Fyrirsagnir án innihalds

frettinFjölmiðlar, Innlent1 Comment

Eftir Kristinn Sigurjónsson:

Í þeim málum sem mikið hafa verið í fjölmiðlum og hafa kostað skattgreiðendur ógrynni fjár, eru yfirleitt engar faglegar ástæður fyrir peningaeyðslunni né að henni sé beint í réttan farveg.  Ekki er leitað til mismunandi sérfræðinga sem hafa þekkingu eða reynslu af viðkomandi málaflokki.

Undanfarin ár hafa vaðið uppi slagorð á forsíðum fjölmiðla um hitt og þetta.  Oftast fylgir slagorðunum örstutt grein eða umsögn í ljósvakamiðlum sem er ætlað að styðja fyrirsögnina.

Það sem verra er, er að fjölmiðlarnir endurtaka síbyljuna svo hún verður að sannleika í hugum fólks. Ekki gerir það málið betra að þekktir aðilar sem hafa ekkert vit á málinu taka undir síbyljuna, og þá er „sannleikurinn“ orðinn heilagur.

Vil ég nefna hér nokkur mál sem hafa tröllriðið sannleikanum

  • Heimilisofbeldi
  • Gróðurhúsalofttegundir
  • Hlýnun jarðar
  • Orkuskiptin
  • Fjölmiðlar og háskólar
  • Hvalveiðar
Heimilisofbeldi

Allar hlutlausar rannsóknir sýna að heimilisofbeldi er ekki kynjaskipt.   Heldur beita bæði kynin ofbeldi, þótt við sjáum síbylju frétta af körlum sem beita ofbeldi, en varla ein einasta frétt af konum sem beita eða er dæmdar fyrir ofbeldi.   Það gengur svo langt að þegar stelpur eru beittar miklu ofbeldi af öðrum stelpum, þá er talað um gerendur sem unglinga eða nemendur, en kynið varla nefnt.   Konur sem verða fyrir ofbeldi fá mikla aðstoð hjá ríkisstyrktum stofnunum en karlar fá enga aðstoð á sínum forsendum..

Gróðurhúsalofttegundir

Allir fletir sem hafa einhvern hita senda frá sér rafsegulbylgjur.  Styrkur þess og bylgjulengd er háður hitastigi flatarins.   Sameindir sem hafa fleiri en eitt atóm gleypa sumar þessara bylgja og hitna.   Þetta er notað til að hita matvæli í örbylgjuofni.  Þar er bylgjan stillt á bylgju sem vatnssameindin (H₂O) gleypir og þá hitar maturinn.  Þetta gerist líka í lofthjúpnum,  Þær sameindir sem helst gleypa þessar varmabylgur eru  metan, koldíoxí og vatnsgufa.  Vatnsgufan hefur meiri gleypni á þessum varmageislum en koldíoxíð miðað við hvert gramm, auk þess sem hundrað sinnum meira er af vatnsgufunni (4%) en koldíoxíði (0,04%) svo áhrif vatnsgufunnar er mörg hundruð sinnum meiri en koldíoxíðs, sem er þá óverulegt samanborið við vatnsgufuna.  Samt tala yfirvöld út í eitt um koldíoxíð sem einu ástæðu fyrir hlýnun jarðar og skattleggja alla notkun jarðefnaeldsneytis

Hlýnun jarðar

Jörðin er búin að fara í gegnum mörg kulda- og hlýskeið og miklu lengur en tilvera  mannsins og forvera hans á jörðinni.   Ýmsar ástæður hafa verið nefndar,  má þar nefna breytingar á sól,  breytileg fjarlægð frá sólinni og pólskipti svo nokkuð sé nefnt.  Það hefur engin einhlít skýring fengist, en nýleg kenning er að djúpsjávarstraumar væru að breytast og hefðu þessi áhrif, en það tekur aldir fyrir þá að breytast eins og hitastig jarðar.  

Núna vaða uppi staðhæfingar um að hlýnunin sé eingöngu af mannavöldum, og það er talið upp hversu margir deyja af völdum hita en ekki orð um alla sem deyja af völdum kulda, þótt þeir séu miklu fleiri.   Nýjasta fréttin var að telja upp orkuna sem jörðin hefur gleypt í sig vegna hlýnunar og bera hana við fjölda kjarnorkusprengja sem jafngildir 25 miljarða  kjarnorkusprengjum 50 árum.  Það er ekki orð um það að orkan í góðri lægð er sambærileg við orku í kjarnorkusprengju og það er orkan sem vindmyllur eru að binda.  4 Búrfellsvirkjanir myndu framleiða orku einnar kjarnorkusprengju á ári.   Það er heldur ekki reynt að skýra hvers vegna  hitasveiflur  og sveiflur á koldíoxíði á jörðinni falla ekki saman.   Á grafi sem hér er að ofan og er merkt Smithsonian Institution sést að jörðin er á sögulegu köldu tímabili.

Orkuskiptin

Yfirvöld tala fjálglega um orkuskiptin og að þau eiga að vera gengin í garð 2040.  Það er enginn málefnaleg umræða um það hvernig á að drífa þau tæki sem nú eru drifinn áfram með jarðefnaeldsneyti.  Það er bara gasprað um rafmagn eins og það sé valkostur fyrir tæki sem ekki er hægt að tengja beint við orkuver.  Staðreyndin í dag er að bestu rafhlöður í dag hafa meira en 46 sinnum minni orku en bensín miðað við þyngd og meira en 13 sinnum minni miðað við rúmmál.  Mikið er talað um að nýtni raforku sé miklu betri en bensíns og er það rétt,  en henni fylgja líka önnur vandamál sem ekki er talað um, en eitt af því er kæling sem rafhlöður þurfa,  sem gerir orkuhlutfallið miklu óhagstæðara og svo er brunahætta sem eykst gríðarlega þegar orkuinnihaldið og orkuþéttleikinn vex.

Einu farartækin sem hægt er að beintengja við orkuver, eru járnbrautalestar.  Undanfarna áratugi hafa hraðlestar verið þróaðar og komast þær á allt að 200 km/klst hraða á venjulegu spori sem búið er að aðlaga miklum hraða (halla í beygjum), mesti hraðinn er allt að 400 km.   Undanfarin áratug hafa verið þróaðar einsporalestir sem svífa á segulpúða (maglev train) og hafa náð 600 km/klst hraða.   Íslendingar hafa enga möguleika á þessari lausn í náinni framtíð, og sennilega aldrei á milli landa.  Það er viðbúið að kolefnisgjald ESB á flug fari í að styðja og hraða þessari þróun á lengri vegalengdum í Evrópu, svo íslendingar neyðast til að greiða þessar samgöngubætur í Evrópu.    

Fjölmiðlar og Háskólar

Ástæða þess að ég tek þetta saman og skrifa hér er sú að umræðan í samfélaginu er á algjörum villigötum.    Ég geri ekki mikla kröfur til almennings, sem er illa upplýstur og lætur gammin geysa úr frá sinni trú og sannfæringu.   Það er verra þegar það sem hefur verið kallað fjórða valdið og er þá sett á par við hin þrjú. þ. e. a. s., löggjafar-, framkvæmda- og dómsvaldið,  en það eru fjölmiðlar.  Þeir hafa algjörlega brugðist í öllum þeim málum sem ég taldi upp hér á undan, þrátt fyrir að þeir fái styrki frá skattgreiðendum til að vera með málefnalega og hlutlausa umfjöllun og er RÚV þar lang stærst á ríkisjötunni, en um leið einna hlutdrægastir.

Ekki tekur betra við þegar kemur að musteri tjáningarfrelsis og rannsókna, en háskólar vilja vera hornsteinar þessara mustera.  Þeir hafa í engu vakið upp málefnalega umræðu um þau mál sem ég taldi hér upp og hafa meira að segja sagt upp mönnum sem hafa viljað ræða þessi mál og það jafnvel utan kennslu, sbr HR- og ljóðskáldamálið.

Hvalveiðar

En steininn tekur úr og hann er svo settur í Götu rannsókna og velferðar og svo að lokum hent úr glerhúsinu,  Þegar ráðamenn sem hafa öll tök á því að leita hlutlausra ráða, fá fram öll sjónarmið og öll viðhorf í máli og hafa til þess nánast ómælda peninga skattgreiðenda til þessa, en gera það ekki.  Heldur leggja skatt á þjóðfélagsþegnanna til að fjármagna óráðsíu og mistök í þessum mikilvægum málefnum sem ég nefndi hér í upphafi.   Í þeim málum sem ég nefndi í upphafi hef ég reynt að afla mér upplýsinga um sjónarmið fjölmiðla og stjórnvalda, eins og að karlar séu nánast einu gerendur ofbeldis,  kolsýra hafi meiri gróðurhúsaáhrif en vatnsgufan,  rafhlöður sem geta komið í stað bensíntanksins, en ekki fundið nein gögn sem styðja sjónarmið yfirvalda.

Til þess að bæta gráu ofan á svart,  þá skipar matvælaráðherra nefnd, ekki með fagfólki eða fólki með reynslu, heldur fólki sem hefur fyrirfram fordómafullar skoðanir á málinu,  kallar nefndina „fagráð“ til að sveipa hana helgi-ljóma vísinda og sannleika sem fyrirfinnst ekki í nefndinni.   Niðurstaða „fagráðsins“ er svo notað til að valda samfélaginu stórkostlegum skaða og skattgreiðendum miklum útgjöldum, bara til að þóknast eigin fordómum á nýtingu náttúruauðlindanna.   Það hefur komið fram að langflestir hvalir deyja samstundis, enginn er látin sleppa særður,  þeir eru aflífaðir hvað sem tautar og raular,  þótt það gangi inn í myrkrið.  Það er þekkt meðal manna sem verða fyrir miklum skaða eins og að missa útlimi, að missa alla tilfinningu, gerist það ekki með hvali,  en það er sífellt hamrað á „löngu hvalafullu dauðastríði“ sem sennilega gerist ekki eða sára sjaldan.  Hvalir sem ekki eru veiddir, verða fórnarlömb háhyrninga sem halda þeim eins lengi lifandi og þeir geta, á meðan þeir eru étnir, til að þeir sökkvi ekki.   Svo eru hvalveiðar líka fordæmdar því þeir kolefnisjafna lofthjúpinn.  Rökin eru tóm endaleysa, því þau byggjast á því að allar  lífverur binda kolefni hvort sem er á láði eða legi.  En það er þagað yfir því að þegar hvalir stökkva,  þá hefst loftfirrt niðurbrot sem myndar metangas eins og á ruslahaugunum og það hefur miklu meiri gróðurhúsaáhrif en bæði koldíoxíð og vatnsgufa.   Norðmenn athuguðu líka hvaða áhrif hvalveiðarnar hefðu á ferðamannaiðnaðinn, niðurstaðan var engin áhrif.  

Það er hræðilegt fyrir samfélög þegar stjórnmálamenn sem hafa öll tök á því að afla sannra og réttra upplýsinga,  nota skattpeninginn til að þjóna sínum persónulegu skoðunum og fordómum og greiða fyrir pólitískan áróður. 

Höfundur er efnaverkfræðingur, rafmagnsverkfræðingur og frv. lektor við Háskólann í Reykjavík.

One Comment on “Fyrirsagnir án innihalds”

  1. Sammála þér ótrúleg lígi eða heiska kanski laera fáir til skilnings svara bara með orðunum sem þeir settu á minnið til að svara spurningum á prófum til að sína árangur og ná í meiri mannréttindi.þekkio marga með gott minni enn stóra tengingin við það er hvað vantar í matinn eðlilega

Skildu eftir skilaboð