Lögreglan ryðst inn á skrifstofur Evrópska þjóðarflokksins (EPP) í Brussel

Erna Ýr ÖldudóttirErlent, Erna Ýr Öldudóttir, Evrópusambandið, StjórnmálLeave a Comment

Belgíska lögreglan og þýskir rannsakendur gerðu í dag áhlaup á höfuðstöðvar mið-hægriflokks Evrópska þjóðarflokksins (European People's Party, EPP) sem hluta af þýskri rannsókn. Frá því greina Reuters og fleiri erlendir miðlar í dag.

Flokkurinn, sem á flesta þingmenn á Evrópuþinginu, sagði í yfirlýsingu að fulltrúar yfirvalda frá Belgíu og Þýskalandi hefðu heimsótt höfuðstöðvar hans í Brussel á þriðjudag.

Heimsóknin tengdist rannsókn þýska sambandsríkisins Þýringalands (þ. Thüringen), segir í yfirlýsingu frá EPP, án frekari skýringa. Ekki væri hægt að gefa frekari upplýsingar þar sem rannsóknin í Þýskalandi standi yfir.

Grunur um mútuþægni

Samkvæmt dagblaðinu Thüringer Allgemeine var lögregluaðgerðin í tengslum við yfirstandandi spillingarrannsókn á Mario Voigt, leiðtoga miðstjórnar Kristilegra demókrata (CDU) í Þýringalandi, vegna aðildar hans að stafrænni kosningabaráttu EPP í Evrópukosningunum 2019.

Mario Voight er grunaður um spillingu.

Mario Voigt var stafrænn kosningastjóri Manfred Weber (CSU), leiðtoga EPP, í kosningabaráttunni í Evrópu 2019. Spurningar hafa vaknað um úthlutun samnings vegna stafrænnar kosningaherferðar til fyrirtækis í Þýringalandi, samkvæmt þýskum fjölmiðlum.

Rannsóknin snýst um ásakanir um að Voigt hafi fengið endurgreiðslur frá fyrirtækinu sem fékk umræddan samning á meðan á herferðinni stóð. Frá því í september 2022 hafa þýsk yfirvöld gegn spillingu verið að rannsaka Voigt vegna gruns um mútuþægni.

Fulltrúi EPP sagði að þetta væri „mál á milli verktaka sem starfaði fyrir EPP í herferðinni 2019 og eins af undirverktökum hans í Þýskalandi.“

Elstu og valdamestu flokkasamtök ESB

EPP eru evrópsk flokkasamtök íhaldssamra flokka, sem eru aðskilin frá þingmannahópi EPP á Evrópuþinginu. Þó að einingarnar tvær heiti sama nafni, eru þær með sitthvora skrifstofuna í þinghúsinu í Brussel.

Lögfræðingar Voigt höfnuðu ásökunum saksóknara sem ástæðulausar og sögðu rannsóknina óhóflega, á meðan saksóknarar í Þýringalandi fengust ekki til að tjá sig.

EPP samanstendur af nokkrum af þekktustu stjórnmálamönnum Evrópu, þar á meðal Ursula von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Roberta Metsola, forseta Evrópuþingsins, Kyriakos Mitsotakis, forsætisráðherra Grikklands, og Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar.

EPP er með flokka í yfir 27 ESB-aðildarríkjum, og einnig utan sambandsins, svo sem á vesturhluta Balkanskaga, í Noregi, Sviss og Úkraínu.

Skildu eftir skilaboð