Losun gróðurhúsalofttegunda: Tilgangslaus markmið og óleysanleg vandamál

frettinGeir Ágústsson, Innlent, LoftslagsmálLeave a Comment

Eftir Geir Ágústsson verkfræðing:

Í ársskýrslu Umhverfisstofnunar, sem gefin var út í vikunni, stendur svart á hvítu að Ísland sé ekki að standa sig þegar kemur að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra viðurkennir að stjórnvöld verði að gefa í.

Íslendingar hafa skrifað undir markmið sem er ekki hægt að ná og búið til vandamál sem er ekki hægt að leysa.

Á Íslandi hefur losun koltvísýrings verið í nálægð á bilinu 10-12 tonn á íbúa á ári seinustu 20 ár (datt aðeins undir 10 tonn á íbúa á veirutímum þegar fólk var að sprauta sig til dauða í stofufangelsinu). Megnið af þessari losun kemur úr framræstu landi, sjávarútvegur og samgöngur leggja til um 10%, iðnaður rúmlega 10% og framlag frá annarri starfssemi er hlutfallslega enn minna.

Yfirvöld hafa áttað sig á þessu og borga núna stórfé til að moka ofan í skurði og endurheimta votlendi. En hvað með allt hitt?

Samgöngur þarf auðvitað að minnka með skattlagningu. Venjulegt fólk fær ekki að skreppa til útlanda lengur. Slíkt verður aftur frátekið fyrir efnað fólk og opinbera starfsmenn.

Hagkvæma bíla þarf líka að taka af fólki. Áhrifin á heildarlosunina eru nánast engin en sterk skilaboð send um að þjáningar þeirra efnaminni séu nauðsynlegar til að ná markmiðum hinna efnameiri. Hljómar mögulega kunnuglega í sögulegu samhengi?

Nú þegar er búið að gera notkun plastpoka erfiða fyrir fólk. Plastumbúðirnar utan um kjötið, gúrkuna, salatið og sælgætið mega ekki fara í plastpoka út úr búðinni. Þegar heim er komið þarf að þrífa ruslið og flokka í óteljandi tunnur. Skref eru sífellt tekin í átt að því að sækja yfirleitt ekki rusl heim til fólks lengur. Í stað hagkvæmra ruslabíla sem sækja mikið magn eru minni einkabílar á rúntinum á milli móttökustöðva og gáma fyrir ruslið. Ruslið má ekki urða eða brenna. Þess í stað er það sett á skip og því siglt um heimsins höf.

Allt kostar þetta svimandi fjárhæðir sem koma í skiptum fyrir sífellt minni þjónustu. Í nafni umhverfisins, auðvitað. En það er mikilvægt að efnaminna fólk fái að borga til að ná markmiðum þeirra efnameiri.

Landbúnaður losar. Aðallega er því að kenna prumpandi beljum og vinnuvélunum sem slá grasið fyrir sömu beljur. Víða er búið að taka skref í átt að því að taka kjötið úr þessum beljum og öðrum dýrum af fólki með því að gera það dýrt og þannig ná markmiðum hinna efnameiri sem hafa vitaskuld áfram efni á kjötbitanum.

Einu sinni voru tollar taldir vera gott tæki til að vernda innlenda framleiðslu og útvega peninga í opinbera sjóði. Síðan fóru ríki að ræða sín á milli um að minnka tolla og hjálpa hverjum öðrum að sérhæfa sig á opnum og frjálsum markaði, sem er alveg ljómandi sniðugt svo því sé haldið til haga. Tollar snúa nú aftur en að þessu sinni í nafni loftslags. Ekki dugir að Kínverjar séu að fjöldaframleiða varning á kostnað eigin umhverfis svo venjulegt fólk á Vesturlöndum geti endurnýjað fataskáp sinn oftar en valdastéttinni þykir við hæfi. Föt þurfa á ný að verða dýr svo hinn óbreytti launþegi kaupi minna af þeim. Hinum efnaminni munar eftir sem áður ekkert um þær verðhækkanir.

Til að ná tilgangslausum markmiðum um losun þarf að leysa hið óleysanlega vandamál að svipta almenning lífskjörum hans án þess að hann steypi yfirvöldum af stóli. Hérna horfa stjórnmálamenn sennilega mjög til Hollands þar sem stjórnvöldum á vegferð íslenskra stjórnvalda var einfaldlega ýtt til hliðar af kjósendum, með bændur í broddi fylkingar.

Mun ganga betur á Íslandi að fá efnaminna fólk til að fórna sér fyrir markmið hinna efnameiri? Forsætisráðherra segir að það þurfi að gefa í. Sjáum hvað setur.

Skildu eftir skilaboð