Kristján Hreinsson skáld, rithöfundur og kennari var nýlega rekinn frá Endurmenntun Háskóla Íslands fyrir að skrifa pistil á sína eigin Facebook síðu og Mannlíf gerði frétt úr. Hann hefur fengið sér lögmann í málinu.
Kristján skrifar nú annan pistil sem heitir Dómstóll heimskunnar og er svohljóðandi:
Ég held því fram að fólk leyfi heimsku að ráða för. Þar með er ég ekki endilega að halda því fram að þeir sem slíkt gera séu fullkomnir heimskingjar. Tillitsleysið, gáleysið og óttinn við álit annarra er oftar en ekki hvati að heimsku augnabliksins. Ég reyni að koma umræðunni til bjargar, ég reyni að sýna minnihlutahópum stuðning. Þegar einhver bendir á að umræðan sé komin á villigötur þá er náttúrulega best að stökkva til og brjóta áttavitann. Mér skilst að lokasetningar pistils míns hafi einkum farið fyrir brjóst fólks sem sér púka í hverju horni. En það þarf einbeittan vilja til þess að misskilja orð mín. Þar sem ég hef komist næst því að vera með fordóma við transfólk var reyndar í öðrum pistli þar sem ég ritaði: „Við lifum í heimi þar sem allir eru hinsegin, allir eru öðruvísi en allir hinir. Ef það að vera öðruvísi tengist kynhegðun eða kyngervi þá fyrst verður maður alvöru spes, jafnvel þótt tölfræðilega sé það eflaust meira spes að að vera óbóleikari eða tölvunörd heldur en að vera trans eða kynsegin.“
Mikið ofboðslega vorkenni ég fólki að sem hefur þurft að hlusta á mig færa því vísdóminn. Það liggur við að ég skammist mín fyrir hönd foreldra minna. Það er bókstaflega agalega og svakalega gasalegt að þau skyldu koma hvílíku úrhraki í heiminn. Ég kenni m.a. ritlist og ég kenni nemendum mínum að rithöfundur verði að reyna að vera sannur í því sem hann ritar.
Til þess að rithöfundi megi auðnast að gæða persónur réttu lífi þá á hann að leyfa sé að nota öll orð. Hann ber ekki ábyrgð á gjörðum þeirra persóna sem hann lýsir. Að mínu mati á höfundur ekki að vera með bannorðalista, hann á ekki að leyfa duttlungum tiltekinna hópa að ráða því hvað hann skrifar. Hann er ekki neyddur til að stunda sögufölsun í nafni pólitísks rétttrúnaðar. Ef þetta eru fordómar þá er hægt að flokka allt sem fordóma. Hið merkilega er að nokkrir yngri nemendur hafa klagað mig til yfirmanna minna og hafa sagt mig vera með fordóma, vegna þess að ég tek dæmi um orð sem ég tel að höfundur verði að nota til þess að stunda ekki stöðuga fölsun.
Nú vill svo skemmtilega til að ég er m.a. heimspekingur og á þeim vettvangi hef ég lært að til er fólk sem les einungis það úr textum sem það vill lesa. Hverjum og einum er frjálst að væna mig um fordóma. En þá verður fólk að reyna að sýna að gáfur þess dugi til, læra að færa rök fyrir máli sínu, sýna mér og hinum hvað er rangt við það að rithöfundur noti öll orð sem í boði eru, þ.e.a.s. í heimi þar sem engin orð eru bönnuð. Að öðrum kosti ætti fólk að skammast sín fyrir eigin hönd og biðja mig afsökunar.