Útskúfaður um eilífð

frettinInnlent, Jón Magnússon4 Comments

Eftir Jón Magnússon:

Á ýmsu átti ég frekar von, en að Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri í Vestmannaeyjum færi að argaþrasast út í skipan Karls Gauta Hjaltasonar í embætti sýslumanns í Vestmannaeyjum. Sér í lagi þar sem fyrir liggur, að farið var að öllum reglum varðandi vandaða úrvinnslu umsókna um embættið. 

Þrátt fyrir þetta telur bæjarstjórinn að útskúfa beri Karli Gauta um alla eilífð úr samfélagi siðaðra manna fyrir að hafa setið hljóður þegar tveir menn úr 6 manna hópi urðu sér til skammar á Klausturbar um árið. Bæjarstjórinn telur að fyrir þá "synd" hafi Karl Gauti unnið sér til eilífrar óhelgi.

Heimspekingurinn og lögfræðingurinn Thomas More, sem rekinn var sem kanslari Hinriks 8 Bretakonungs fyrir að neita að samþykkja að hjónaband hans við Katrínu af Aragon væri ógilt, sagði ekki eitt aukatekið orð um málið eftir það og sagði að þögnin væri sín vörn, því engin gæti sótt að sér eða lögsótt sig eða átalið fyrir það að þegja. 

Það var þó ekki nóg fyrir Hinrik 8 og hann lét hneppa Thomas More í fangelsi og taka hann af lífi. Réttlæti Írisar Róbertsdóttur virðist af sama meiði. Fyrir þá sök að Karl Gauti Hjaltason sagði ekki eitt styggðaryrði um einn eða neinn á Klausturbar um árið skal honum úthýst og enginn staður heimill nema helvíti. 

Frá því að Hinrik 8 vélaði um líf og dauða fólks, en hann lét taka a.m.k. tvær af eiginkonum sínum 8 af lífi hafa mannréttindi þróast mjög til batnaðar, en það virðist hafa farið framhjá bæjarstjóranum í Vestmannaeyjum.

4 Comments on “Útskúfaður um eilífð”

  1. Eiginkonur Hinriks 8. voru sex en ekki átta eins og hér er haldið fram.

  2. Getur verið að fólk eins og Íris Robertsdóttir haldi virkilega að þau séu algerlega óbrigðul, muni alltaf bregðast við á hverri stundu með hreint og rétt siðferði?

    Er fullkomið fólk til? Heldur Íris Robertsdóttir að hún sé fullkomin og eigi að getað dæmt mönnum til útlegðar?

  3. Allir við þetta borð urðu sér til skammar og eiga ekki undir neinum kringumstæðum að fá að starfa hjá hinu opinbera enda ljóst að þetta fólk er uppfullt af fordómum gagnvart samborgurum sínum og þar afleiðandi ekki fært til að sinna opinberum þjónustustörfum. Fréttin.is gæti til dæmis ráðið þetta fólk til starfa, þau myndu öll smellpassa í þann hóp sem er þar fyrir.

  4. Einar, ætlar þú að fullyrða það að engin af öllum hinum þingmönnunum sem ekki voru staddir og í glasi á Klausturbar þetta kvöld hafi nokkurn tíma hagað sér svona. Ég er nokkuð viss að flest ef ekki allt þetta lið sem er búið að sitja þarna niðri á alþingi undanfarna áratugi sé ekki að ganga á öllum heilasellunum ef mið eru tekin af árangri og getu.

    Mér sýnist að mestu fordómarnir komi frá sjálfskipaða góða fólkinu (glópalistunum) sem ritskoða og dæma allt og alla sem hafa aðrar skoðanir eða haga sér öðruvísi enn þeir

Skildu eftir skilaboð