Stefán ekki beðið með að auglýsa stöðuna. Þegar Rakel hætti um áramót var staðan enn ekki auglýst.

Áður en ákvörðun var tekin um framtíð Helga á RÚV var reynt að hanna þá frásögn að fréttamaðurinn væri að niðurlotum kominn vegna ágangs Samherja. Helgi mætti í nú alræmdan spjallþátt Gísla Marteins þann 15. október að sýna sig sem fórnarlamb. Tilfallandi athugasemd fjallaði um viðtalið, þar segir m.a.

Samkvæmt Helga og Gísla Marteini var það Samherji sem raskaði sálarró fréttamannsins í þeim mæli að hann varð að leita sér sérfræðihjálpar. RÚV gerði klippu úr þættinum til að spila á youtube og kostaði. Myndskeiðið sýndi ofsóttan mann. Klippan var síðar tekin úr umferð.

Samherji hafði beðist afsökunar að hafa andmælt Helga og RSK-miðlum þegar 30. maí, fimm mánuðum fyrir viðtalið. Í fimm mánuði hafði ekki heyrst múkk frá Samherja en Helgi var miður sín allt síðast liðið haust, í veikindafríi og laskaður að eigin sögn.

Lögreglan hafði stuttu áður boðað Helga til skýrslutöku. Fyrsta yfirheyrslan í RSK-sakamálin var 5. október í fyrra, tíu dögum áður en Helgi mætti í settið hjá Gísla Marteini.

Hvers vegna var almenningur, sem greiðir skylduáskrift til ríkisfjölmiðilsins, ekki upplýstur að fréttamaður væri kallaður í yfirheyrslu lögreglu vegna sakamáls? Jú, RÚV ætlaði að hanna frásögn um að lögreglan væri handlangari norðlensku útgerðarinnar. Helgi þótti trúverðugasti leikarinn í hlutverkið. En þar sem hann var aðeins vitni, en ekki sakborningur, mátti ekki undir nokkrum kringumstæðum fréttast að lögreglurannsókn stæði yfir. Við það hefðu vaknað spurningar um hverjir væru sakborningar.

Þegar leið á haustið 2021 var Stefáni útvarpsstjóra, sem er fyrrum lögreglustjóri, ljóst að Helgi gæti ekki starfað áfram innan RÚV. Um áramótin var gengið frá starfslokapakka sem m.a. fól í sér að Helgi skipti um starfsstöð, var fluttur yfir á Stundina, sem er S-ið í RSK.

Helgi og Stefán útvarpsstjóri mættu báðir 15. janúar í viðtal við Fréttablaðið í tilefni starfslokanna. Helgi klappar enn þann stein að málið sé ,,brjálæðislegt". Hvorki Helgi né Stefán minnast einu orði á að lögreglurannsókn standi yfir, sem þó var vitað á þessum tímapunkti. Tilfallandi höfundur skrifaði fyrst um málið 2. nóvemberí fyrra og staðfesti rúmri viku síðar að lögreglurannsókn stæði yfir.

Meðvirkur blaðamaður Fréttablaðsins tekur þátt í að breiða yfir sannleikann með því að láta um miðjan janúar eins og ekkert refsimál væri til rannsóknar. Í RSK-sakamálinu þegja fjölmiðlar fremur en að segja. Vinir, kunningjar og samstarfsfélagar í eiga í hlut og þá er hagkvæmast að fólk frétti sem minnst. Blaðamönnum munar ekkert um að efna til samsæris gegn almenningi þegar reynir á samtryggingu fjölmiðla - en heimta samt sem áður ríkisstyrki til að fá launin sín.

Mánuði eftir Fréttablaðsviðtalið við Helga og Stefán upplýstu fjölmiðlar hverjir væru sakborningar í RSK-sakamálinu: Þóra Arnórsdóttir yfirmaður Kveiks, og yfirmaður Helga; Þórður Snær og Arnar Þór á Kjarnanum og Aðalsteinn Kjartansson á Stundinni, sem var í skyndi fluttur af RÚV fjórum dögum fyrir glæpinn.

Sakborningarnir töldu ekki stætt á öðru, þegar hér var komið sögu, en að upplýsa almenning. En þeir vissu í byrjun október, fjórum mánuðum áður, að lögreglurannsókn stæði yfir. Einn sakborninganna, Þórður Snær, skrifaði grein 18. nóvember að glæpurinn væri aðeins í tilfallandi höfði Páls Vilhjálmssonar. Þórður Snær vissi betur. En hann og samverkamenn gátu barið aðra blaðamenn til hlýðni að þegja málið í hel. Dagskrárvald RSK-miðla yfir umræðunni er ógnvekjandi.

RSK-sakamálið snýst um byrlun Páls skipstjóra Steingrímssonar, stuldi á síma hans og meðferð á einkagögnum. Auk Páls er annar brotaþoli, enn ónefndur, sem kom fyrir í gögnum í síma Páls og blaðamennirnir eru taldir hafa brotið gegn.

Fjórmenningarnir voru boðaðir í skýrslutöku febrúar í ár en komu sér undan yfirheyrslu þangað til í ágúst. Af þeirri ástæðu og stórum sakamálum norðan heiða, m.a. morðmáli, hefur dregist að gefa út ákærur. Á nýju ári eru ákærur væntanlegar.

Fjórmenningarnir fengu stöðu sakborninga 14. febrúar í ár. Tveim dögum síðar gat Stefán útvarpsstjóri loksins, loksins ráðið fréttastjóra. Útvarpsstjóri vissi ekki hverjir yrðu ákærðir og þurfti að bíða með ráðninguna. Það bendir ekki til að traust ríki á ríkisfjölmiðlinum milli fréttamanna og útvarpsstjóra.

Sakborningurinn Þóra situr enn sem fastast í stöðu yfirmanns RÚV. En Stefán losaði sig um síðustu áramót við Helga og Rakel sem hafa stöðu vitna. Hvers vegna?

Ýmsum spurningum er ósvarað í RSK-sakamálinu. Þegar ákærur verða gefnar út bætast við fleiri púsl, þótt heildarmyndin liggi fyrir.

Blaðamenn, sem eiga að segja fréttir en ekki stunda afbrot, tóku lögin í sínar hendur. Þeir sitja núna í biðsal réttlætisins þöglir sem gröfin um eigin aðild að sakamáli en þykjast fullfærir að veita öðrum aðhald í nafni fjórða valdsins. Sjálfum sér veita þeir ekkert aðhald og njóta meðvirkni annarra blaðamanna og fjölmiðla. RSK-sakamálið er einstakt í vestrænni fjölmiðlasögu.

Skildu eftir skilaboð