Eftir Arnar Sverrisson:
Nýlega lét Wall Street Journal gera skoðanakönnum meðal Bandaríkjamanna. Niðurstöður hennar eru einkar áhugaverðar. Þær má vafalaust að einhverju leyti yfirfæra á aðrar vestrænar þjóðir eins og Íslendinga.
Niðurstöður eru í stuttu máli þær, að gildi föðurlandsástar og trúarbragða hefur lækkað svo um munar. Tæp 40% sagði ást á föðurlandinu og guði sínum mikilvæga. Fyrir um aldarfjórðungi síðan sögðu 70% föðurlandsást mikilvæga og 62% trú.
Sömu tilhneigingu má greina með tilliti til gildis barneigna, samfélagsþátttöku, vinnusemi og umburðarlyndis.
Gamalreyndur skoðanamælingamaður, Bill McInturff lét þau orð falla, „að þessi munur væri svo áhrifamikill, að segja mætti, að hann drægi upp mynd af Bandríkjunum á breytingaskeiði. Það kynni að vera, að álagið vegna klofnings í stjórnmálum, í kófinu og minnsta tiltrú á efnahagslífið í áratugi, hafi svo athyglisverð áhrif á grunngildi okkar.“
Nýjasta „leikritið“ í bandarískum stjórnmálum er svo réttarhöld yfir fyrrverandi forseta, Donald Trump, sem færði rangt til bókar þagnargildismútur til klámstjörnu, sem sagði karl hafa sængað hjá sér. Menn þurfa varla að hafa háa greindarvísitölu til að gera sér grein fyrir lýðræðiskjánaskapnum. Það liggur fiskur undir steini eins og svo oft áður.
Í grein í Daily Reckoning, segir Jeffrey Tucker á þessa leið (endursagt stytt og einfaldað):
Þegar fólk er innilokað á heimilum sínum; vinnustaðurinn lokaður; kirkjan hefur skellt í lás; nágrannarnir orga á þig, sértu grímulaus; heilbrigðisstarfmenn ota að þér sprautu; sem þú ekki kærir þig um; þér er meinað að fara úr landi, nema bólusettur - á meðan forsetinn kallar hina óbólusettu fjandmenn, er ekki ólíklegt, að föðurlandsástin blikni.
Trú og traust fólks í lágmarki
Trú og traust fólks í garð hvers annars er í lágmarki. Dómstólarnir verja okkur ekki. Skólar, sem eru tákn framsækinnar hugmyndafræði okkar, loka dyrum sínum. Læknarnir snúa við okkur baki.
Í þrjú ár unnu fjölmiðlar gegn almúganum. Teitin okkar voru endurskírð fjöldasmithreiður, klerkar messuðu af vanþóknun um tónleika og öskruðu á söfnuðinn af halda sig heima við og horfa á imbaskjáinn.
Föðurlandsástin var jafnaðarlega misnotuð til að meina okkur um grundvallar frelsi og mannréttindi. Föðurlandsástin fólst í því að hlýða boðum um að halda sig heima, setja upp grímu, halda fjarlægð, hlýða sérhverri tilskipun, sama hversu hlægileg hún var, og svo að láta sprauta sig, hvað eftir annað, og um alla framtíð, enda þótt stór hluti fólks hefði ekkert að óttast.
Með látlausum áróðri tókst að berja almúgann til hlýðni
Norski blaðamaðurinn, Pål Steigan, bendir á, að með látlausum áróðri hafi tekist að berja almúgann til hlýðni meira eða minna sjálfviljugan. En verðið er hátt, mælt í andlegum og efnislegum verðmætum.
Það á ekki af bandarískum almenningi að ganga. Það er vafalaust líka að renna upp fyrir þeim, að stríðið gegn Rússlandi í Úkraínu sé tapað [þrátt fyrir dyggan stuðning íslensku ríkisstjórnarinnar]. Þar fóru í súginn 120 milljarðar dala. Svo riðar gjaldmiðillinn þeirra einnig til falls.
Ástandið á Íslandi svipað
Frá eigin brjósti: Það verður eitthvað undan að láta. Bandarískur almenningur, frændur mínir og frænkur í landi hinna frjálsu og hugprúðu, eiga samúð mín alla. En þegar grannt er gáð, mætti hugsa sér, að ástandið á Íslandi sem og í öðrum vestrænum, ríkjum sé svipað.
Veirukúgunarástandið gæti vakið fólk til umhugsunar um heilindi valdhafa og visku, áróðursgildi fjölmiðlunar og vísinda, áhrif hagsmunaaðilja eins og lyfjaiðnaðaarins, og gildi sjálfstæðrar skoðunar í stað barnslegrar þægðar og hlýðni. Það varðar hvorki meira né minna en heill og hamingju hvers og eins.
Undirbúa löggjöf um frekari skerðingar einstaklingsfrelsis
Íslensk stjórnvöld ganga nú fram fyrir skjöldu og undirbúa löggjöf um frekari skerðingar einstaklingsfrelsis til að vernda okkur á alla lund. Það er kunnuglegt yfirvarp. Ríkisvaldið dafnar eins og púki á fjósbita.
Stundum er hollt að hafa í huga reynslu liðinna alda, t.d. þá óbrigðulu lexíu, að fylgifiskur aukins ríkisvalds sé skert sjálfsvald. Enn fremur, að óreiða og óöld sé frjósamur jarðvegur ofbeldis, gerræðis, valdamisnotkunar, einræðistilburða og valdaráns.
Valdarán er í eðli sínu ekki ósvipað því framsali fullveldis, þ.e. lögleiðingu alþjóðasamninga og laga þjóðabandalaga, sem íslenska ríkisstjórnin beitir sér fyrir um þessar mundir, sbr. frumvarp utanríkisráðherra, Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, um innleiðingu laga Evrópska efnahagssvæðisins (European Economic Area - EES) í kjölfar áminningar frá Eftirlitsstofnun Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA Surveillance Authority - ESA). (EFTA er skammstöfun fyrir European Free Trade Association).
Fleiri tilvísanir með greininni má finna hér.