Greinin birtist fyrst á Ogmundur.is 26. 12. 2022.
Útbreidd trú er það að Evrópusambandið [ESB/Sambandið] sé sérstakt friðarbandalag og afar lýðræðislegt fyrirbæri. Hvorugt á við rök að styðjast. Enda þótt friður í Evrópu hafi upphaflega legið til grundvallar forvera Evrópusambandsins, þ.e. Kola-og stálbandalaginu, eftir síðari heimsstyrjöld, er fátt sem bendir til þess í dag að sambandið sé sérstakt friðarbandalag, í raun fjarri því.
Það er gömul saga og ný að réttlæta hernaðarumsvif og herskáa stefnu gagnvart öðrum ríkjum með þeim rökum að menn elski friðinn – séu sérstaklega friðelskandi. Stefna ESB, t.a.m. í málefnum Úkraínu, bendir þó alls ekki til þess að menn sitji á „friðarstólum“ í Brussel. Þá hefur umræða undanfarin ár, um Evrópuher, varla farið framhjá neinum.
Ljóst er að „samræmingunni“ innan Sambandsins er ætlað að ná til nánast allra þátta í mannlegu samfélagi. Lagakerfið skal samræmt og fellt undir eina yfirstjórn í Lúxemborg, þ.e. Evrópudómstólana sem skera úr um túlkun og gildi Evrópuréttar. Hugsun fólks skal samræmd og gert refsivert að hafa aðrar skoðanir en sambandið leyfir. Það á t.d. við um áform „upplýstu einvaldanna“ í Brussel og snúa að tjáningarfrelsinu. Þetta hefur þegar gengið svo langt að gefinn var út bæklingur um það hvað má segja og hvað má ekki segja.
Allt ber þetta skýr merki alræðistilburða og er auðvitað óravegu frá lýðræði og frjálsri hugsun. Ef einhver vogar sér að hafa sjálfstæða skoðun og iðka sjálfstæða hugsun er það umsvifalaust stimplað sem „hatursorðræða“ og „upplýsingaóreiða“. Íslenskir „pópúlistaprófessorar“ passa sig vandlega á að fylgja þeirri línu og stimpla alla pópúlista sem ekki hafa sömu skoðun og þeir sjálfir og þá sem iðkuð er innan ESB. Að reyna að stýra orðræðunni er heldur ekkert nýtt. Öll alræðisstjórnvöld hafa stundað það í gegnum söguna og ekki hikað við að beita boðum og bönnum til þess.
Rökrétt framhald af þessu verður að „samræma“ skrif allra rithöfunda í Evrópu og skoðanir þeirra. Þannig má vel sjá fyrir sér að allar útgefnar bækur verði að fá samþykki Evrópusambandsins áður en hægt er að gefa þær út. Þær verði yfirfarnar með tilliti til „hatursorðræðu“ og „upplýsingaóreiðu“. Öll ljóðagerð, skáldsögur, sagnfræðirit og hvað nöfnum tjáir að nefna, verður samræmt hinni einu, löggiltu „Evrópuskoðun“. Tilgangurinn er augljós; það er auðveldara að drottna yfir ríkjum ef þar gildir ein samræmd skoðun í hverju máli og „samræmd útgáfustarfsemi“. Þetta er fyrst og fremst stjórnunarlegt atriði.
Lýðræði tekur tíma, kostar umræður um mikilvæg mál sem einvaldar ESB telja hvort sem er að almenningur hafi ekkert vit á. Frá sjónarhóli þeirra sem styðja óhefta alþjóðahyggju er lýðræði hindrun í vegi auðmagnsins. Það er talið skilvirkara að hafa eina lögboðna skoðun í sérhverju máli og það skapar líka ákveðinn fyrirsjáanleika. Hluti af þessari óheillaþróun er „sérfræðivæðing“ skoðana og stimplun annara skoðana, eins og áður var nefnt.
Hér er rétt að taka fram að skortur á lýðræði er ekki nýtt fyrirbrigði. Árið 1961 kom út bók í Bandaríkjunum eftir kunnan prófessor, Robert Dahl, og nefnist á frummálinu: Who Governs?: Democracy and Power in an American City.[i] Það má lauslega þýða sem: Hver stjórnar?: Lýðræði og völd í bandarískri borg. Bókin byggir á rannsókn Dahl á pólitísku valdi í New Haven í Connecticut. Í samræmi við sjónarhorn fjölhyggju (pluralism) telur Dahl að margir hagsmunahópar keppi innbyrðis um völd á pólitískum vettvangi en hlutverk stjórnvalda sé að miðla málum á milli hópanna.
Loðvíki XIV. konungi Frakka, er eignað orðtækið, Ríkið, það er ég (L'État, c'est moi). Í dag gæti þetta hljóðað svo: Evrópa, hún er framkvæmdastjórnin!
Stofnanir Evrópusambandsins
- Evrópuþingið
Um Evrópuþingið segir í 1. mgr. 14. gr. sáttmálans um Evrópusambandið: „Evrópuþingið skal, ásamt Ráðinu, fara með löggjafar- og fjárlagastarf. Það skal sinna pólitísku eftirliti og samráði eins og mælt er fyrir um í sáttmálunum. Það skal kjósa forseta framkvæmdastjórnarinnar.[ii]“
Í 2. mgr. segir: „Evrópuþingið skal skipað fulltrúum borgara Sambandsins. Ekki skulu þeir vera fleiri en sjö hundruð og fimmtíu talsins, auk forsetans. Forsvar borgaranna skal fara hlutfallslega lækkandi, með að lágmarki sex fulltrúa í hverju aðildarríki. Engu aðildarríki skal úthlutað fleiri en níutíu og sex sætum. Evrópuráðið skal samþykkja samhljóða, að frumkvæði Evrópuþingsins og með samþykki þess, ákvörðun um skipan Evrópuþingsins, að teknu tilliti til meginreglnanna sem um getur í fyrstu málsgrein.“
Í 3. mgr. 14. gr. segir: „Þingmenn Evrópuþingsins skulu kosnir leynilega til fimm ára, í beinum, frjálsum og almennum kosningum.“ Í 4. mgr. kemur fram að „Evrópuþingið skal velja forseta sinn og embættismenn úr sínum hópi.“
Um Evrópuþingið er og fjallað í sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins [TFEU], gr. 223-234. Í 1. mgr. 223. gr. sáttmálans segir svo: „Evrópuþingið skal semja tillögu um setningu nauðsynlegra ákvæða fyrir val á meðlimum sínum, í beinum almennum kosningum í samræmi við samræmda málsmeðferð í öllum aðildarríkjum eða í samræmi við sameiginlegar meginreglur allra aðildarríkja. Ráðið, sem ákveður einróma meirihluta fulltrúa sinna, í samræmi við sérstaka lagasetningu og að fengnu samþykki Evrópuþingsins, skal setja nauðsynleg ákvæði. Þessi ákvæði skulu öðlast gildi eftir að aðildarríkin hafa samþykkt þau, í samræmi við sínar stjórnskipunarreglur.“
Þetta ákvæði þarfnast sérstakrar skýringar. Ákvæðinu var verulega breytt með Lissabon-sáttmálanum. Fyrir Lissabon, (áður gr. 138) (og á eftir Amsterdam-sáttmálanum (gr. 190) var kveðið á um það að Ráðið „skyldi, samhljóða (...), setja viðeigandi ákvæði sem það skyldi mæla með fyrir aðildarríkin, til samþykktar í samræmi við þeirra stjórnskipunarreglur.
Samkvæmt eldra fyrirkomulagi var ljóst að kosningalögin var löggjöf aðildarríkjanna og að valdsvið Sambandsins takmarkaðist við að leggja fram, í samræmi við tiltekna málsmeðferð, tilmæli um samþykkt þeirra laga.
Þar af leiðandi var litið á kosningalögin sem alþjóðasamning milli aðildarríkja, út frá lagalegu sjónarmiði, sem hefði sama gildi og sáttmálarnir og sætti því ekki lögmætisskoðun dómstólsins [legality review], en þar er átt við Evrópudómstólinn.
Hins vegar kemur skýrt fram í Lissabon-sáttmálanum að það sé Ráðsins að setja nauðsynleg ákvæði um kosningar til Evrópuþingsins, í samræmi við sérstaka málsmeðferð [við löggjöf]. Þar er kveðið á um samþykki Evrópuþingsins og, sem viðbótarskilyrði fyrir gildistöku, samþykki aðildarríkjanna skv. stjórnskipunarreglum þeirra.
Kosningalögin eru því nú nú afleidd löggjöf [secondary law], þó sérstaks eðlis, en lögmæti þeirra krefst þess að farið sé að ákvæðum. sáttmálanna og er háð endurskoðun Evrópudómstólsins. Lögmæti tillagna Evrópuþingsins verður því að meta innan lagaramma sáttmálanna eins og þeir eru núna.[iii]
- Ráðið
Í 16. gr. sáttmálans um Evrópusambandið [TEU] eru skilgreiningar á hlutverki Ráðsins [the Council]. Í 1. mgr. segir svo um tilgang þess: „Ráðið skal, ásamt Evrópuþinginu, fara með löggjafar- og fjárlagastarf. Það skal sinna stefnumótun og samræmingu eins og mælt er fyrir um í sáttmálunum.“ [1. mgr. 16. gr.].
Ráðið skal samanstanda af einum fulltrúa hvers aðildarríkis sem telst ígildi ráðherra og getur skuldbundið ríkisstjórn viðkomandi aðildarríkis og greitt atkvæði. [2. mgr.].
Ráðið tekur ákvarðanir með auknum meirihluta[iv] nema sáttmálarnir kveði á um annað [3. mgr.]. Frá og með 1. nóvember 2014 skal aukinn meirihluti skilgreindur sem að minnsta kosti 55 % meðlima Ráðsins, að minnsta kosti fimmtán þeirra, og fulltrúum aðildarríkja sem eru að minnsta kosti 65 % íbúa Sambandsins. [Tvö skilyrði sem þarf að uppfylla]. Minnihluti sem telst bær til þess að hindra ákvörðun verður að hafa að minnsta kosti fjóra fulltrúa í Ráðinu. Náist það ekki telst auknum meirihluta náð.
Um hlutverk Ráðsins er einnig fjallað í sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins [TFEU], gr. 237-243. Þegar krafist er einfalds meirihluta, skal Ráðið taka afstöðu út frá meirihluta þeirra sem í Ráðinu eru (component members) [1. mgr. 238. gr.].
Nefnd sem samanstendur af fastafulltrúum ríkisstjórna aðildarríkjanna skal bera ábyrgð á undirbúningi starfs Ráðsins og sinna þeim verkefnum sem það hefur falið henni. Nefndin getur tekið ákvarðanir um málsmeðferð í málum sem kveðið er á um í starfsreglum ráðsins. [1. mgr. 240. gr.]. Ráðið skal njóta aðstoðar aðalskrifstofu, á ábyrgð aðalframkvæmdastjóra sem Ráðið tilnefnir. Ráðið ákveður skipulag aðalskrifstofunnar með einföldum meirihluta. [2. mgr. 240. gr.]. Ráðið tekur ákvarðanir um málsmeðferð og samþykkt starfsreglna sinna með einföldum meirihluta. [3. mgr. 240. gr.].
- Framkvæmdastjórnin
Eins og felst í nafninu er Framkvæmdastjórnin sú stofnun sem fer með framkvæmdavald á sviði Evrópusambandsins. Um hana er rætt undir gr. 17 í sáttmálanum um Evrópusambandið [TEU] og í stofnanahluta sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins [TFEU], í sjötta hluta, kafla I (The Institutions) undir gr. 244-250.
Framkvæmdastjórnin skal stuðla að almennum hagsmunum Sambandsins og taka viðeigandi frumkvæði í því skyni. Hún skal tryggja beitingu sáttmálanna og ráðstafana sem stofnanirnar samþykkja samkvæmt þeim. Hún skal hafa umsjón með beitingu laga Sambandsins undir stjórn Evrópudómstólsins.
Hún skal sjá um framkvæmd fjárlaga og stýra áætlunum. Hún skal gegna samræmingar-, framkvæmda- og stjórnunarstörfum eins og mælt er fyrir um í sáttmálunum. Framkvæmdastjórnin skal tryggja fyrirsvar Sambandsins útávið, gagnvart ríkjum utan þess, að undanskildri utanríkis- og öryggisstefnunni og önnur tilvik sem tilgreind eru í sáttmálunum. Hún skal hafa frumkvæði að gerð árlegra áætlana Sambandsins og áætlana þess til lengri tíma, með tilliti til gerðar samstarfssamninga milli stofnana. [1. mgr. 17. gr.].
„Að teknu tilliti til kosninga til Evrópuþingsins og að höfðu viðeigandi samráði skal Leiðtogaráðið [the European Council[v]] leggja fyrir Evrópuþingið tillögu, sem samþykkt hefur verið með auknum meirihluta, um tilnefningu í stöðu forseta framkvæmdastjórnarinnar. Sá, sem tilnefndur er, skal kosinn af Evrópuþinginu með stuðningi meirihluta allra þingmanna.“ [7. mgr. 17. gr.].
Mynd 1[vi]
Mynd 1 sýnir höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í Brussel.
Hvernig birtist lýðræðishallinn?
Áður en rætt er um lýðræðishallann[vii] inna Evrópusambandsins er ágætt að byrja á skilgreiningu hugtaka. Fyrsta spurningin er þá þessi: hvað er lýðræði? Orðið lýðræði er samsett orð og rakið til Forn-Grikkja. Gríska orðið „δῆμος“ (demos) hefur mismunandi merkingu en vísar til sveitarfélags, bæjarfélags, sýslu eða þorps. En gríska orðið „κρατια“ (ræði) vísar hins vegar til stjórnunar. Sé þessu tvennu steypt saman verður útkoman einhvers konar fólks- eða fjölræði [Δημοκρατία].
Af þessu er ljóst að orðið lýðræði merkir stjórnun þar sem fjöldinn ræður. Fólk getur þá strax mátað þessa skilgreiningu við „konuna sem enginn kaus“, þ.e. Ursulu von der Leyen sem er forseti framkvæmdastjórnar ESB. En með lýðræðislegri kosningu, eins og hér um ræðir, er að jafnaði vísað til þess hversu mikil áhrif hinn almenni kjósandi hefur, borgari. Síðan er hitt annað atriði hvernig fólk í ákveðnum valdastöðum stendur að kosningu innbyrðis, sín á milli. Það eykur ekki á lýðræði þó valdafólk innan Evrópusambandsins kjósi hvert annað. Kosningin þarf nauðsynlega að koma utan frá, frá borgurum aðildarríkjanna, með sem beinustum hætti.
Það blasir við að Ursula er ekki í þeirri stöðu vegna þess að almennir kjósendur í Evrópu hafi viljað það helst af öllu. Hún er valin af Evrópuþinginu. Kjósendur voru einmitt ekki spurðir! Hið sama á við um aðra í framkvæmdastjórninni, þeir voru ekki kosnir af almenningi. Þetta á engum að koma á óvart. Einræðisherrar (og einvaldsstjórnir) eru ekki kosnir. Þeir einfaldlega taka sér völd, með stofnanafyrirkomulagi, hervaldi – eða sitja í krafti gamallar „hefðar“.
Framkvæmdastjórn ESB hefur þannig hvorki á sér mynd lýðræðis né fulltrúalýðræðis. Með sama áframhaldi gæti hún þróast í átt til einræðis. Einræðisherrar ofsækja löngum rithöfunda, listamenn og aðra sem taldir eru hættulegir valdinu. Sama stefna er nú uppi innan Evrópusambandsins. Þar vilja menn banna umræðu, afnema tjáningarfrelsið, banna Twitter og svo framvegis. Þetta er ískyggileg þróun og minnir mjög á atburði í Evrópu á fjórða áratug síðustu aldar. Oft eru ákvarðanir sem þessar réttlættar með vísan til „nauðsynjar.“ Nýjasta „nauðsynin“ er meint „hatursorðræða.“ En það vill svo til að það má fella hvaða umræðu sem er undir „hatursorðræðu“, líki mönnum ekki það sem sagt er. Þetta hugtak er notað sem valdatæki og því beitt til þess að reyna að þagga niður í þeim sem enn stunda frjálsa hugsun [nokkuð sem rithöfundar ættu að vera mjög hugsi yfir!].
Virkni lýðræðis verður að skoða út frá því hversu mikil áhrif (ef einhver) almennir kjósendur hafa á ákvarðanatöku. Sé þeim mælikvarða beitt á stofnanir Evrópusambandsins hallar mjög á lýðræðið. Það er í raun og veru afar langsótt að sýna fram á það að almenningur hafi þar einhver áhrif. Embættismenn (sem enginn kaus) ráða hins vegar miklu sem og „leiðtogar“ sem enginn kaus heldur. Grunnur stofnana ESB er lagður í Lissabon-sáttmálanum. Í fyrsta lagi í bálki III í sáttmálanum um Evrópusambandið [TEU] gr. 13-19 og í öðru lagi í sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins [TFEU], sjötta hluta, bálki I, gr. 223-287.
Sáttmála ESB þarf að lesa með gagnrýnum huga og sérstöku tilliti til sýndar og reyndar. Vald er að því leyti líkt vatni að það rennur „undan hallanum“, það rennur ekki upp í móti. Lykilorðið þar er hagsmunir, hvar og hverra.
Hér á undan var gerð örlítil grein fyrir þeim stofnunum Evrópusambandsins sem skipta mestu máli í þessu samhengi, þ.e. Evrópuþinginu, Ráðinu og Framkvæmdastjórninni. Spurningin um lýðræðishallann er pólitísk spurning en snertir þó ekki síður lagakerfið.
Undanfarna áratugi hefur dregið úr hæfni frjálslyndra lýðræðisríkja, um allan heim, til þess að koma útbreiddum skoðunum [almannavilja] fram í opinberri stefnu. Það er afleiðing af tvenns konar þróun: löggjafarsamkomur endurspegla í minna mæli almennar skoðanir vegna vaxandi hlutverks peninga í stjórnmálum.
Samhliða því hafa löggjafarsamkomur orðið valdaminni sökum vaxandi mikilvægis skrifræðisstofnana, seðlabanka, endurskoðunar dómstóla, frjálsra viðskipta og alþjóðlegra stofnana. Engar auðveldar lausnir eru til á þessu vandamáli enda eru sumar þessara stofnana sem um ræðir nauðsynlegar til þess að ná fram væntingum sem gerðar eru um góða stjórnarhætti. Þannig má segja að „tæknikratíska vandamálið“ sé raunveruleg ógn við getu frjálslyndra lýðræðisríkja til að mæta kröfum um viðbrögð og frammistöðu.[viii]
Þessa þróun má glögglega merkja á Íslandi og skýrir að talsverðu leyti hvers vegna Alþingi kemur mörgum fyrir sjónir sem afgreiðslustofnun, þar sem fáir þora lengur að hafa sjálfstæðar skoðanir. Braskararnir, og fé sem þeir hafa sópað til sín [eiga það yfirleitt ekki], ráða ferðinni og ná því fram á Alþingi sem þeir vilja. Innleiðing orkupakka þrjú er gott dæmi um það. Annað dæmi er leigubílafrumvarpið. Þar hefur berlega komið í ljós að braskararnir hafa kverkatak á Alþingi sem ævinlega bognar undan auðmagni.
Evrópusambandið stendur frammi fyrir myrkustu kreppu í sögu sinni. Kjarni vandans er skortur á stuðningi borgaranna. Flestir sérfræðingar telja skortinn á stuðningi vera merki um „lýðræðishalla“ sem þurfi að leysa.[ix] En hvað merkir það?
Marie-Françoise Bechtel, er lögfræðingur og fyrrum þingmaður. Hún telur að uppruna lýðræðishallans megi rekja aftur til ársins 1963,[x] þegar Evrópudómstóllinn [Court of Justice of the European Communities] kvað upp úrskurð sinn þess efnis að réttur Bandalagsins skyldu hafa forgang umfram rétt aðildarríkjanna [Primacy of EU Law].
Bechtel telur þessa „valdatöku“ ekki hafa samræmst bókstaf og anda Rómarsáttmálans. En vegna skorts á athygli, og kæruleysis aðildarríkjanna, hafi tekist að koma málum svona fyrir.[xi]
Nú á tímum er innleiðing tilskipana einungis spurning um að „afrita og líma“ afar þéttan texta inn í landsrétt, fyrirskipaðan af stofnunum sem ekki hafa umboð kjósenda að baki sér. Bechtel segir Framkvæmdastjórnina orðna uppsprettu stjórnlausrar lagasetningar og dómsvaldið er að hennar mati utan seilingar borgaranna. [Þarna er fólgið mikið fullveldisafsal aðildarríkjanna].
Hún bendir á að alríkisstjórnlagadómstóll Þýskalands hafi kveðið upp úr um það árið 2009 að ekkert sé til sem kalla má „evrópskt fólk“ [sbr. European Citizen] sem fært sé um að fella ímyndaða evrópska ríkisstjórn. Þess vegna sé ekki hægt að líta á Evrópusambandið í tengslum við lýðræði.[xii]
Vivien A. Schmidt er Jean Monnet prófessor í Evrópusamþættingu við Boston-háskóla. Hún telur meginatriðið vera að ESB standi frammi fyrir „lögmætiskreppu“, að miklu leyti vegna þess hve ákvarðanatökuferlið er ókilvirkt og án gagnsæis. Schmidt segir það áhyggjuefni að jafnvel sérfræðingarnir komi sér ekki saman um það hver fer með ákvörðunarvaldið í stórum málum: hvort það er Ráðið, Framkvæmdastjórnin, Evrópski Seðlabankinn eða Evrópudómstóllinn. Hún spyr hvort æðsta valdið sé í höndum stjórnmálamanna eða tæknikrata.[xiii]
Grundvallarvandamálið sér hún í skorti á lýðræði innan aðildarríkjanna [það er rökrétt ályktun]. Það hafi í vaxandi mæli tekið á sig mynd stjórnmála án stefnu, þar sem taka ákvarðana hafi færst upp á „Evrópustigið“, á mörgum sviðum. Hins vegar sé „Evrópustigið“ stórlega markað af stefnu án stjórnmála.
Olivier Arifon, er prófessor í stjórnmálasamskiptum við Frjálsa háskólann í Brussel [Université libre de Bruxelles]. Hann bendir á mikinn fjölda hagsmunagæslumanna [lobbyists] í Brussel. Skýrslur benda til þess að þeir séu á bilinu 15.000-30.000. Skrá um gagnsæi var tekin í notkun árið 2011. Henni er ætlað að greina þá sem taka þátt í hagsmunagæslu. Í skránni eru meira en 10.000 nöfn. Að mati Arifon eru öflugustu hagsmunasamtökin fagfélög[xiv] [professional organizations].
Hann segir flókna evrópska löggjöf bjóða upp á þetta og að með Lissabon-sáttmálanum og sífellt tæknilegra eðlis staðla og reglna, einkum á sviði heilbrigðis-, orku-, og flutningamála hafi staðan versnað og fagstofnanir tekið upp slæma starfshætti.[xv]
Ísland, Evrópumál og orkumál
Mynd 2[xvi]
Mynd 2 staðfestir það sem margir vita nú þegar, að Ísland er komið með landsreglara sem aðild á að orkustofnun Evrópu, ACER. Íslenski landsreglarinn [Halla Hrund] er þó einungis áheyrnarfulltrúi (án atkvæðisréttar) hjá stofnuninni. Þessi stofnun varð til með upptöku orkupakka þrjú, reglugerð Evrópuþingsins og Ráðsins nr. 713/2009 og nú er fallin úr gildi innan Evrópusambandsins.
Samþykki orkupakka þrjú í íslenskan landsrétt, þar sem Alþingi gekk hagsmuna braskara og gegn þjóðarhagsmunum, er ekki einungis gott dæmi um vanmátt Alþingis heldur og skýrt dæmi um ástina á Evrópusambandinu. Oft er sagt að ástin sé blind. Það á sannarlega við um ást þeirra sem lifa fyrir Evrópusambandsaðild. Þeir sjá í hillingum „himnaríki“ á jörðu; evru sem gjaldmiðil, lága vexti, minni spillingu, yfirtöku erlendra orkufyrirtækja [risafyrirtækja] á íslenskri orkuframleiðslu, lægra matvælaverð ef ekki tryggingu fyrir inngöngu í hitt himnaríkið þegar jarðlífinu lýkur.
Með upptöku evru missa menn mikilvægan hluta í stjórnun ríkisfjármála/peningamála. Oft hefur verið á það bent að langstærsti galli evrunnar sé ein peningastefna sem oft fellur illa að staðbundnum efnahagsaðstæðum. Algengt er að sum ESB-ríki dafni með miklum hagvexti og „litlu atvinnuleysi“. Aftur á móti þjást önnur ríki af langvarandi efnahagssamdrætti og miklu atvinnuleysi.[xvii] Þetta endurspeglar nokkurn veginn Norður-Suður ásinn í Evrópu. Ríkin sunnar í álfunni standa að jafnaði verr að vígi en hin sem norðar eru. Evran hefur gert hag þeirra verr stöddu enn verri.
Verðgildi peninga breytist yfir tíma vegna verðbólgu og verðhjöðnunar. Vextir hafa tilhneigingu til þess að fylgja verðbólgustigi. Almennt gildir að þegar verðhjöðnun er til staðar [verðbólga komin niður fyrir núll] hafa vextir tilhneigingu til þess að lækka og nálgast núllið.
Spilling er viðvarandi vandamál innan Evrópusambandsins. Það eina sem myndi breytast, gengi Ísland í Sambandið, er að íslensk spilling rynni saman við spillinguna á meginlandi Evrópu [Brussel-spilinguna]. Yfirtaka erlendra stórfyrirtækja á íslenskum náttúruauðlindum og orkufyrirtækjum vofir yfir nú þegar, sérstaklega eftir innleiðingu orkupakka þrjú. Þar færi allt endanlega úr böndunum með aðild að Evrópusambandinu eins og einkavæðingaráætlunin Hercules [Privatisation of hydroelectricity generation in France as a result of Project Hercules[xviii]] um virkjunarleyfin í Frakklandi sýnir vel.
Þeir sem mest þvæla um það að fullt sé af opinberum orkufyrirtækjum í Evrópu, sem aftur sýni að engin krafa sé gerð um einkavæðingu af hálfu ESB, eru í ótrúlega mikilli fjarlægð frá því sem raunverulega á sér stað – lifa í öðrum heimi. Þeir virðast heldur ekki skilja að innri orkumarkaður Evrópu byggir á samkeppni.
Sú staðreynd ætti strax að vísa mönnum veginn en gerir það ekki í tilviki sumra flokka á Alþingi [vantar að sjá samhengi hlutanna]. Spurningin er samkeppni á milli hverra? Svar: á milli einkaaðila auðvitað. Þar kemur við sögu mikilvægur hluti innri markaðar Evrópu [og innri orkumarkaðar] og snýst um samkeppnisreglurnar. Þær er að finna í sáttmálum[xix] Sambandsins, reglugerðum og tilskipunum. Þar vísast sérstaklega til bálks VII [Common Rules on Competition, Taxation and Approximation of Laws] í sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins. Opinber fyrirtæki [public undertakings] falla undir gr. 106 og ákvæði um ríkisaðstoð undir gr. 107 í sama sáttmála.
Það er því ævinlega undirliggjandi þrýstingur á það að opinber fyrirtæki séu ekki í beinni samkeppni við „einkaframtakið“ og helst að opinber (þjónustu)fyrirtæki séu einkavædd [nokkuð sem stjórnvöld og borgarar ríkjanna eiga að mótmæla harðlega!].
Að matvöruverð muni lækka mikið er ein blekkingin af mörgum. Verðið mun ekki lækka umfram það sem þegar er með aðildinni að EES. Það verða engar stórfelldar lækkanir á matvöru við inngöngu í Sambandið. Það er mikil blekkingarstarfsemi að reyna að koma því inn hjá þjóðinni. Fjarlægðin í mílum og kílómetrum, til meginlands Evrópu, verður áfram sú sama, flutningskostnaður lækkar ekki, eftir inngöngu, og íslenski markaðurinn verður áfram fákeppnismarkaður.
Að lokum
Nýlega féll dómur[xx] á millidómstigi í Noregi um innleiðingu orkupakka þrjú þar í landi. Dómurinn kemur ekki á óvart, hann sýnir vel hvernig dómstólar bogna og brotna undan valdi auðmagnsins. Undirliggjandi hagsmunir þarna eru mikil raforkusala Norðmanna um sæstrengi. Þetta er í fullu samræmi við það sem hér hefur verið rætt, um valdið.
Þjóðþingin „lufsast niður“ þegar peningar og hagsmunir eru annars vegar. Hið sama gera dómstólar. Eftir lestur dómsins verður ekki annað séð en að rétturinn sé þó sammála ýmsu í málatilbúningi áfrýjanda [Nei til EU] en beitir langsóttum lagaflækjum til þess að þurfa ekki að komast að rökréttri niðurstöðu [og þar með styggja peningavaldið].
Réttinum er t.a.m. nokkuð tíðrætt um regluna um „uppsafnað fullveldisafsal“ [kumulasjonsregel]. Hann telur regluna ekki eiga við í orkumálunum þar sem engu slíku valdi hafi áður verið afsalað á sama sviði í Noregi.
Við mat á því hvort fullveldisafsal sé lítið (lite inngripende ) gildi reglan um uppsöfnun. Spurningin snúist þá um það hvort einungis þurfi að taka tillit til þess valds sem Stórþingið framselur [í einstöku tilviki] eða hvort leggja þurfi mat á vald sem áður hefur verið framselt og jafnvel framsal valds í framtíðinni. [para 3.3 í dóminum].
Lögmannsrétturinn [undir: Lagmannsrettens syn på saken] rekur sínar forsendur í talsvert löngu máli. Þar er m.a. viðurkennt að framsal valds sé undantekning (frávik) frá því sem segir í stjórnarskrá Noregs um að beiting valds sá á forræði norskra ríkisstofnana (norske myndighetsorganer) [para 3.4].
Rétturinn beitir sömu lagaklækjum og á Íslandi, að skilgreina fullveldisafsal „lítið og óverulegt“, eða að minnsta kosti svo „léttvægt“ að menn telji sig komast upp með að afsaka það. Með öðrum orðum er farin sú leið að skilgreina sig framhjá hinu raunverulega vandamáli sem er það að afsal á yfirstjórn orkumálanna, til erlendrar stofnunar [ACER], felur í sér verulegt fullveldissafsal!
Aðferðin þarna er sú að skilgreina fullveldisframsalið sem svo „smátt“ að það komist fram hjá lagaákvæðum um aukinn meirhluta í Stórþinginu og megi því réttlæta. Allur „málatilbúnaður“ réttarins gengur í raun út á það. Þetta er skólabókardæmi um pólitískan dóm (margir íslenskir dómar eru sama marki brenndir). Líklegt má telja að niðurstaðan hafi fyrst verið mótuð og dómurinn síðan skrifaður utan um hana, til þess að gefa niðurstöðunni „faglegan blæ.“
Á Íslandi hafa braskarar og fjárglæframenn, sem stunda þrönga sérhagsmunagæslu, Alþingi Íslendinga algerlega á valdi sínu. Hafa í raun tekið þingið í gíslingu. Í því samhengi kemur ekki á óvart að þar séu ekki lengur stunduð nein stjórnmál. Fólk án jarðsambands ræðir um brennivín í búðir og nauðsyn þess að viðurkenna dópneyslu frekar en að setja sig af alvöru inn í stóru þjóðfélagsmálin, s.s. auðlinda- og orkumálin.
Það verður að segjast eins og er að sumir þingmanna hafa engar umframbyrgðir af viti sem þeir geta reitt í þverpokum. Það er örugglega ekki til skiptanna. Nú er það svo að menn gefa sér ekki vitið sjálfir, ekki frekar en aðra verðleika. Hins vegar má gera þá kröfu til þjóðkjörinna fulltrúa að þeir reyni að minsta kosti að gera þá skásta úr því sem þeir þó hafa og nýti sem best.
Afleiðingar orkupakka þrjú eru smám saman að koma í ljós. Áður var minnst stuttlega á embætti Landsreglara [fyrrum „Orkustofnun“]. Það er útibú frá ACER (sjá mynd 2 hér að framan). Áhrifin birtast hins vegar ekki síður í stórkostlegum verðhækkunum á rafmagni í Evrópu, þar sem verðmyndunarkerfi rafmagns, samkvæmt orkustefnu ESB, beinlínis kyndir undir hækkununum. Markaðurinn, eins og hann er hannaður, ræður og hleypir öllu í bál og brand. Þessar hækkanir munu fyrr eða síðar berast til Íslands (eins og plágurnar) og af fullum þunga eftir lagningu sæstrengs/sæstrengja á milli Íslands og meginlands Evrópu (eða Skotlands).
Þetta gengur svo langt að meira að segja ráðamenn innan ESB ræða fullum hálsi um neyðaraðgerðir! Í tilkynningu frá Leiðtogaráðinu [European Council] þann 15. desember 2022 er m.a. rætt um að stofna verðleiðréttingarkerfi vegna verðs á gasi (gasverðið hefur bein áhrif á rafmagnsverðið).[xxi]
Rafmagn er slík undirstaða samfélaga nútímans (sem hluti innviða) að verð þess ætti undir engum kringumstæðum að lúta markaðsfyrirkomulagi og framleiðsla þess sem víðast að vera á vegum opinberra aðila [ríki, bæjarfélög].
Einhver kann að benda á það að þegar rafmagn er framleitt með olíu/gasi/kjarnorku sé ekki raunhæft að selja síðan rafmagnið á öðrum forsendum en markaðsforsendum. Hér er þó fyrst og fremst um framleiðslukostnaðinn að ræða – að rafmagn sé ekki verðlagt á margföldum framleiðslukostnaði og ágóðinn renni síðan í vasa braskara þegar verst lætur („skotleyfi“ á almening og fyrirtæki).
Rafmagn framleitt með olíu eða gasi verður að sjálfsögðu dýrara en rafmagn frá íslenskri vatnsaflsvirkjun sem jafnvel er búið að afskrifa að fullu. En það er aldrei í þágu notenda að hleypa síðan hópi „rándýra“ í framleiðsluna og margfalda með því verðið. Milliliðir leiða ekki til hagkvæmni og verðlækkunar. Orkustefna sem hefur innbyggða fjölgun milliliða [„orkusala“] er galin stefna. Það þarf mikla ást á Evrópusambandinu til að fylgja henni. Góðar stundir og gleðileg jól!
[i] Bókina má t.d. nálgast hér: https://edisciplinas.usp.br/mod/resource/view.php?id=3334189
[ii] Svartletrun mín.
[iii] Sjá: Council of the European Union. European Parliament ́s Proposal for a Council decision adopting the provisions amending the Act concerning the election of the members of the European Parliament by direct universal suffrage - legal assessment [2016] (OR. en) 7038/16. Para 4-6. https://www.asktheeu.org/en/request/5288/response/17796/attach/5/st07038.en16.pdf
[iv] Svartletrun og undirstrikun mín.
[v] Um Leiðtogaráðið (the European Council) og verkefni þess er fjallað í 15. gr. sáttmálans um Evrópusambandið og undir gr. 235-236 í sáttmálanum um starfshætti Evrópusambandsins.
[vi] Heimild: CAIRN. https://www.cairn-int.info/dossiers-2019-11-page-1.htm
[vii] Sjá einnig: FOLLESDAL, A., & HIX, S. (2006). Why there is a democratic deficit in the EU: A response to Majone and Moravcsik. JCMS: Journal of Common Market Studies, 44(3), 533–562. https://doi.org/10.1111/j.1468-5965.2006.00650.x
[viii] Mounk, Y. (2018). The Undemocratic Dilemma. Journal of Democracy, 29(2), 98-112.
[ix] Bechtel, M. F., Schmidt, V. A., & Bruneteau, B. (2019, December 11). Europe’s democratic deficit|cairn international edition. Retrieved December 16, 2022, from https://www.cairn-int.info/dossiers-2019-11-page-1.htm
[x] Þarna er er vísað til dóms Evrópudómstólsins í málinu 26-62, van Gend & Loos v Netherlands.
[xi] Bechtel, op. cit.
[xii] Bechtel, op. cit.
[xiii] Bechtel, op. cit.
[xiv] Bechtel, op. cit.
[xv] Bechtel, op. cit.
[xvi] Heimild: https://www.acer.europa.eu/the-agency/organisation-and-bodies/board-of-regulators/bor-members
[xvii] Sjá t.d.: Beattie, A. (2021). https://www.investopedia.com/ask/answers/09/euro-introduction-debut.asp
[xviii] Sjá t.d.: Parliamentary question. https://www.europarl.europa.eu/doceo/document/E-9-2021-000198_EN.html
[xix] Sjá t.d.: European Commisson. Treaty provisions on Competition policy. https://competition-policy.ec.europa.eu/index/treaty-provisions-competition-policy_en
[xx] Sjá hér: https://neitileu.no/kampanjer/acer-soksmalet/
[xxi] Council of the EU and the European Council. Energy prices and security of supply. https://www.consilium.europa.eu/en/policies/energy-prices-and-security-of-supply/