Eftir Geir Ágústsson:
Ef fer sem horfir fer Reykjavíkurborg í greiðsluþrot bráðum. Það ætti ekki að koma neinum á óvart. En kannski leynast tækifæri í slíku?
Það er stórhættulegt að leyfa kjósendum í vesturbæ Reykjavíkur að stjórna borginni. Þar þjappast allir vinstrimennirnir saman, margir hverjir á opinberri framfærslu, og kjósa vinstrimenn yfir alla aðra borgarbúa þvert á vilja þeirra. Þetta heitir lýðræði og allt í lagi með það en lýðræði er ekki fullkomið og gallana mætti sníða af því. Til dæmis til að tryggja jafnt atkvæðavægi hverfa svona eins og menn gera í tilviki landshluta í þingkosningum.
Skoðum aðeins borgina og nágrannasveitarfélögin sem ég hef gróflega hólfað niður.
Það væri kannski rökrétt að sameina Seltjarnarnes og Reykjavík vestan Elliðaánna (svæði 1). Leitt fyrir íbúa Seltjarnarness en landfræðilega mjög nærliggjandi. Um leið er búið að loka af vesturbæinn svo ráðhúsið geti ekki lengur seilst í vasa austurhlutans til að fjármagna gæluverkefnin, eins og gráðugur krakki. Borgin þarf ekki byggingarland og vill það jafnvel ekki. Það er jú alltaf hægt að þétta byggðina!
Austan Elliðaánna væri mögulega hægt að stofna nýtt sveitarfélag og bræða Mosfellsbæ saman við það (svæði 2). Svokölluð Austur-Reykjavík. Nú þegar stóru vinnustaðirnir, sem eru ekki á vegum hins opinbera eða ríkisfyrirtækja, eru flúnir til Kópavogs og Garðabæjar er engin þörf á að keyra Miklubrautina niður í bæ nema á 17. júní.
Kópavogur og Garðabær (svæði 3 og 4) eru bæði byggð fólki sem kýs fjárhagslega ábyrgð (sérstaklega eftir að Álftanes gufaði upp sem sjálfstætt sveitarfélag). Kannski þessi sveitarfélög, auk lítils bita af Reykjavík, gætu runnið saman án þess að kalla hörmungar yfir íbúa.
Hafnarfjörður (svæði 5) hefur alltaf verið svolítið sérstakur og þarf eiginlega að fá að vera það áfram. Þar hafa menn líka tilhneigingu til að kjósa stjórnmálamenn sem kafsigla sveitarfélaginu og varla þorandi að hleypa þeim í hirslur Kópavogsbúa og Garðbæinga.
Ég veit að íslensk lög gera sundrungu sveitarfélaga svo gott sem ómögulega en það er jú bara spurning um að breyta löggjöfinni.
One Comment on “Tækifæri í greiðsluþroti Reykjavíkurborgar”
Það er svo mikið betra þegar hægri öflin stjórna, þá renna fjármunir skattgreiðenda beint í vasa stjórnmálamanna og aðila tengdum þeim. Öll kerfi svelta og hægt er að einkaþjófvæða meira að hætti X-D