Twitter í stríð við höfunda á Substack?

frettinErlent, Fjölmiðlar, RitskoðunLeave a Comment

Substack bloggvefurinn hefur átt vaxandi fylgi að fagna og hefur skapað vettvang fyrir sjálfstæða pistlahöfunda, blaðamenn og áhugafólk um ýmis málefni til að láta rödd sína heyrast og oft að fá einnig einhverjar tekjur fyrir vinnu sína. Margir höfundar á Substack eru einnig með reikninga á Twitter og nota þá til að deila efninu áfram.

Fyrir um sólarhring síðan brá svo við að Twitter tók að merkja allar færslur sem vísa í efni á Substack sem "óöruggar" og ekki er lengur mögulegt að deila þeim áfram eða bregðast við þeim. Engar upplýsingar hafa enn borist frá Twitter um ástæður þessa, en margir hafa getið sér þess til að orsökin sé sú að Substack tilkynnti nýlega að fyrirtækið hygðist bjóða upp á skilaboðaþjónustu sem svipar að einhverju leyti til Twitter.

Eftir að Elon Musk keypti Twitter losaði hann sig við stóra deild sem hafði það hlutverk að ritskoða efni á miðlinum, og gekk undir nafninu "mannréttindadeild" sem hlýtur að teljast nokkuð mótsagnakennt. Musk hefur gefið það út að eina ástæða þess að hann keypti Twitter hafi verið ást hans á tjáningarfrelsinu. Þessi atlaga að Substack kemur því mörgum í opna skjöldu, en Substack hefur einmitt haft tjáningarfrelsið í heiðri og gerir engar tilraunir til að ritskoða eða hefta efni þeirra sem þar skrifa.

Substack er auk þess agnarsmátt fyrirtæki samanborið við Twitter og því erfitt að sjá að frá því stafi einhver mælanleg ógn, jafnvel þótt Substack bjóði áskrifendum og höfundum upp á áþekka þjónustu og Twitter gerir. Önnur möguleg ástæða kynni að vera sú að hin valdamiklu samtök Anti-Defamation League (ADL), sem starfað hafa í yfir hundrað ár og lengst af látið sig baráttu gegn gyðingahatri mest varða réðust fyrir skemmstu á Substack og sökuðu fyrirtækið m.a. um að dreifa hatursáróðri gegn Gyðingum.

Hvort árás ADL hefur haft áhrif á þessar aðgerðir Twitter er óvíst. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir margra hefur hvorki heyrst hósti né stuna frá eiganda Twitter, Elon Musk, um hvað hér er á ferðinni. En margir höfundar á Substack hugsa sinn gang. Blaðamaðurinn Matt Taibbi, einn þeirra sem unnið hafa að því í samstarfi við Musk að opinbera gögn um afskipti stjórnvalda af efni á Twitter tilkynnti fyrir skemmstu að hann myndi færa sig alfarið af Twitter í næstu viku, þegar ný skilaboðaskjóða Substack, Substack Notes verður komin í loftið.

Uppfært:

Elon Musk hefur brugðist við málinu og segir efnið frá Substack ekki hafa verið „blokkað“ og gaf sína útskýringu sem lesa má hér neðar og þar fyrir neðan má síðan lesa svar frá stofnanda Substack síðunnar, Chris Best.

Skildu eftir skilaboð