Eftir Jón Magnússon:
Utanríkisráðherra hefur ákveðið einhliða að ögra Rússum og nánast slíta við þá stjórnmálasambandi. Ég hef fyrir satt, að málið hafi ekki verið rætt í ríkisstjórn og utanríkismálanefnd Alþingis hafi ekki fengið að vita af málinu fyrr en korteri fyrir fund nefndarinnar. Þá hafði utanríkisráðherra tekið sína ákvörðun í anda stjórnlyndishugmynda yfirstjórnar Evrópusambandsins í Brussel og Sovétríkjanna sálugu.
Í utanríkisstefnu Sjálfstæðisflokksins, sem samþykkt var á síðasta Landsfundi segir m.a.:
„Að stuðla að friðsamlegu samstarfi þjóða. Ísland verði fyrirmynd annarra þjóða í friðarmálum.“
Varla er ákvörðun utanríkisráðherra að ögra Rússum og sýna þeim ómælda fyrirlitningu, í anda tilvitnaðrar stefnumörkunar Sjálfstæðisflokksins. Þá ekki heldur að fara að eins og utanríkisráðherra að standa í og að vopnaflutningum til stríðssvæða.
Hyldýpisdjúp er staðfest á milli hugmynda og stefnu utanríkisráðherra og Bjarna heitins Benediktssonar fyrrum formanns Sjálfstæðisflokksins og Ólafs Thors sem lengst hefur setið sem formaður Sjálfstæðisflokksins. Þeim datt ekki í hug að slíta stjórnmálasambandi við Sovétríkin þó þeir væru einlægir baráttumenn gegn kommúnisma og fyrir vestrænu varnarsamstarfi í NATO.
Þess heldur mörkuðu þessir fyrrum forystumenn Sjálfstæðisflokksins þá stefnu sem kom fram árið 1945, þegar Bandaríkjamenn og Bretar kröfðust þess að við segðum Þjóðverjum og Japönum stríð á hendur, þá stóðu þessir menn og aðrir málsmetandi íslenskir stjórnmálamenn að því að segja við sigurvegara síðara heimsstríðs: Ísland er vopnlaus þjóð, sem vill hafa friðsamlega sambúð við allar þjóðir og munum ekki segja öðrum þjóðum stríð á hendur eða standa í vopnaskaki.
Þvert á þá stefnumótun í utanríkismálum hefur utanríkisráðherra og forsætisráðherra verið helstu klappstýrur á ógnarmörgum fundum NATO og Evrópusambandsins, þar sem reynt er til hins ýtrasta að finna sem djöfullegust ráð, sem komi sem verst niður á Rússnesku þjóðinni og ýti Rússum sem lengst í burtu og inn í náðarfaðm Kína þvert á heildarhagsmuni Evrópu til lengri tíma litið.
Þeir Bjarni heitinn Benediktsson og Ólafur Thors höfðu þá framsýni, að slíta ekki stjórnmálasambandi við Sovétríkin þó þau réðust inn í Ungverjaland 1956 eða Tékkóslóvakíu 1968. Áfram var haldið vinsamlegum samskiptum, viðskiptum og stjórnmálasambandi. Það er dapurlegt að arftaki þeirra núverandi utanríkisráðherra skuli ekki hafa sambærilega framsýni og fyrrum forystumenn Sjálfstæðisflokksins.
Það er dapurlegt að horfa upp á það að Evrópuríkin skuli ekki fyrir löngu hafa mótað stefnu til að stöðva þetta stríð á milli Rússa og Úkraínu og stöðva það, í stað þess að stuðla að stigmögnun stríðsins.
Margir vonuðu að þær Katrín Jakobsdóttir „NATO andstæðingur“ og „friðarsinni“ sem og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir sem ætti að bera stefnu Sjálfstæðisflokksins í farteskinu mundu leggja öll sín lóð á vogarskál friðar og samninga í stað þess að stuðla að áframhaldandi stríðsrekstri, mannfalli og auknum hörmungum.
Í stjórnmálum skiptir máli og skilur á milli feigs og ófeigs í að stjórnmálamenn einhendi sér í það sem þarf að gera en skipti sér ekki af eða eyði tíma í það sem ekki þarf að gera.
Utanríkisráðherra hefur nú á stuttum tíma, í tvígang farið fram með mál, sem engin þörf var á að gera en eru bæði skaðleg og ónauðsynleg.
Annars vegar að leggja fram lagabreytingartillögu um að Evrópusambandsréttur skuli gilda umfram önnur lög sett á Alþingi. Engin þörf er á þeirri lagasetningu hvað svo sem strákarnir í Brussel segja. Hins vegar algjörlega að nauðsynjalausu að ögra Rússum og nánast slíta stjórnmálasambandi við þjóð, sem við höfum ekki troðið illsakir við og eigum ekki að gera.
Rússar halda áfram að vera þjóð löngu eftir að Pútín hættir og ef við viljum hafa áhrif til góðs, þá stuðlum við að samskiptum þjóða í stað þess að einangra þær. Það er mikilvægur liður í að stuðla að friði.