Eftir Pál Vilhjálmsson:
Símanúmerið 680 2140 er skráð á Kveik/RÚV sem Þóra Arnórsdóttir stýrði til skamms tíma. Stefán Eiríksson útvarpsstjóri hefur staðfest það. Símanúmerið er á afrituðum sína Páls skipstjóra Steingrímssonar sem var byrlað 3. maí 2021, síma hans stolið, tækið afritað á RÚV og skilað tilbaka þar sem skipstjórinn lá meðvitundarlaus á gjörgæsludeild.
Afritaði síminn var notaður til samskipta á milli RSK-blaðamanna. Gögn voru send úr símanum til Aðalsteins Kjartanssonar á Stundinni og Þórðar Snæs og Arnars Þórs á Kjarnanum sem birtu skjáskot af efni símans í skipulagðri fréttaherferð sem hófst 21. maí 2021.
Afritaði síminn var einnig notaður til samskipta við andlegu veiku konuna sem stal síma skipstjórans og kom í hendur blaðamanna.
Afritaði síminn sýndi skammstöfunina „ÞAK“ þegar send voru úr símanum smáskilaboð, SMS. Lögreglan telur að ÞAK standi fyrir Þóra Arnórsdóttir Kveikur.
Tilfallandi athugasemd fjallaði um töluverð samskipti milli ÞAK og veiku konunnar þann 24. ágúst 2021. Á þeim tímapunkti var lögreglan enn að safna gögnum, engar yfirheyrslur höfðu farið fram. Mögulega höfðu blaðamenn andvara á sér enda hafði komið fram í fjölmiðlum að Páll skipstjóri kærði málið 14. maí þá um vorið.
Komið hefur á daginn að 24. ágúst 2021 var Þóra í samskiptum við veiku konuna í gegnum einkasíma sinn, sama dag og ÞAK, þ.e. afritaði síminn, var samtals átta sinnum í samskiptum við veiku konuna. Samskiptin milli ÞAK og veiku konunnar voru smáskilaboð, SMS, á meðan Þóra talaði við hana úr einkasíma.
Lögreglan telur að blaðamenn, tveir eða fleiri, hafi skipst á að nota afritaða símann, sem merktur er ÞAK, í samskiptum við konuna. Hvort veika konan áttaði sig á að hún ætti í samskiptum við tvo aðila en ekki einn er óvíst. Hitt er vitað að jafnan eftir samskipti við RSK-blaðamenn tók aðstandendur konunnar eftir að henni hrakaði. Ranghugmyndir og ímyndanir urðu verri. Aðstandendur hafa borið saman skráð samskipti á milli veiku konunnar og RSK-blaðamanna og komist að þeirri niðurstöðu að vont versnaði eftir að blaðamenn voru í sambandi.
Í samskiptunum 24. ágúst 2021 leitar konan ráða hjá RSK-blaðamönnum. Skilaboðin eru stutt. Lagt er á ráðin um að breyta aðgengi að tölvum og símum. Þá er einnig talað um að konan afhendi blaðamönnum síma sinn. Væntanlega til að torvelda rannsókn réttvísinnar, eyða gögnum. Samskiptin byrja klukkan níu að morgni og standa fram til um eitt eftir hádegi. Laust fyrir kl. eitt skrifar ÞAK merkilega setningu og sendir veiku konunni:
Ok. Ég athuga m héraðssaksóknara.
Héraðssaksóknari fer ekki með rannsóknina á byrlunar- og símastuldsmálinu heldur lögreglan á Norðurlandi eystra. Hvaða blaðamaður ætlaði að „athuga með héraðssaksóknara“ og í hvaða tilgangi?
Þeir blaðamenn sem veika konan hleypti næst sér, samkvæmt upplýsingum sem liggja fyrir á þessu stigi málsins, eru Þóra og Helgi Seljan á RÚV og Aðalsteinn Kjartansson og Ingi Freyr Vilhjálmsson á Stundinni, nú á Heimildinni.
Þóra, Aðalsteinn og Ingi Freyr eru sakborningar. Óvíst er með Helga. Bróðir Inga Freys er Finnur Þór Vilhjálmsson, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara.
RSK-blaðamenn höfðu veiku konuna að leiksoppi. Þeir vissu að hún gekk ekki heil til skógar. Þriðja grein siðareglna Blaðamannafélags Íslands hljómaði svona:
Blaðamaður vandar upplýsingaöflun sína, úrvinnslu og framsetningu svo sem kostur er og sýnir fyllstu tillitssemi í vandasömum málum. Hann forðast allt, sem valdið getur saklausu fólki, eða fólki sem á um sárt að binda, óþarfa sársauka eða vanvirðu.
Þriðja greinin vísar beint í ástand veiku konunnar sem blaðamenn misnotuðu í byrlunar- og símastuldsmálinu.
Fyrir hálfum mánuði tilkynnti Blaðamannafélag Íslands nýjar siðareglur, samþykktar 23. mars 2023. Þriðja grein eldri siðareglna var felld niður. Nú þurfa blaðamenn ekki lengur að hafa áhyggjur að valda „saklausu fólki, eða fólki sem á um sárt að binda, óþarfa sársauka eða vanvirðu.“
Formaður nefndarinnar sem breytti siðareglum Blaðamannafélagsins er Aðalsteinn Kjartansson sakborningur í byrlunar- og símastuldsmálinu.