Morgunblaðið: Skæruliðar eru frétt, byrlun ekki

frettinInnlent, Páll Vilhjálmsson2 Comments

Eftir Pál Vilhjálmsson:

Byrlunarmálið var fyrst nefnt skæruliðamálið. Það hófst með byrlun Páls skipstjóra Steingrímssonar 3. maí 2021. Á meðan Páll var á gjörgæslu var síma hans stolið og fenginn blaðamönnum RSK-miðla (RÚV, Stundin og Kjarninn) til afritunar.

Kjarninn og Stundin birtu á sama tíma fyrstu fréttir upp úr síma skipstjórans þann 21. maí 2021, tæpum þrem vikum eftir byrlun og stuld. Fréttaflutningur var samræmdur, áþekk fyrirsögn var í báðum miðlum, ,,skæruliðadeild Samherja". Vitanlega var engin skæruliðadeild, það er tilbúningur blaðamanna En nafnið festist og úr varð skæruliðamálið.

Morgunblaðið endurbirti fréttir úr Stundinni og Kjarnanum, t.d. um meint afskipti Páls skipstjóra af formannskjöri í BÍ, og að lögfræðingur Samherja sé ræðismaðurKýpur á Íslandi. Einnig hvort Pétur eða Páll væru höfundar að blaðagreinum.  Morgunblaðið taldi þörf á að lesendur fengju að heyra tíðindin. Endursögn eins fjölmiðils á fréttum í öðrum miðli er alsiða.

Þegar frá leið umbreyttist skæruliðamálið í byrlunarmálið. Ástæðan er einföld. Skæruliðamálið voru samskipti Páls skipstjóra við samherja (með litlu s-i) um viðbrögð við Namibíuherferð RSK-miðla gegn Samherja (stórt s) sem hófst með Kveiks-þætti á RÚV í nóvember 2019. Pál og félagar spjölluðu saman, frömdu engin lögbrot. Byrlun og gagnastuldur eru aftur lögbrot og þau alvarleg. Þá er misnotkun á andlega veikum siðleysi, ef ekki refsilagabrot. Brot á friðhelgi er einnig afbrot.

Fjórir blaðamenn fengu stöðu sakborninga í byrlunarmálinu 14. febrúar í fyrra. Um leið og skæruliðamálið fór að snúast um byrlun, gagnastuld, friðhelgisbrot og misnotkun á andlega veikum einstaklingi breyttist fréttamat Morgunblaðsins. Nú var allt í einu fátt að frétta, þótt lögreglurannsókn stæði yfir og gögn komin fram í dagsljósið um aðild blaðamanna að byrlun og stuldi.

Páll skipstjóri Steingrímsson var í byrjun viku í viðtali hjá Frosta Logasyni í hlaðvarpinu Brotkast. Þar segir Páll frá því hvernig blaðamenn misnotuðu veika eiginkonu hans og fengu til óhæfuverka.

Í viðtalinu er hver stórfréttin á fætur annarri, s.s. um hlut Helga Seljan, bæði í samskiptum við eiginkonu Páls og falskri kæru um að Jón Óttar Ólafsson, sem vann fyrir Samherja, hafi setið um Helga tiltekinn dag. En þennan dag var Jón Óttar ekki á landinu. Samt lagði Helgi fram kæru til lögreglu og fékk annan fjölmiðlamann til að ábekja hana, bera ljúgvitin.  Þá ræðir skipstjórinn hlut Láru V. Júlíusdóttur, sem var lögfræðingur eiginkonu hans, hvernig lögfræðistofa Láru V. var vettvangurinn þar sem blaðamenn fengu símkort veiku konunnar - til að eyða upplýsingum um fyrri samskipti.

Allir með fréttanef sjá fréttirnar. Verðlaunablaðamaður leggur fram falska kæru; lögfræðingur spillir lögreglurannsókn í þágu blaðamanna. Hvað með hlut útvarpsstjóra sem slær skjaldborg um sakborninga og lóðsar þá í nýja heimahöfn svo lítið beri á? Hvers vegna hefur ríkisfjölmiðillinn ekki gert grein fyrir afbrotum starfsmanna sinna?

En það er engin frétt í Morgunblaðinu um viðtalið við Pál skipstjóra og upplýsingarnar sem hann leggur fram. Hvers vegna þegir Morgunblaðið nú þegar skæruliðamálið er orðið byrlunarmálið? Áður voru sagðar fréttir, unnar upp úr RSK-miðlum. Er Morgunblaðið að segja okkur að Þórður Snær og Aðalsteinn Kjartansson, báðir sakborningar, séu betri heimildir fyrir fréttum en brotaþolinn Páll Steingrímsson? Morgunblaðið endurbirti fréttir tvímenninganna en tekur þátt í RSK-þöggun á skipstjóranum.

Tilfallandi bloggari hitti gamalreyndan blaðamann Morgunblaðsins í vor og spurði hvers vegna blað allra landsmanna tiplaði á tánum í byrlunarmálinu. Svarið var þetta: ,„Þau [blaðamenn RSK-miðla, sakborningarnir] líta á það sem persónulega árás á sig ef fréttir eru sagðar af málinu·.

Páll skipstjóri varð fyrir svívirðilegri árás, andlega veik eiginkona hans var misnotuð af blaðamönnum til að byrla Pál og stela síma hans. Skipstjórinn var úthrópaður sem skæruliði og einkalíf hans borið út á götur og torg. Árásirnar gerast ekki persónulegri. En Páll er sjómaður, ekki blaðamaður með kunningja og vini á öðrum fjölmiðlum.

Blaðamenn Morgunblaðsins sem vorkenna starfsfélögum á RSK-miðlum ættu að ígrunda að blaðamennska hefur aldrei snúist um að hylma yfir glæpi og veita siðlausum afbrotamönnum friðhelgi. Blaðamennska er að segja fréttir, útskýra samhengi, greina, upplýsa. Andhverfa blaðamennsku er þöggun á mikilsverðum málum.

2 Comments on “Morgunblaðið: Skæruliðar eru frétt, byrlun ekki”

  1. Það er áhugavert að Páll kennari segir hérna að umræðu um skæruliðamálið hafi verið snúið með þesari smjörklípu; að skrif um glæpi Samherja hurfu á bak við hjartaskerandi frásögn af fjölskylduharmleik, sem á einhvern dularfullann hátt tengist einmitt þeim blaðamönnum sem skrifuðu um glæpi Samherja.

    Allt í einu varð skúrkurinn, Páll skæruliði, að fórnarlambi, af því að kona hans sem ekki gengur heil til skógar, eitraði fyrir honum, og að sögn kennaranns gerði hún það einvörðungu af því að vondir menn á RUV sögðu henni að gera það.

    Í upphafi sakaði Páll blaðamenn um að hafa fjarstýrt konunni veiku, en smám saman hafa áskanir skroppið saman í að blaðamenn tóku við stolnum síma, og þeir vissu það og plönuðu. Það er í sjálfu sér ekki ólöglegt fyrir blaðamenn að taka við stolnum upplýsingum, afrita þau, og skrifa úr þeim fréttaumfjallanir. Það eru fjölmörg alvarleg sakamál og samsæri, sem hafa komið í dagsljósið á einmitt þann hátt.

    Það þýðir ekki að fjölmiðlamenn eru saklausir, en það er tæplega hægt að hengja gjörðir andlega veikrar konu á þá. Það myndi í öllu falli vera afar erfitt að sanna “intent”, eða að það hefði ætlun blaðamanna að veika konan byrlaði fyrir skipstjóranum.

    Síminn sem RUV á að hafa keypt og númerið sýna bara að blaðamenn bjuggust mögulega við að fá símann í hendurnar og vildu afrita hann. Í dag reynir Julian Assange að koma í veg fyrir vera framseldur til USA þar sem hans bíður langur dómur fyrir gangastuld og annað, af því hann gerði nákvæmlega það sama og fréttamenn RUV gerðu; hann tók við stolnum gögnum og birti þau, af því þau koma almenningi við.

    en það er ekki Páls kennara, Páls skipstjóra eða annarra á launaskrá samherja að ákveða sekt eða sýknu, við höfum dómstóla til þess. Þessi áróðursherferð samherja, sem Páll kennari er andlit fyrir, er smánarleg og ætti að vera efni í sérumfjöllun. Hvernig áróður er notaður til að stýra skoðunum þínum.

    Ef Páli kennara væri raunverulega umhugað um þagganir í okkar þjóðfélagi, þá myndi ann að skrifa eitthvað um mútuglæpi Samherja í Namibíu, eða skattaundanskot þeirra í Færeyjum, eða eitthvað annað sem þetta fyrirtæki hefur gert sig seka um, en við fáum aldrei að heyra um.

    Það væri líka áhugavert að heyra eitthvað um hvers vegna Samherji sleppur sífellt frá réttvísinni, og að rannsókn á mútuglæpum viðrist týnd ofan í skúffu …

  2. Það er mikill munur á aðferðum og gagnasöfnun Julian Assange enn aðferðum íslensku blaðamannana. Julian Assange lagði engan í hættu með því að byrla fyrir fólki eða notafæra sér sjúka manneskju, enn það gerðu íslensku veðlaunablaðamennirnir (blaðramennirnir). Þú fremur ekki GLÆP til að uppræia annan GLÆP svo einfalt er það!

    Þetta fólk sem stóð að þessu á að fá þunga dóma fyrir þennan verknað!

Skildu eftir skilaboð