Duga 70 milljarðar virkilega ekki til að bæta tjón?

frettinInnlendar2 Comments

Tryggingafélögin lágu á 70 milljarða króna bótasjóðum til að mæta tjónakostnaði í lok árs 2021. Þessi fjárhæð dugar fyrir öllum tjónagreiðslum í 5-6 ár. Samt gerir Fjármálaeftirlit Seðlabankans (FME) ekkert til að hefta þessa miklu sjóðasöfnun, sem fyrst og fremst byggist á of háum iðgjöldum á lögboðnar ábyrgðartryggingar ökutækja.

Bótasjóðirnir virðast aldrei nógu digrir

Skýru ljósi er varpað á iðgjaldaokur tryggingafélaganna í svari við fyrirspurn Ágústs Bjarna Garðarssonar þingmanns Framsóknarflokksins á Alþingi 13. desember. Í svarinu kemur enn og aftur fram að FME telur það einu skyldu sína að girða tryggingafélögin með belti og axlaböndum, setja á þau hjálm, klæða í eldtefjandi hlífðargalla með fallhlíf á bakinu og senda í næsta sprengjubyrgi. Öryggisins vegna.

Með öðrum orðum, FME beinlínis hvetur tryggingafélögin til að hafa iðgjöld svo há að næstum jafn mikið renni í bótasjóði á hverju ári og greitt er í tjónabætur. Bótasjóðir allra tryggingafélaganna stóðu í 62,5 milljörðum króna í árslok 2020 en voru komnir í 69,5 milljarða í árslok 2021 – hækkun um 7 milljarða króna. Öryggisþörfin er svo mikil að mati FME að bótasjóðirnir virðast aldrei nógu digrir.

Bíleigendur standa undir 70% af iðgjöldunum 

Eigendur ökutækja greiddu tryggingafélögunum 40,3 milljarða króna í iðgjöld af lögbundnum ábyrgðartryggingum og kaskótryggingum árið 2021. Iðgjöld af annarri starfsemi tryggingafélaganna sem Ágúst Bjarni fékk svar við voru 17,4 milljarðar 2021. Bíleigendur standa þannig undir 70% af heildar iðgjaldatekjum tryggingafélaganna í þeim flokkum sem þingmaðurinn spurði um, þ.e. bílatryggingar, fjölskyldu- og heimilistryggingar, húseigendatryggingar og líf- og sjúkdómatryggingar.

Aðrar iðgjaldatekjur tryggingafélaganna árið 2021 námu 22,6 milljörðum króna, en þar er um að ræða tryggingar sem snúa að rekstri fyrirtækja og var ekki getið sértaklega um þær í svarinu við fyrirspurn þingmannsins. Þar á meðal eru eignatryggingar, sjótryggingar, rekstrartryggingar og annað í þeim dúr.

Samtals innheimtu tryggingafélögin 80,3 milljarða króna í iðgjöld árið 2021 og af því stóðu eigendur ökutækja undir helmingnum. Heildar bótasjóður tryggingafélaganna af heildarstarfsemi þeirra stóð í 108 milljörðum króna í lok júní 2022. Þar af var bótasjóður vegna bílatrygginga 65 milljarðar króna.

FÍB.is

2 Comments on “Duga 70 milljarðar virkilega ekki til að bæta tjón?”

Skildu eftir skilaboð