Lét CIA drepa JFK til að fá frítt spil í stríðsleikjum sínum?

frettinErlent, Ingibjörg Gísladóttir1 Comment

Í viðtali við Joe Rogan nýverið fullyrðir forsetaframbjóðandinn Robert Kennedy að CIA hafi látið myrða föðurbróður sinn, John F. Kennedy. Hann minnir á kveðjuræðu Eisenhowers, hinn 17 janúar 1961, þar sem hann varar við að því sem hann kallar „military industrial complex" sé leyft að taka völdin. Robert segir að JFK hafi verið drepinn af því hann hafnaði því að teyma þjóðina út í stríð. Það hafi verið hart lagt að honum að ráðast inn í Kúbu (jafnvel reynt að þvinga hann til þess) og koma þar af stað byltingu, einnig hafi stríðsæsingamennirnir viljað ráðast inn í Laos og Víetnam. JFK hefði viljað sundra CIA í þúsund mola því táknmynd BNA eigi ekki að vera hermaður sem ber byssu, hefur Robert eftir honum.

Næsti forseti, Lyndon B. Johnson, tók betur í að ráðast á aðrar þjóðir. Hinn 5 ágúst 1964 mátti lesa á forsíðu Washington Post „Bandarískar vélar gerðu árás á Norður-Víetnam eftir að í tvígang hafði verið ráðist á tundurspilla okkar; aðgerð til að hamla árásargirni þeirra." Þessi seinni árás sem Johnson notaði til að hefja stríðið af fullum krafti - hún gerðist hreint ekki - en fjölmiðlarnir birtu það sem kom frá stjórnvöldum gagnrýnislaust og eiga þeir stóran hlut í þeim hörmungum er Víetnamstríðið olli.

Það var Daniel Ellsberg, sem er nýlátinn, sem gaf út Pentagon skjölin, alls 7,000 blaðsíður, þar sem saga afskipta Bandaríkjanna í Indókína frá lokum seinni heimstyrjaldar til 1968 er rakin og þar kom ýmislegt í ljós. Hinn 13 júní 1971 hóf The New York Times að birta greinar unnar upp úr skjölunum. Yfirvöld reyndu að fá lögbann á birtinguna en hæstiréttur hafnaði því. Þessi umfjöllun hugnaðist Richard Nixon illa og lét hann menn á sínum vegum brjótast inn hjá geðlækni Ellsbergs í þeirri von að finna eitthvað misjafnt um hann - kom í ljós við rannsókn á Watergate málinu.

Í skjölunum kom m.a. í ljós að afskiptin af málum Víetnam höfðu hafist snemma; stjórn Harry S. Trumans hafði veitt Frökkum hernaðaraðstoð í viðleitni þeirra til að halda þeirri nýlendu sinni og að Lyndon B. Johnson hóf leynilegan stríðsrekstur gegn N-Víetnam og skipulagði stríð gegn þeim meira en ári áður en stríðið var gert opinbert. Hann gaf einnig fyrirmæli um að varpa sprengjum á N-Víetnam 1965 jafnvel þótt njósnastofnanir hans segðu slíkt ekki draga úr stuðningi við Víet Kong skæruliðana.

Komið af stað stríði með blekkingum

Það var snemma árs 1964 að S-Víetnamar hófu njósna- og aðgerðaáætlun við strendur N-Víetnam undir stjórn varnarmálaráðuneytis BNA með stuðningi CIA og kallaðist hún OPLAN 34A. Bandarískir tundurspillar höfðu það hlutverk að safna gögnum er nýttust S-Víetnömum við árásir þeirra. Aðfaranótt 31 júlí var tundurspillirinn Maddox staddur í Tonkin flóa á sama tíma og 34A vélbyssuárásir voru gerðar á Hon Me eyju og á sama tíma var einnig skotið á Hon Ngu eyju meira en 25 km sunnar.  Hinn 1. ágúst var Maddox enn á svæðinu og þá gerðu þrír N-Víetnamskir eftirlitsbátar árás á tundurspillinn en náðu ekki að valda skaða á honum.

OPLAN árásirnar héldu áfram og á fimm dögum hafði verið ráðist á varnarvirki N-Víetnama við ströndina á fjórum stöðum. Að morgni 4. ágúst barst njósn af ætlaðri árás á tundurspilla Bandaríkjamanna. Það var slæmt í sjóinn og er það mögulega talið hafa ruglað menn í ríminu því radarkerfi skipsins sýndu báta koma að þeim úr öllum áttum og í þrjá tíma skutu Maddox og Turner Joy á öldurnar og vörpuðu djúpsprengjum í tveggja metra ölduhæð meira en 100 mílum frá ströndinni.

Gögn sem leynd var létt af og birt voru 2005 og 2006 staðfesta að meint seinni árás á herskip BNA í Tonkin flóa hinn 4. ágúst 1964 gerðist ekki. Enn fremur sýna skjölin að mati sagnfræðinga hersins (US Naval Institute) að McNamara varnarmálaráðherra hafi hagrætt gögnum til að blekkja þingið. Þau gögn er bárust til Pentagon og Hvíta hússins höfðu verið hreinsuð og sýndu það sem sannleik að N-Víetnamar hefðu að tilefnislausu ráðist á tundurspilla Bandaríkjamanna. McNamara laug einnig að þinginu er hann afneitaði allir vitneskju um OPLAN 34A árásirnar.

Í Bandaríkjunum leyfist ekki að tala fyrir friði. Hergagnaframleiðendur þurfa sitt og stríðsæsingamennirnir einnig. Hatrið á Trump gerðist beinlínis áþreifanlegt er hann vogaði sér að segja áður en hann var kosinn 2016 að BNA hefði aldrei átt að ráðast inn í Írak. Búast má við skæðum hatursáróðri gegn Robert Kennedy nú þegar hann hyggst feta í fótspor föðurbróður síns.

One Comment on “Lét CIA drepa JFK til að fá frítt spil í stríðsleikjum sínum?”

  1. Í dag er vitað að morðið á JFK var samsæri, LHO var fórnarpeð, talið er að það hafi verið a.m.a.k. tveir skotmenn, það er almenn talið að CIA/hernaðariðnvélin sem Eisenhower var búinn að vara við hafi staðið að baki morði JFK og komust upp með það, þar með fór heimurinn skör niður á við því miður.

Skildu eftir skilaboð