Allar áætlanir um að fella mjólkurkýr á Írlandi verða að fara fram af fúsum og frjálsum vilja bændanna, hafa bændasamtökin Irish Creamery Milk Suppliers Association varað við. Þetta kemur fram í dagblaðinu The Irish Times.
Pat McCormack, framkvæmdastjóri samtakanna, sagði í þættinum Newstalk Breakfast að „ef það á að vera eitthvað kerfi, þarf það að grundvallast á frjálsum vilja. Það er mjög mikilvægt vegna þess að það er ekkert vit í að fella dýr hjá einhverjum sem er með miklar fjárhagslegar skuldbindingar á bakinu, til að ná ákveðnum markmiðum.
McCormack hefur áður sagt að kúabú með t.d. 84 kúm megi aðeins hafa 62 kýr árið 2024 samkvæmt áætlunum.
Fella þarf allt að 65.000 mjólkurkýr árlega á Írlandi þar sem ríkisstjórnin ætlar að aðlaga landbúnaðinn að loftslagsmarkmiðum, samkvæmt skýrslu Irish Independent. Samkvæmt kynningarriti landbúnaðarráðuneytisins er leitast við að finna leiðir í landbúnaði til að „loka gatinu“ varðandi losun.
En McCormack sagði að bændur ættu að vera með í hvers kyns stefnubreytingu og væru tilbúnir til að taka þátt í „umhverfisvegferðinni“ sem framundan er.
Norður-Írland mun þurfa að fækka sauðfé og nautgripum um eina milljón til að standa við lagalega bindandi samning um loftslagsmarkmið, samkvæmt greiningu sem Guardian fékk í hendur á síðasta ári.
Stórfelld fækkun búfénaðs kemur í kjölfar samþykktar á lögum um loftslagsmál, sem krefst þess að landbúnaðargeirinn nái markmiðinu um "Net Zero" kolefnislosun fyrir árið 2050 og minnki losun metans um næstum 50% á sama tímabili.