Fréttablaðið undanfari RSK-miðla

frettinFjölmiðlar, Innlent, Páll VilhjálmssonLeave a Comment

Eftir Pál Vilhjálmsson:

Auðmaðurinn Helgi Magnússon átti og rak Fréttablaðið og Hringbraut. Helgi er einn af stofnendum Viðreisnar, ef ekki stofnandi, og er áhugasamur um ESB-aðild Íslands. Fréttablaðið endurspeglaði pólitískar áherslur Helga og Viðreisnar í leiðaraskrifum og fréttastefnu.

Helgi er ekki spurður hvers vegna hann lokaði útgáfunni. Kannski sökum þess að ástæðan er augljós. Fréttablaðið tapaði of miklum peningum til að hægt væri að réttlæta útgerðina.

Almennt gildir um fjölmiðlun að margir eru kallaðir en fáir útvaldir. Fjölmiðlar eru alltaf álitlegur kostur fyrir áhugamenn um framgang pólitískra sjónarmiða. Fjölmiðlar í heild fara með stærstan hluta dagskrárvalds umræðunnar, fara nálægt því að stjórna hvaða málefni fá athygli og hvað er látið liggja í þagnargildi.

Til að fjölmiðill nái árangri þarf meira til en pólitísk áhugamál eigenda. Fjölmiðill þarf einnig að þjónusta almenning í einhverjum skilningi. Stundum þarf ekki meira en að leiða saman auglýsendur og lesendur/áhorfendur. Fréttablaðið var frá fyrstu tíð fríblað, ókeypis fyrir almenning. Auglýsendur fjármögnuðu útgáfuna.

Þekktasti eigandi Fréttablaðisns, ef ekki sá alræmdasti, Jón Ásgeir Jóhannesson, kenndur við Baug, notaði blaðið í tvennum tilgangi. Hann keypti auglýsingar fyrir hönd Bónuss, Hagkaupa og þeirrar samsteypu annars vegar og hins vegar beitti hann útgáfunni til að stýra opinberri umræðu í eigin þágu.

Frægasta tilvikið um spuna í þágu Jóns Ásgeirs hófst  þann 1. mars 2003 þegar Fréttablaðið birti fjögurra dálka forsíðufrétt með fyrirsögninni Óttuðust afskipti forsætisráðherra. Fréttin gekk út á það að Davíð Oddsson hefði staðið á bak við lögreglurannsókn á Baugi sem hófst árið áður. Í framhaldi kom á daginn að Baugur hafði boðið Davíð 300 milljónir króna í ,,sporlausum peningum" til að ganga í lið með auðvaldinu.

Leynt var farið með eignarhald Jóns Ásgeirs á Fréttablaðinu þegar atlagan gegn Davíð hófst. Á ritstjórnarhlið málsins véluðu tveir menn sem kunna að aka seglum eftir vindi. Gunnar Smári var ritstjóri og Reynir Traustason blaðamaðurinn sem skrifaði mútufréttina.

Frá og með 1. mars 2003 hélt innreið sína í blaðamennsku aðferðafræði við vinnslu frétta sem RSK-miðlar tóku upp á sína arma. Aðferðin er gera falsfréttir trúverðugar með endurtekningu.

Enginn biður um endurreisn Fréttablaðsins. Nafnið er órjúfanlega tengt spillingu íslenskrar blaðamennsku.

Skildu eftir skilaboð