Samgöngustofu var ekki heimilt að ráða í tímabundið starf án þess að auglýsa það fyrst laust til umsóknar, segir í áliti Umboðsmanns Alþingis.
Kvartað var til Umboðsmanns Alþingis yfir ráðningu Samgöngustofu án þess að starfið væri auglýst laust til umsóknar. Starfið hafði upphaflega verið auglýst en hætt var við ráðningu eftir að sá sem metinn var hæfastur afþakkaði starfið. Fimm mánuðum síðar var ákveðið að ráða í starfið, tímabundið til tveggja ára, án þess að það væri auglýst og var sá ráðni ekki úr hópi fyrri umsækjenda. Þetta kemur fram á vef Umboðsmanns Alþingis.
„Í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins er mælt fyrir um almenna skyldu til að auglýsa laus embætti og önnur störf hjá ríkinu. Taldi umboðsmaður engar undanþágur laga eða reglna frá þeirri skyldu að auglýsa starfið eiga við og að Samgöngustofu hefði ekki verið heimilt að ráða með þessum hætti í það. Mæltist hann til að Samgöngustofa gætti framvegis að sjónarmiðunum í álitinu. Tók umboðsmaður jafnframt fram að hann teldi ólíklegt að annmarkinn leiddi til ógildingar á ráðningunni. Það yrði þá að vera verkefni dómstóla að fjalla frekar um réttaráhrif þess ef einhver teldi á sig hallað vegna ráðningarinnar. Í ljósi eðlis málsins var álitið sent innviðaráðuneytinu til upplýsingar,“ segir í áliti Umboðsmanns.