Kuldaleg hamfarahlýnun

frettinLoftslagsmál, Páll Vilhjálmsson1 Comment

Eftir Pál Vilhjálmsson:

Í hitabylgjum er talað um hamfarahlýnun af mannavöldum. Í kuldakasti er veðrið allt í einu orðið náttúrulegt, maðurinn kemur hvergi nærri.

Á jörðinni er ekki eitt veðurkerfi heldur mörg, skrifar loftslagsvísindamaðurinn Richard Lindzen í nýrri skýrslu. Þess vegna sé markleysa að tala um meðalhita á jörðinni, sem er viðmið hamfarasinna.

Í viðtengdri frétt er talað um kuldakastið í Reykjavík en ekki á Íslandi. Almennt er aldrei talað um meðalhita á Íslandi heldur í einstökum landshlutun. Hitafar breytist sáralítið frá ári til árs og því minna sem stærra svæði er undir. Litlar breytingar staðbundnar hafa aftur merkingu. Kalt vor á Suðurlandi skiptir máli fyrir sunnlenska bændur en hefur enga merkingu fyrir vestfirska sjómenn.

Á hinn bóginn eru litlar breytingar yfir langan tíma merkingarbærar. Tíminn sem er undir hleypur þá á hundruðum og þúsundum ára. Það er kaldara núna en það var á miðaldahlýskeiðinu fyrir þúsund árum. Fyrir 6000 árum voru jöklar á norðurslóðum ekki svipur hjá sjón og hlýrra eftir því.

Hamfarasinnar rugla vísvitandi þessu tvennu saman, óverulegum breytingum á staðbundnu veðurfari annars vegar og hins vegar langtímaþróun. Til að bíta höfuðið af skömminni fullyrða hamfarasinnar að ein breyta, manngerður koltvísýringur (CO2) í andrúmslofti, ráði hitastigi jarðar. Það er fullkominn bábilja.

Fyrir það fyrsta hefur koltvísýringur risið og hnigið frá ómunatíð, löngu áður en maðurinn kom til sögunnar. Koltvísýringur er nú um stundir 400 ppm eða 0,04% af andrúmsloftinu. Þetta hlutfall hefur farið upp í 7000 ppm áður en maðurinn varð til sem tegund. Náttúruferlar ráða ferðinni, ekki mannlegar athafnir.

Í öðru lagi er koltvísýringur aðalfæða plantna. Sveltimörk plantna eru við 200 ppm. Þegar magn koltvísýrings eykst örvast vöxtur plantna, jörðin verður grænni. Kjörvöxtur plantna er við 1200 til 1600 ppm.

Í þriðja lagi fylgja breytingar á koltvísýringi í andrúmsloftinu breyttum lofthita, sem aftur fylgir yfirborðshita sjávar, skrifar loftslagsvísindamaðurinn Ole Humlum. Það er ekki aukið magn koltvísýrings í andrúmsloftinu sem veldur hækkandi hita heldur er hærra magn koltvísýrings afleiðing hækkandi lofthita.

Í fjórða lagi myndu verulegar breytingar á koltvísýringi, t.d. tvöföldun úr 400 í 800 ppm, aðeins valda óverulegri hækkun hitastigs eða 0,75 gráður á C.

Samspil sólarvirkni og skýjafars eru til muna öflugri breyta en CO2 hvað varðar lofthita.

Vatnsgufa H2O er þrisvar sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en CO2. Vatnsgufa myndar ský. Blaðamaður Die Zeit, með doktorsgráðu í eðlisfræði, ræddi við einn fremsta loftslagsvísindamann Þjóðverja og forstöðumann veðurfræðistofnunar Max PlanckBjorn Stevens, og spurði hvort jörðin yrði brátt óbyggileg vegna áhrifa gróðurhúsalofttegunda.

Það er bull sem hefur ekkert með vísindalegan veruleika að gera, svaraði Björn Stevens. (Sjá hér enska útgáfu).

„Næstu 30 árin verður hnattræn hlýnun ekki lengur í umræðunni,“ segir Valentína Zharkova sem veit sitthvað um áhrif sólar á veðurfar jarðar og spáir köldu.

Kuldakastið í henni Reykjavík í desember 2022 skyldi þó aldrei vera vísbending um það sem koma skal?

One Comment on “Kuldaleg hamfarahlýnun”

Skildu eftir skilaboð