Björn Bjarnason skrifar:
Það er með öllu ástæðulaust að sá efasemdum um réttmæti orða bæjarstjórans. Að kalla á fulltrúa Rauða krossins til að gera það í Kastljósi breytir engu í alvarlegu myndinni.
Í grein á dönsku vefsíðunni Refugees.dk segir að árið 2022 hafi 4.591 nýr hælisleitandi verið skráður í Danmörku. Tæplega helmingur voru Úkraínumenn sem drógu margir umsókn sína til baka og um 100 voru Afganir sem Danir björguðu frá Afganistan. Um fjórðungur hafði þegar búsetuleyfi í Danmörku, venjulega vegna fjölskyldusameiningar – þeim er lýst sem „skráðum úr fjarlægð“.
Fyrstu fjóra mánuði ársins 2023 hafa 865 hælisleitendur verið skráðir í Danmörku og nær talan yfir þá sem skráðir eru í fjarlægð.
Hér á landi var staðan sú eftir fyrstu fjóra mánuði ársins 2023 að 1771 hælisleitandi hafði verið skráður, 813 frá Venesúela, 629 frá Úkraínu og 71 frá Palestínu.
Útlendingastofnun telur að umsóknir um vernd verði ekki færri hér á þessu ári en í fyrra. Fjöldi umsókna 2022 var 4.518 og hefur aldrei verið meiri. Áætlanir stofnunarinnar byggja á þeim forsendum að í nánustu framtíð sé hvorki að vænta breytinga á ástandinu í Úkraínu né í komum umsækjenda um vernd frá Venesúela. Telur útlendingastofnun að umsóknir hælisleitenda geti orðið allt að 6.000 í ár.
Það er í ljósi talna af þessari stærðargráðu og upplýsinga frá Danmörku sem að ofan er getið sem talið er að umsækjendur um alþjóðlega vernd (hælisleitendur) verði fleiri hér á landi í ár en í Danmörku.
Eftir að Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, vakti máls á þessu í Kastljósiríkissjónvarpsins mánudaginn 19. júní sá ritstjórn Kastljóss tilefni til þess miðvikudaginn 21. júní að kalla til samtals Kristjönu Fenger, lögfræðing Rauða krossins, til að sá efasemdum um að þessar tölur væru réttar. Á ruv.is 22. júní er vitnað í Kristjönu sem segi „það vart fást staðist“ að von sé á fleiri flóttamönnum til Íslands á þessu ári en Danmerkur.
Tölurnar sem Rósa Guðbjartsdóttir nefndi í Kastljósinu voru augljóslega um umsækjendur um alþjóðlega vernd (hælisleitendur) hér á landi annars vegar og í Danmörku hins vegar. Lögfræðingur Rauða krossins kaus hins vegar að fara að tala um séraðgerð Dana vegna flóttamanna frá Úkraínu sem fara ekki í gegnum hælisleitendakerfið og boðið hefur verið að búa á einkaheimilum eða húsnæði á vegum sveitarfélaga.
Það er með öllu ástæðulaust að sá efasemdum um réttmæti orða bæjarstjórans. Að kalla á fulltrúa Rauða krossins til að gera það í Kastljósi breytir engu í alvarlegu myndinni af stöðu þessara mála sem bæjarstjórarnir Kjartan Már Kjartansson í Reykjanesbæ og Rósa Guðbjartsdóttir kynntu.
„Þetta er komið nóg,“ sagði Kjartan þegar hann lýsti stöðunni í sínu bæjarfélagi. „Þetta er stefnulaust,“ sagði Rósa og hvatti til þess að farið yrði í smiðju hjá öðrum norrænum þjóðum til að læra af þeim.
Hér var í gær bent á að skráðar umsóknir um hæli í Finnlandi eru um 5.000 á ári og í fyrra fengu 1.050 hæli, nýr innanríkisráðherra ætlar að lækka þessa tölu í 500. Þarna er skýr stefna með mælanlegt markmið. Geti Finnar tekið á útlendingamálum á þennan veg er einnig unnt að gera hér, skorti ekki viljann.
One Comment on “Sprungið hælisleitendakerfi”
Athyglisvert er að þegar umræðan um hælisleitendur er að fara á flug um að Ísland er uppselt þá bannar Svandís hvalveiðar.. og núna er engin að tala um hælisleitendur.