Verður samfélagið einangrun og ótta að bráð?

frettinInnlent, KrossgöturLeave a Comment

Eftir Erling Óskar Kristjánsson:

Um helgina sem leið stóðu samtökin Málfrelsi fyrir fundi undir yfirskriftinni “Ótti og einangrun”. Þar kynnti rithöfundurinn Laura Dodsworth efni metsölubókar sinnar A State of Fear sem fjallar um það hvernig bresk yfirvöld beittu hræðsluáróðri til að fá almenning til að fylgja sóttvarnarreglum. Vísar hún t.a.m. í skýrslu stjórnvalda er segir:

“A substantial number of people still do not feel sufficiently personally threatened; it could be that they are reassured by the low death rate in the demographic group… The perceived level of personal threat needs to be increased among those who are complacent, using hard-hitting emotional messaging.

Í fyrirlestrinum útskýrði Laura hvernig yfirvöld beittu fyrir sér fjölmiðlum og samfélagsmiðlum til að koma skilaboðum sínum áleiðis. Sýndi hún fjölmörg dæmi um það hvernig þau notuðu markaðssetningar- og áróðursbrögð til að ala á ótta meðal almennings, án þess að huga að afleiðingunum fyrir geðheilsu fólks til skemmri eða lengri tíma. Þá var herferðum beint að ákveðnum hópum samfélagsins, eins og ungum karlmönnum eða fólki á aldrinum 18-44 ára, og árangur þeirra mældur; en enginn virðist hafa spurt sig hvaða áhrif herferðirnar hefðu á aðra hópa, til dæmis á börn og ungmenni.

Hér má sjá lítið brot af þeim dæmum sem Laura tók fyrir í fyrirlestrinum.

Auglýsing frá Bresku Heilbrigðisþjónustunni, NHS, segir ungmennum að það að eyða tíma með vinum sínum í almenningsgarði geti drepið!

Auglýsing frá Bresku Heilbrigðisþjónustunni, NHS, hvetur unga karlmenn til að eyða enn meiri tíma en áður heima í tölvuleikjum. Auglýsingin notar orðalag sem fólk tengir við herskyldu og stríð, líkt og ungmennin séu að verja landið sitt frá innrás.

Þessari auglýsingu frá skorskum yfirvöldum var beint að fólki á aldrinum 18-44 ára; var henni ætlað að sýna þeim hvernig sýklar geti dreifst.

En hvaða áhrif hefur auglýsingin á börn? Er auglýsingin við hæfi barna eða elur hún á óheilbrigðri sýklafóbíu meðal þeirra?

Heilbrigðisráðherra Bretlands hafði áhyggjur af því að háskólanemar sneru aftur í skóla, enda gætu þeir drepið ömmu sína. En hvaða áhrif hefur slík orðræða á börn? Raunin er sú að mörg börn missa ömmur sínar úr smitsjúkdómum, en það er aldrei þeim að kenna.

Dr. Viðar Halldórsson prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands tók við af Lauru Dodsworth og fjallaði um áhrif rafrænnar samskiptatækni á samfélagið, með áherslu á neikvæð áhrif samfélagsmiðla og einveru á ungmenni. Hann lýsti því að í kórónuveirufaraldrinum hafi notkun rafrænnar samskiptatækni stóraukist til að mæta auknum kröfum um fjarvinnu og fjarkennslu, og að sú þróun hafi fengið byr undir báða vængi; en nú þegar faraldurinn er afstaðinn sé ekkert að lægja á þessum byr. Viðar lýsir því að þegar fólk komi saman verði til ákveðnir félagslegir töfrar sem sé ekki hægt að framkalla í gegnum fjarskiptabúnað. Hann hefur sérstakar áhyggjur af því hvaða áhrif þessi þróun hefur á kennslu og þroska nemenda, og gæði náms í háskólanum jafnt sem á öðrum stigum.

Hér má sjá upptöku af fundinum í heild sinni.

Hvað er til ráða?

Í kjölfar fundarins hef ég verið hugsi um það hvernig maður geti minnkað líkurnar á að samfélagið verði einangrun og ótta að bráð. Hvernig getur maður gert sjálfan sig og aðra minna móttækilega fyrir hræðsluáróðri?

Ég hlustaði á þrjá hlaðvarpsþætti og las úr fjórum bókum. Góð ráð fann ég meðal annars hjá Dennis Prager, öldruðum bandarískum rithöfundi og áhrifavaldi, sem óttaðist aldrei kórónuveiruna og gagnrýndi aðgerðir yfirvalda.

Dennis talar um mikilvægi þess að ala ekki á ótta hjá börnum. Vill hann meina að það megi forðast það með því að ofvernda þau ekki, heldur leyfa þeim að taka áhættu og upplifa afleiðingar þess. Nefnir hann dæmi um foreldra sem segja börnunum sínum sífellt að passa sig og fara varlega, og leyfa þeim aldrei að gera neitt, oft af röklausum ótta við ólíklega hættu. Telur hann að slík hegðun geri börnin óeðlilega hrædd við hluti sem ber ekkert að óttast.

Hann útskýrir að hræðslugjarnt fólk þurfi að yfirbuga óttann með því að mæta honum augliti til auglitis. Fyrst þarf maður að takast á við það sem maður óttast, og svo hættir maður að óttast það (enda kemst maður yfirleitt að því að óttinn var ekki á rökum reistur). Breytt hegðun kemur á undan breyttri hugsun. Þetta sé gott að kenna börnum sínum.

Hann er Gyðingstrúar og lýsir því enn fremur að Guð endurtaki sífellt í Gamla Testamentinu að fólk skuli hvorki óttast menn né jarðneskar ógnir. Engum ber að óttast neitt nema Guð. Jesús ítrekar þennan boðskap í guðspjöllunum: “Hræðist ekki þá sem líkamann deyða en fá ekki deytt sálina. Hræðist heldur þann sem megnar að tortíma bæði sálu og líkama í helvíti.” Ef menn óttast Guð meira en menn og jarðneskar ógnir, láta þeir ekki hræðast til að haga sér á hátt sem Guði gæti mislíkað.

Fleiri góð ráð gefur hann úr Biblíunni, en hún segir okkur að halda hvíldardaginn heilagan; en einn dag í viku forðast Gyðingar að nota raftæki, sem gefur þeim frí frá fréttum, auglýsingum og samfélagsmiðlum. Þannig fáum við frí frá mestöllum hræðsluáróðrinum sem verðum fyrir. Reyndar dugði þetta því miður ekki til að vernda geðheilsu Ísraelsmanna í faraldrinum, en þó tel ég að þetta geti verið góður siður, hvort sem maður sé trúaður eður ei.

Bandaríski geðlæknirinn Mark McDonald tekur undir eitt ofangreindra ráða í bók sinni Freedom from Fear, en í henni lýsir hann 12-spora kerfi sem hann þróaði í faraldrinum til hjálpa skjólstæðingum sínum að komast yfir ótta, sem hann líkir við fíkn. Til viðbótar mælir hann m.a. með því að fólk kynni sér tölfræði og gögn, og læri að hugsa fyrir sig sjálft til að koma í veg fyrir að aðrir hugsi fyrir sig. Þá hvetur hann fólk til að slíta öllum tengslum við hræðsluetjandi fjölmiðla, sem hann líkir við fíkniefnasala þar sem fíkniefnið er ótti.

Hvað finnst þér um þessi ráð og hvað annað er til ráða?

Greinin birtist fyrst á Krossgötur 18.04.2023

Skildu eftir skilaboð