Eftir Geir Ágústsson:
Í Reykjavík vill borgarstjórn meina að málaflokkur fatlaðra skýri skuldirnar og hallareksturinn, sé ástæða þess að ekki sé hægt að fjárfesta og halda gjaldskrám í hófi, tefji nauðsynlegar fjárfestingar og kalli á útþenslu stjórnsýslunnar, enda séu þá fleiri til að kasta heitu kartöflunni á milli sín. Þetta hefur vitaskuld bæði verið leiðrétt og fordæmt enda bæði rangt og siðlaust. En stóri lærdómurinn er auðvitað sá að borgarstjórn neitar jafnvel í fallinu að hún hafi klifrað of hátt á skuldafjallið.
En minnum okkur aðeins á hverjum er í raun um að kenna: Kjósendum. Þeir hafa látið selja sér sama ógeðsdrykkinn svo árum skiptir og trúað lygum og loforðum ítrekað.
Fyrir því geta verið margar ástæður: Starfsmenn borgarinnar, sem sífellt fer fjölgandi, kjósa vitaskuld þá sem lofa að varðveita störf þeirra, í borginni búa margir bótaþegar sem borga lítið í skatt en fá mikið í bætur og vilja auðvitað halda því áfram, fólkið í austustu hverfunum sem þarf bíla og vegi og kýs minnihlutaflokkana hefur tiltölulega lítið atkvæðavægi miðað við þéttari borgarhluta þar sem eru færri börn og þar sem fólk vill frekar bjór á kaffihúsi en bíl í innkeyrslu, og svo hefur skuldasöfnunin auðvitað tafið nauðsynlega hagræðingu og skattahækkanir og miklu skemmtilegra að lifa í blekkingu á meðan það er hægt en að láta tekjur mæta útgjöldum.
Ekki bætir úr skák að þegar allir lofa öllu þá er erfitt að sjá mun á flokkum.
Engin ein lausn blasir við. Mögulega þyrfti Alþingi að liðka fyrir uppskiptingu sveitarfélaga í fleiri og smærri sveitarfélög eða leyfa bæjar- og borgarhlutum að færast á milli sveitarfélaga. Mögulega þurfa borgarbúar vænan skell í formi skattahækkana og frekari skerðinga á þjónustu og innviðum til að átta sig. Mögulega þarf fólk sem þolir ekki meiri yfirgang að flytja í næsta bæ. Kannski þurfa seinustu stóru vinnustaðirnir að koma sér í burtu og starfsfólkið fylgir með.
Sumir eru bjartsýnni á lýðræðið. Núna hljóta kjósendur að átta sig! En það held ég ekki, eins og staðan er núna. Það er enginn að tala um róttækar aðgerðir, eins og þær að borgin haldi sig við lögbundin verkefni (hljómar ekki endilega róttækt en er það miðað við ástandið í dag) og stefni á að vera með lægsta útsvar höfuðborgarsvæðisins, án biðlista (hljómar ómögulegt en er einfaldlega staðan í sumum sveitarfélögum). Áhersla minnihlutans er á eitt og eitt mál sem er í umræðunni hverju sinni, auk almennra yfirlýsinga um að ástandið sé nú ekki nógu gott og að ekkert megi ræða í ráðhúsinu.
Sjálfur bý ég í sveitarfélagi í Danmörku þar sem sósíaldemókrataískur bæjarstjóri gefur út vikulegt fréttabréf þar sem hann fer yfir ástandið, bæði gott og skítt. Hann heldur opna fundi þar sem hann hlustar í eigin persónu á áhyggjur fólks og óskir. Hann lækkar stundum skatta eða hækkar og útskýrir af hverju. Ég hef aldrei hitt hann, ólíkt borgarstjóra Reykjavíkur, en kann mjög vel við hann. Kannski Reykvíkingar eigi ekki svona borgarstjóra skilið. Kannski sá sem klippir borða en hleypur í felur þegar skólpið og myglan fer á stjá og kennir svo fötluðum um vandræðin sé nákvæmlega það sem reykvískir kjósendur eigi skilið.