Áhrif föðurleysis á börn

frettinArnar Sverrisson, PistlarLeave a Comment

Eftir Arnar Sverrisson sálfræðing:

Neikvæð áhrif föðurleysis og ófullkomins sambands við föður eru alkunn. Upplausn fjölskyldna hefur aukist verulega síðustu áratugi. Í kjölfarið rofnar eða minnkar samband barna við föðurinn, þar sem yfirgnæfandi hluti þeirra býr áfram í móðurranni. Sama á við um barn-móður fjölskyldur.

Hefðbundna fjölskyldan er stöðugt á undanhaldi. Í Bandaríkjum Norður-Ameríku (BNA) fæðist um helmingur barna mæðra undir þrítugu utan hjónabands. Synir táningsmæðra eru yfirleitt í sérstökum áhættuhópi með tilliti til þroska og aðlögunar. Í tæpum 70% tilvika fara konur fram á skilnað.

Þriðjungur barna í BNA elst upp föðurlaus

Mæður verða stöðugt daprari í bragði og neyta ógnarlegs magns þunglyndislyfja. Í langflestum tilvika fá mæður forsjá barnanna eða búa þeim heimili. Mikill fjöldi drengja nýtur ekki föðurhandleiðslu. T.d. elst um þessar mundir um þriðjungur barna upp við föðurleysi í Bretlandi og BNA. Fjarlægð föður, hvort heldur óeiginleg eða eiginleg, getur verið býsna afdrifarík fyrir þroska og heilbrigði barna. Norskar rannsóknir á sjómannssonum benda til, að þeim hætti til að ruglast öðrum drengjum fremur í ríminu um kynímynd sína og kynhlutverk.

Fangar og föðurímynd

Skoðanir á íslenskum föngum karlkyns (en það eru þeir langflestir) á áttunda áratugi síðustu aldar gáfu til kynna meinsemdir í tengslum við föður í bernsku. Bandarískar rannsóknir sýna, að langflestir þeirra ungu karlmanna, sem bíða fullnustu dauðadóms, hafa enga átt föðurfyrirmynd eða hana ófullnægjandi.
Athyglisbrestur (ADHD), geðsjúkdómar, þroskaskerðing og námsörðugleikar færast í vöxt, jafnvel svo, að talað er um „taugaþroskakreppuna“ (neural crises). Börn þunglyndra mæðra eru allt að tvisvar sinnum líklegri til að glíma við ADHD, svo og þeir drengir, sem ekki búa við aðhlynningu feðra sinna.

Drengjum er þrefalt hættara, en stúlkum, við að ánetjast tölvuleikjum. Þeim er einnig hættara við að ánetjast klámi, áfengi og öðrum fíkniefnum. Þeir hrökklast umvörpum úr framhaldsskóla og stunda síður nám við æðri menntastofnanir. Þeir eru reknir þrisvar sinnum oftar úr skóla, en stúlkur. Einkunnir þeirra eru yfirleitt lakari, nema séu þeir stúlkulegir í hátt. Þá fá þeir svipaðar einkunnir.

Slök frammistaða í lestri er sérstakt áhyggjuefni, því lestur er nefnilega fyrirboði árangurs í lífinu. Greind drengja hrakar einnig. Það er skiljanlegt í ljósi aðbúnaðar þeirra í samfélagi og skóla. Rannsóknir frá Bretlandi benda til, að drengir hafi glutrað niður 15 stigum greindarvísitölu síðan 1980. Jafnvel þótt samvistir með föður fyrir 11 ára aldur stuðli ákveðið að aukinni greind þeirra, er föðurleysið samt sem áður geigvænlegt.

Athuganir á stúlkubörnum, er basla með ýmis konar átvanda, sýna, að fjarlægð föður á viðkvæmustu mótunarárunum geti að einhverju leyti skýrt vandræði þeirra. Andstætt því, sem oft er talið, gefa rannsóknir vísbendingar um, að stúlkur eigi jafnvel erfiðara uppdráttar en drengir í sambúð við stjúpa eða fósturföður við „föðurmissi“ í kjölfar fjölskylduupplausnar.

Færa má rök fyrir því, að stúlkubörn, sem ekki njóta góðra samvista við föður sinn, séu giska fákunnandi í samskiptum við hitt kynið. Í ákveðnum tilvikum gerast þær ósparar á blíðu sína í örvæntingarfullri leit að umhyggju karlmanns (les: föður). Það eru sorgarsögur.

Föðurfjarvera og snemmkomins kynþroska stúlkna

Nýlega birtist grein í bandaríska dagblaðinu, Epoch, um kynþroska stúlkna, eftir Martha Rosenberg. Titill greinarinnar er: „Hví verða stúlkur fyrr kynþroska en áður“ (Why Are Girls Reaching Puberty Earlier). Greinin er eftirtektarverð. Þar segir m.a., að stúlkur verðir stöðugt fyrr kynþroska. Árið 1840 urðu þær kynþroska 16.5 ára, þ.e. fengu tíðablæðingar. Árið 2020 voru þær 12.4 ára (early onset puberty/precocious puberty).

Snemmkominn kynþroski virðist tengjast auknum líkum á offitu, sykursýki, hjartasjúkdómum, vanþroska beina og vöðva, öndunarerfiðleikum, krabbameini og truflun hugþroskans.

Andlega eru þær einnig bágstaddari en hinar, með tilliti til; þunglyndis, fíkniefnaneyslu, átvanda og hegðunarerfiðleika (t.d. í samskiptum við drengi, í kynlífi). Það eru einnig vísbendingar um, að líkamsvöxtur þeirra verði rýrari.

Rannsókn bandaríska sálfræðingsins, Julianna Deardorff, og félaga, er áhugaverð. Skýrt er frá henni í grein, sem titluð er: „Fjarvera föður, vísitala líkamsþunga og kynþroskaaldur stúlkna: Mismunandi áhrif fjölskyldutekna og uppruna“ (Father Absence, BMI [Body Mass Index], and Pubertal Timing in Girls: Differrential Effects by Family Income and Ethnicity).

Bent er á, að fjöldi rannsókna bendi á tengsl föðurfjarveru og snemmkomins kynþroska stúlkna. Greinarhöfundar gerðu framskyggna (prospective) rannsókn á 444 stúlkum á aldrinum sex til átta ára. Áhrif virtust greinilegust í hátekjufjölskyldum. Þeir segja: Stúlkur, sem verða kynþroska snemma, eiga heilsubrest á hættu, þar með talinn tilfinninga- og fíknvandi, og krabbamein í æxlunarfærum og brjóstum síðar á lífsleiðinni. Þær lifa kynlífi fyrr. Mikilvægi þessa þroskaskeiðs með tilliti til heilsufars um langan aldur er umtalsvert og tekur til alls konar líkamlegra og andlegra kvilla.

Umhverfisáhrif og kynþroski

Þegar litið er til fleiri rannsókna er ljóst, að umhverfisáhrif kynnu líka að hafa umtalsverð áhrif á kynvakaþroska og – framleiðslu eins og t.d. málmar; blý, mangan, ál, kopar, kvikasilfur, nikkel og selení. Þessi óþverraefni eða skaðvaldar (endocrine disruptor) eru notaðir í alls konar neysluvarning og bóluefni. Við skoðum fundust rúm tvö hundruð aðskotaefni í blóði nýbura, þar á meðal bisfenól (bisphenol A), sem getur haft svipuð áhrif og kvenkynvaki (estrogen).

Tilvísanir með grein Arnars.

Skildu eftir skilaboð