Þér eruð kúkur!

frettinInnlent, PistlarLeave a Comment

Eftir Kristján Hreinsson skáld og rithöfund - birt á Facebook 15. júní 2023.

Allir menn eru jafnir – sumir eru þó jafnari en hinir. Óbein tilvitnun í Dýrabæ eftir George Orwell er viðeigandi og víst mætti hér einnig benda á að dystópía hans, 1984, er að verða raunveruleiki dagsins í dag. Sannleikurinn er lygi og lygin er sannleikur.

Við stöndum frammi fyrir skilgreiningarvanda, vegna þess að við misskiljum nánast allt sem að okkur er rétt. Hér langar mig að taka tvö dæmi: Fyrra dæmið snýst um flokkun, skilgreininguna „hinsegin“ eða „hinsegin fólk“ en vandi þeirrar skilgreiningar er augljós um leið og hún er skoðuð nánar. Hún snýst um að segja okkur að til sé „svona fólk“ og „hinsegin fólk“ þessar tvær katagóríur eru samt ekkert sjálfgefnar. Fyrst og fremst vegna þess að flokkunin er gerð á fölskum forsendum. Um leið og einhver segist vera öðruvísi, t.d. meira spes en einhver annar og ef við leyfum honum að halda því fram þá er það eins og leyfa manni að stökkva út úr flugvél með regnhlíf í stað fallhlífar. Annar hópurinn býr sér til sérstöðu á kostnað hins. Sérstaðan er þó ekki raunveruleg vegna þess að allir menn eru sérstakir. Það er gefið í skyn að auðvelt og ómerkilegt sé að vera bara svona manneskja – miklu erfiðara og merkilegra að vera hinsegin. Skilgreiningin átti að vera styrkur en hún er veikleiki þegar öllu er á botninn hvolft. Hér þarf enga skilgreiningu – við erum öll fólk. Það er væntanlega ekki til neitt sem heitir „venjulegt fólk“ þess vegna erum við öll „óvenjulegt fólk“.

Núna er hægt að segja að ég sé með þessu að kalla yfir mig heimskulega dóma fólks sem neitar að skilja samhengið. Hér er ég fyrst og fremst með fóbíu fyrir svona fólki, obba þeirra Íslendinga sem samþykkja skilgreiningar án þess að hugsa.

Hitt dæmið sem ég vil taka er einnig reist á skilgreiningum og flokkun. Hér er leiðinni heitið inn á jarðsprengjusvæði orðræðunnar. Hinn heimski meirihluti vill helst ekki rugga bátnum og leyfir þess vegna hinum heimska minnihluta að ákveða hvernig orðræðu skal háttað. Fólk hefur komist að þeirri niðurstöðu að best sé að banna öll orð sem hugsanlega geta fengið okkur til að móðgast fyrir hönd annarra. Í nafni pólitísks rétttrúnaðar viljum við skipta út kyni orða og helst banna orðið „maður“ vegna þess að það er í karlkyni. Við viljum að hugsjónir minnihlutahópa verði að vera æðri skoðunum almennings. Væntanlega vegna þess að bolurinn er svo hrottalega heimskur að honum er ekki viðbjargandi. Beturvitahjörðin hlýtur að geta kennt fólki hvernig það skal tala – ef hún getur kennt hvernig best er að tala ekki. Að þagga niður í fólki með því að væna það um hatursorðræðu er besta leiðin. Segðu það sem við viljum ekki heyra og við munum ráðast að þér með því að kalla þig dreggjar samfélagsins, forpokaðan hommahatara, með transfóbíu og rasíska orðræðu, fulla af hatursáróðri í garð allra sem eru ekki nákvæmlega eins og þú. Á tungumáli fína fólksins í kokteilboði í fílabeinsturni hræsninnar er þetta orðað svona: „Þér eruð kúkur!“ Það er auðvelt að ráðast að þeim sem hefur á röngu að standa, gegn orðum hans beitir maður rökum. Auðveldara er þó að ráðast gegn þeim sem hefur á réttu að standa, gegn honum þarf ekki að nota nein rök – nóg er að níða af honum skóinn.

Allir menn eru einstakir, enginn er meira spes en næsti maður. Forsendurnar eru einfaldar en þær er auðvelt að misskilja. Ef það á að vorkenna einhverjum vegna þess að hann er meira spes en ég, þá á að vorkenna mér fyrir að vera minna spes en hann. Ég er sammála Kára Stefánssyni þegar ég held því fram að nær undantekninga laust séu Íslendingar vitlaust fólk í réttum líkama. Ég viðurkenni ekki tilvist guða og fyrir vikið er ég sakaður um að ráðast að tilvistargrunni þeirra og þeim sjálfum. Hvernig get ég verið mótfallinn guðum ef ég trúi ekki á tilvist þeirra? Ég er sakaður um að ráðast að fólki sem segist vera meira spes en ég sjálfur. Engu að síður er ég viss um að allir séu meira spes en allir hinir. Hvernig get ég vorkennt einhverjum á þeirri forsendu að hann segist vera öðruvísi en ég? Hvernig get ég klappað þeim lof í lófa sem segist vera meira spes en allir aðrir þegar allir aðrir eru líka meira spes en hann?

Skildu eftir skilaboð