Rússland og Úkraína skrifuðu undir leynilegan friðarsamning í mars í fyrra

frettinErlent, ÚkraínustríðiðLeave a Comment

Tjörvi Schiöth skrifar:

Komið hefur í ljós að Rússland og Úkraína virðast hafa skrifað undir leynilegan friðarsamning í Istanbul í fyrra, þann 29. mars 2022 (mánuði eftir innrásina í febrúar), sem leiddi til þess að Rússar drógu herlið sitt til baka frá Kænugarði og norðurhluta Úkraínu (undir lok mars og í byrjun apríl 2022). Á þeim tíma voru Úkraínumenn tilbúnir að fallast á kröfur Rússa um að verða hlutlaust ríki og ganga ekki í NATO (eins og greint var frá í fjölmiðlum á þeim tíma).

En Úkraínumenn tóku síðan upp nýjan tón og höfnuðu þessari málamiðlun í byrjun apríl, eftir að fréttirnar um fjöldamorðið í Bucha bárust þann 2. apríl, og einnig eftir að Boris Johnson (þáv. forsætisráðherra Bretlands) flaug í skyndilega heimsókn til Kænugarðs þann 9. apríl og sagði Zelensky að Bretland myndi ekki styðja samninginn (en greint var frá þessu í úkraínskum fjölmiðlum á þeim tíma). Eftir það var öllum friðarviðræðum slitið og Úkraína tók ásamt bakhjörlum sínum á Vesturlöndum upp þá stefnu að hafna öllum málamiðlunum og ætla í staðinn að vinna stríðið á vígvellinum (með drjúgum vopnasendingum og hernaðarstoð frá NATO ríkjum).

Fyrir nokkrum dögum opinberaði Pútín nýlega þennan leynilega samning (draft treaty), sem á að hafa verið undirritaður af fulltrúum Úkraínu og Rússlands þann 29. mars í Instanbul. Hann sýndi skjalið á fundi með friðarsendinefnd afrískra þjóðarleiðtoga í St. Pétursborg þann 17. júní síðastliðinn. Afrísku þjóðarleiðtogarnir, leiddir af forseta Suður-Afríku Cyril Ramaphosa, höfðu einnig mætt á fund Zelensky í Kænugarði daginn áður, þar sem þeir höfðu lagt fram sitt friðartilboð í tíu liðum:

  1. Að ná friði með samningaviðræðum og diplómatískum leiðum.
  2. Að friðarviðræður hefjist sem fyrst.
  3. Að draga úr spennu átakanna á báða bóga.
  4. Að tryggja fullveldi ríkja og þjóða í samræmi við stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna.
  5. Að veita öryggistryggingar fyrir alla aðila.
  6. Að tryggja útflutning korns og áburðar frá báðum hliðum.
  7. Að veita mannúðarstuðning til fórnarlamba stríðsins.
  8. Að leysa mál stríðandi fylkinga um skipti á stríðsföngum (exchange of prisoners), og einnig um endurkomu barna til fjölskyldna sinna sem hafa verið brottflutt af átakasvæðum.
  9. Að stefna að enduruppbyggingu eftir stríð og aðstoð við fórnarlömb.
  10. Að halda uppi nánari samskiptum við Afríkulönd.

Hægt er að lesa ræðu Ramaphosa hér.

Zelensky hafnaði þessu friðartilboði afrísku sendinefndarinnar á þeim forsendum að það væri ekki hægt að hefja neinar friðarviðræður fyrr en að Rússar drægju herlið sitt til baka frá Úkraínu. Pútín hafnaði síðan friðartilboðinu með þeim rökum að þó að Rússar hafi alltaf verið viljugir til að semja (að hans sögn), þá séu það Úkraínumenn sem vilja ekki semja og það sé ómögulegt að semja við þá, þar sem þeir (og bakhjarlar þeirra á Vesturlöndum) hafi (samkvæmt Pútín) svikið fyrri samninga sem þeir skrifuðu undir með Rússum, eins og þennan leynilega samning frá Istanbul 29. mars í fyrra, sem Pútín birti í fyrsta skiptið á fundinum og lagði fram sem sönnun fyrir þessari fullyrðingu. En hann vísaði einnig í meint svik Úkraínu og Vesturlanda við Minsk II samninginn (sem var undirritaður í febrúar 2015 til að binda enda á borgarastyrjöldina í Donbas).

Pútín benti einnig á að Rússar höfðu dregið herlið sitt til baka frá Kænugarði (og norðurhluta Úkraínu) í samræmi við þennan samning, sem á að hafa verið undirritaður þann 29. mars í fyrra. En greint var frá því í fjölmiðlum á þeim tíma (sjá hér og hér) að fulltrúar rússneska varnarmálaráðuneytisins hefðu tilkynnt að þeir ætluðu að draga herlið sitt til baka frá Kænugarði í samræmi við það að samningaviðræðum væri að miða áfram.

Fjallað var um nánar um þessa atburðarrás, og þessar friðarviðræður sem áttu sér stað í mars-apríl í fyrra, í þætti á Samstöðinni, sem sjá má og heyra hér neðar:

Greinin birtist fyrst á Samstöðinni 25.6.2023

Skildu eftir skilaboð