Jóhannes Loftsson skrifar:
Fyrir þenkjandi fólk voru margar af Covid-sóttvarnaraðgerðum yfirvalda glórulausar. Í október 2020 þegar Ísland var með flest smit í Evrópu var landinu skellt í lás fyrir ferðamönnum frá lítt smituðum svæðum. Ári síðar giltu 2000 manna fjöldatakmarkanir í strætó en stuttu seinna var orðið bannað að dansa. Vistmönnum sóttvarnarhótela var bannað að nota bílaleigubíla í útivistartímanum sínum, en máttu taka strætó. Sóttvörnum héldu engin rök, enda voru yfirvöld sífellt staðin að því að brjóta eigin reglur. Kolbrún fór í myndatöku, Víðir bauð öllum ferðast heima hjá sjálfum sér, Bjarni skrapp í partí, Bubbi fékk undanþágu og þríeykið braut allar reglur við móttöku bóluefnisins. Viðhorf yfirvalda gagnvart almenningi skein vel í gegn í 8. þætti lofþáttaraðarinnar Stormur um covidtímann (mínúta 10:30) þegar sóttvarnarlæknir réttlætir áframhaldandi grímureglur hæðnislega með að: „Svo fer maður út og maður sér að menn eru bara að keyra bílinn sinn með grímu, Menn eru labbandi úti á berangri með grímu“. [… og því sé í lagi að halda grímuskyldu áfram og viðhalda hræðsluáróðrinum]
Að undanskilinni bólusetningatilrauninni, voru ferðatakmarkanir á landamærum líklega skaðlegasta sóttvarnaraðgerðin. Ráðist var gegn stærstu atvinnugreininni með aðgerðum sem kostuðu ríkissjóð a.m.k 1000 milljarðar. Rúmlega hálf milljón ferðamenn urðu fyrir frelsisskerðingu á við þúsundir ára í fangelsi. Þessi risa valdinngrip umturnuðu lífi fjölda manns. Margir misstu vinnuna, fjölskyldur sundruðust og í sumum tilfellum áttu aðgerðirnar sjálfar þátt í dauðsföllum. Slíkt hefur án efa spilað inn í banaslysi þegar ökumaður sofnaði undir stýri, eftir að hafa verið skipað að keyra með fjölskyldu sína alla leið frá Keflavíkurflugvelli heim til sín á Vestfirði án þess að stoppa.
PCR prófin sem notuð voru til að ákvarða smit og fangelsun fólks voru síðan stórgölluð fyrir slíka notkun. Til að geta greint covid sýkingu þurfa þessi próf að magna svörun prófsins. Ef mögnunin var of lítil hættu smit að greinast og ef mögnunin var of mikil fóru allir að greinast sem smitaðir. Útkoman verður því alltaf málamiðlun þar sem sætta sig verður við að ákveðinn hluti prófa sem sýni smit, séu í raun ósmitað („saklaust“) fólk. Hægt er að auka áreiðanleika þessara prófa með að skoða líka hvort fólk væri einkennalaust og endurtaka mælinguna ef svo var. Ekkert slíkt var gert hér á landi. Þar sem smithlutfall landamærasmits hér á landi fór aldrei undir 0,1% og vikumeðaltali aldrei undir 0,2%, má gróft áætla að um 0,1-0,2% mælinga hafi verið slíkar villuprófanir.
Frá 2020-2021 voru framkvæmdar 533 þúsund landamæraskimanir og aðeins 3000 reyndust jákvæðar eða 0,57% sýna. Að frádregnum villumælingum (0,15%) voru raunveruleg smit bara 0,4%. Fjórðungur eða um 750 manns fóru því að ósekju í sóttkví, sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir ef vandað hefði verið til verka og endurmælt.
0,4% smit úr landamæraskimuum er afar lágt hlutfall. Til samanburðar gáfu einkennasmitmælingum 4,7% eða tífalt fleiri smit. Þetta sýnir að landamærasmit voru í engu frábrugðnar öðru smiti í samfélaginu. Engin ástæða var því til mæla ferðamenn frekar en aðra, því smit hefðu vart getað verið lægri..
Þetta gagnsleysi aðgerðanna hlýtur sóttvarnaryfirvöldum að hafa verið ljóst allan tímann. Sérstaklega þegar haft er í huga viðtali sóttvarnarlæknis á Sprengisandi sumarið 2021 þegar hann viðurkenndi að kóvid lyki ekki fyrr en allir hefðu smitast. En ef svo var, af hverju voru yfirvöld að tefja faraldurinn?
Hvernig komust yfirvöld upp með slíkar aðgerðir sem réðust gegn fjölda stjórnarskrárvarinna réttinda, ferðafrelsi, atvinnufrelsi og frelsi sem og sjálfsagðra mannréttinda eins og réttindi fólks yfir eigin líkama?
Í íslensku réttakerfi á svokölluð meðalhófsregla að halda aftur af aðför að stjórnarskrá. Meðalhófsreglan ber með sér að ef skerða á stjórnarskrárvarin réttindi á er lögð sú krafa á valdhafa að 1) aðgerðir þurfa að vera markhæfar, þ.e. bæði með skilgreind markmið sem aðgerðirnar vinni að, 2) velja verður ávallt vægasta úrræðið og 3) sýna verður fram á að ekki sé verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Engu af þessu var fylgt:
- Aldrei voru skilgreind markmið með landamærasóttkvínni, og því sá enginn ástæðu til að hætta (meira að segja eftir að sóttvarnarlæknir fór að kalla eftir að allir þyrftu að smitast.)
- Aldrei reyndu yfirvöld að milda frelsisskerðingar með því að mæla einkennalausa.
- Aldrei reyndu yfirvöld að leggja mat á skaða landamæraaðgerðanna miða við aðra kosti til að finna smit, en að knésetja stærstu atvinnugreinina. Aldrei þurftu yfirvöld að meta skaðann af eigin aðgerðum, þau dauðsföll sem þau orsökuðu (t.d.var aukning sjálfsvíga og ofneysluandláta um 30 árið 2020)
Flestar aðgerðir yfirvalda ólu þvert á móti á ótta og hræðslu, með daglegum hræðslufundum, sett var á gagnslaus grímuskylda og þegar smitum fór óumflýjanlega aftur að fjölga var skuldinni skellt á óbólusetta.
Nú eftir að nær allir Íslendingar hafa smitast, þá blasir tilgangsleysi aðgerðanna við öllum. En mun íslenskt réttarkerfi átta sig á því og standast prófið, eða er stjórnarskráin marklaust plagg sem yfirvöld geta ýtt til hliðar þegar hentar.
Klukkan 9:00 í dag (7. júní) fer mál sem tengist þessum aðgerðum fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur í sal 201. Hvet alla sem geta komist til að mæta.
Greinin birtist fyrst á Krossgötur 6.6.2023
One Comment on “Mun íslenskt réttarkerfi standast prófið?”
Það kom fyrir á Covid-tímum, sérstaklega á annatímum, að Strætisvagnar voru troðfullir af fólki, það mátti!