Hafa þeir yfirgefið mig eða ég þá?

frettinHallur Hallsson, Pistlar4 Comments

Eftir Hall Hallsson:

Þúsundir færslna eru ritskoðaðar á facebók; mikill fjöldi hægra fólks er jaðarsett og varpað í f-fangelsi fyrir að efast um rétttrúnað woke, covid & stríðið í Úkraínu; hægra fólki er grímulaust varpað í f-grjót, málfrelsi er dautt. Í stað þess að koma þessu fólki til varnar, eru fjölmiðlar okkar þátttakendur í hinum ljóta leik Sílíkondals í Kaliforníu; facebók, youtube, google og rest. Ritstjóri Kjarnans er ósáttur við nýfengið málfrelsi Twitters. Ritstjórinn hneykslast á því að Musk hafi lokað ‘mannréttindadeild‘ Twitter. Deildin sú sá um ritskoðun og varpaði hægra fólki í f-fangelsi, þar á meðal 45. forseta Bandaríkjanna. Á orwellsku er ritskoðun mannréttindi, stríð er öryggi sagði Zelinsky í Sameinuðu Bandaríkjaþingi.

Ég er meðal þeirra sem settur er í f-fangelsi; þaggaður, ofsóttur, úthrópaður, texti skyggður, blokkaður, færslur niðurfærðar. Ég hef verið kallaður ljótustu nöfnum íslenskrar tungu af vinstri villingum ófærum um gagnrýna hugsun; rökræna umræðu. Vinstri villtir ritskoðaðarar samfélagsmiðla í Sílikondal dæma skoðanir mínar samfélagslega hættulegar eftir klögun íslenskra glóbal-popúlista. Hversu galið er það?

Í fremstu víglínu frétta

Ég hef næstum hálfrar aldar reynslu í fremstu víglínu frétta. Ég var meðal stofnenda Dagblaðsins 1975 með föður mínum Halli Símonarsyni og Jónasi Kristjánssyni. Ég fór á Moggann 1979 og vann með Styrmi Gunnarssyni og Matthíasi Johannesen, mesta blaðamanni 20. aldar. Ég lærði af þeim bestu. Ég breytti fréttum í sjónvarpi 1986-1994. Ég flutti fréttir af hruni Hafskips og Útvegsbanka, hruni Sambandsins, hruni Sovétsins og klofningi Sjálfstæðisflokksins. Ísland nötraði og Alþingi sjokkeraðist þegar ég sagði frá ákæru á hendur forseta Alþingis. Það gekk ekki lítið á þegar Sverrir heitinn Hermannsson bankastjóri hugðist reka Óla Kr. Sigurðsson heitinn út úr Olís, eigin fyrirtæki. Ég var frumkvöðull lögreglu og dómsfrétta í sjónvarpi. Á meðan öðrum var úthlutað fréttaefni á fréttafundum sótti ég fréttir á bak við luktar dyr elítunnar. Spaugstofan sótti óspart innblástur. Ég var fremsti fréttahaukur Sjónvarpsins þegar það var til húsa á Laugavegi; flutti þjóðinni fréttir af skákglímum Jóhanns við Korchnoi og Karpov. Ómar Ragnarsson auðvitað var & er þjóðardýrgripur.

Þorsteinn Pálsson formaður Sjálfstæðisflokksins ruddi vinsælasta þingmanni flokksins, Alberti Guðmundssyni úr pólitískum vegi árið 1987. Atlaga Þorsteins var sem bjúgverpill í gæfulausri formennskutíð. Albert kom í sjónvarpssal eftir að hafa verið flæmdur úr ráðherraembætti; leiðtogi Sjálfstæðismanna í Reykjavík. Skiptiborðið bókstaflega sprakk og flautur voru þeyttar þegar örtröð myndaðist fyrir utan. Við Ingvi Hrafn vorum sakaðir um að kljúfa Sjálfstæðisflokkinn. Eftir að Sjálfstæðisflokkur Þorsteins rak Ingva Hrafn var tekið til að bíta í hæla mína. Ég tók boði Páls Magnússonar að færa mig á Stöð 2. Þar hélt ég áfram að segja frá atburðum á bak við luktar dyr. Ég var með fréttir um brennivínsmál elítunnar. Jón Baldvin sló til mín í beinni útsendingu og krafðist með Steingrími Hermannssyni að við Palli yrðum reknir í skiptum fyrir 500 milljóna ríkislán til Stöðvar2. Metinn á 500 millur. Á bak við þessar luktu dyr!

Váfugl í Westminster

Það kom ekki í veg fyrir að ég færi með Jóni Baldvin í frægðarför hans til Eystrasaltslandanna í ársbyrjun 1991; Rauði herinn við borgarhlið Vilnius, Riga og Tallinn. Auðvitað erfði hvorugur. Ég beitti mér fyrir því að Ingvi Hrafn yrði ráðinn á Stöð 2. Ég hætti eftir að Ingvi vinur minn “left the building“. Sjónvarpið var tröllum gefið þegar til varð ohf. RÚV sem ropi úr iðrum. Ég skrifaði Váfugl til varnar fullveldi Íslands. Ensk þýðing Váfugls var gefin út í Westminster, breska þinginu 2012 meðal lávarða og þingmanna sem elska land sitt. Þegar ég fagnaði fullveldi Bretlands 2019 sögðu þeir við mig í Thatcher House: “The Vulture inspired us, you inspired us.“  Kiljan hefur ekki enn frétt af Váfuglinum, Silfur Egils ekki af Halli Hallssyni.

Þaggaður

Eftir að ég tók afstöðu gegn Orkupakka 3 tók minn gamli vinur að snúast gegn mér og formæla í sand og ösku. Ég er útilokaður og þaggaður á ÍNN líkt og þaggaður á Stöð 2 eftir að Jón Ásgeir breytti fréttastofunni í pólitíska ormagryfju; þaggaður á RÚV í rúman aldarfjórðung. Þegar RÚV fagnaði 50 ára afmæli Sjónvarpsins 2016 með stór-veislu var ég strokaður út, sem þeir sem féllu í ónáð í Sovétinu voru strokaðir út úr myndum flokksforystunnar á Kremlarmúrum. Nú stend ég einn og segi stétt minni til syndanna fyrir að elta villuljós og bregðast þjóð sinni, fólkinu í landinu. Ríkismiðillinn RÚV þjónar óseðjandi ríkisvaldi í bandalagi við ofsaríka davósa; lyfjarisa, vopnasala og búrókrata. RÚV hylmir yfir barnaníð og mansal. Hversu galið er það?

Ég mótmæli

Ég andæfi ríkislygi; einni ríkisskoðun að hætti Marteins Mosdal; pólitískri ritskoðun, pólitískum ofsóknum, pólitískum ákærum, pólitískum réttarhöldum, pólitískri lögreglu, covid-lygi, vestrænum glóbalizma sem birtist í Endalausum styrjöldum Nato, Ameríku og Evrópu. Íhugið vandlega styrjaldir þeirra: Balkanskagi fyrir 30 árum, Serbía, Afganistan, Írak, Lýbía, Sýrland, Súdan, Sómalía og nú Úkraína. Tólf milljónir fallnar varlega áætlað, tugir milljónir á flótta. Julian Assange sá í gegn um stríðsleiki amerískra stríðsherra Clinton Bush Obama og Biden löngu á undan okkur hinum ... fylgið peningaslóðinni sagði Assange fyrir áratug. Hugleiðið: Af hverju er Assange í fangelsi?

Ísland er land mitt því aldrei ég gleymi, Jesús leiðtogi minn.

4 Comments on “Hafa þeir yfirgefið mig eða ég þá?”

  1. Hallur! Þeir hafa yfirgefið Guð sinn og svikið land sitt og þjóð. Þú þarft ekki að hryggjast þótt þú sért ekki gjaldgengur lengur í þeirra hópi.

    Vertu glaður yfir því að vera álitinn, verðugur ofsókna vegna trúar þinnar á, Guð vors lands og land vors Guðs.

    Jesús segir í Jóhannesarguðspjalli 15. kafla:
    „Ef heimurinn hatar yður, þá vitið, að hann hefur hatað mig fyrr en yður. Væruð þér af heiminum, mundi heimurinn elska sitt eigið. Heimurinn hatar yður af því að þér eruð ekki af heiminum, heldur hef ég útvalið yður úr heiminum.“
    „Minnist orðanna, sem ég sagði við yður: Þjónn er ekki meiri en herra hans. Hafi þeir ofsótt mig, þá munu þeir líka ofsækja yður. Hafi þeir varðveitt orð mitt, munu þeir líka varðveita yðar.“
    „En allt þetta munu þeir yður gjöra vegna nafns míns, af því að þeir þekkja eigi þann, sem sendi mig.“
    „Hefði ég ekki komið og talað til þeirra, væru þeir ekki sekir um synd. En nú hafa þeir ekkert til afsökunar synd sinni.“

    Guðmundur Böðvarsson kvað:

    Eitt verð ég að segja þér áður en ég dey,
    enda skalt þú börnum þínum kenna fræði mín,
    sögðu mér það álfarnir í Suðurey,
    sögðu mér það dvergarnir í Norðurey,
    sögðu mér það gullinmura og gleymérei og gleymdu því ei:
    Að hefnist þeim er svíkur sína huldumey,
    honum verður erfiður dauðinn.

    Engillinn sagði við þá: Verið óhræddir.
    Því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og lagt í jötu.
    Lk. 2:10-12

    Guð gefi þér og þinni fjölskyldu, gleðileg jól, gott og farsælt komandi ár. Þökk fyrir það liðna.

  2. Þær eru nú því miður of margar mannhórurnar sem selja sig fyrir peninga og kasta á glæ guði og siðmenningu. Við eigum einfaldlega við ofurefli að etja.

    Almenningur sem fær ekki senda prentaða peninga inn á reikninga sína er svo sekur fyrir leti og lepur upp áóðurinn gagnrýnislaust.
    Spurningi er bara hvar þolmörk almennings liggja svo þau taki strútshaus sinn upp úr sandinum til að athuga hver sé að sparka svo fast í rassinn á þeim.

  3. Hallur, haltu áfram þinni vegferð og láttu ekki einstrengishátt og heimsku annara fjölmiðla hafa áhrif á þig og maður tali nú ekki um stjórnmálakerfið í heild sinni ásamt forseta trúðinum.

    Ísland þarf á fjölmiðlafólki eins og þér!

Skildu eftir skilaboð