Gareth Eve, ekkill Lisu Shaw, hefur höfðað mál gegn lyfjafyrirtækinu AstraZeneca vegna dauða eiginkonu sinnar.
Lisa Shaw var vinsæll þáttastjórnandi hjá sjónvarpsstöðinni BBC og lést þremur vikum eftir að hafa fengið skammt af bóluefni fyrirtækisins. Dánardómstjóri hefur staðfest að dauðsfallið hafi verið af völdum „fylgikvilla bóluefnisins“.
Gareth Eve hefur talað um „nístandi hjartaverk og kvíða“ síðan Lisa lést í maí 2021, aðeins 44 ára gömul. Hjónin áttu saman ungan son.
Hann sagði: „AstraZeneca bólusetningin, sem ríkisstjórnin sagði okkur að væri örugg og árangursrík drap Lisu. Þessi bólusetning drap konuna mína. Það stendur svart á hvítu á dánarvottorði hennar. Ég horfði á það gerast með eigin augum.“
Shaw fékk sinn fyrsta skammt af bóluefninu 29. apríl. Þann 13. maí var hún flutt með sjúkrabíl á háskólasjúkrahúsið í North Durham eftir að hafa verið með sársaukafullan höfuðverk í nokkra daga. Blóðtappar fundust í höfði hennar og hélt ástand hennar áfram að versna. Þrátt fyrir skurðaðgerðir og meðferðir lést hún 21. maí.