Jón Magnússon skrifar:
Það er iðulega galli við umræðu hér á landi hve hún fer oft út um víðan völl og er í litlu samræmi við það sem máli skiptir.
Helsta vonarstjarna íslenskra stjórnmála skv. skoðanakönnunum, Kristrún Frostadóttir sem og flokkssystir hennar Helga Vala Helgadóttir fjölluðu í gær um Íslandsbankahneykslið og komust lítt upp úr þeim hjólförum að þarna hefði verið afhjúpuð brot fjármálaráðherra og sýnt fram á réttmæti sérstakrar rannsóknarnefndar Alþingis um sölu hluta í Íslandsbanka.
Þó ég sé og hafi verið þeirrar skoðunar að best hefði verið að skipa sérstaka rannsóknarnefnd til að fara yfir allt söluferli hluta í Íslandsbanka, þá hefði slík nefnd ekki farið í þá fagvinnu, sem Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (FMESÍ) gerði enda verkefni rannsóknarnefndar annað.
Fyrir liggur eftir úttekt FMESÍ sbr sáttina sem Íslandsbanki undirgekkst, að brotin voru framin af ákveðnu starfsfólki Íslandsbanka, sem fjármálaráðherra hefur ekkert með að gera.
Fjármálaráðherra verður hins vegar að bregðast við strax og hlutast til um það sem handhafi 42% hlut í bankanum, að þeir sem ábyrgð bera verði leystir frá störfum þegar í stað. Sama krafa ætti að koma frá þeim lífeyrissjóðum sem eiga stóra hluta í bankanum. Fjármálaráðherra getur ekki dregið þessa ákvörðun.
Það er slæmt ef ekki tekst að fá umræðuna á það stig, að ná fram réttmætum nauðsynlegum breytingum í fjármála- og bankakerfinu í stað gaspurs og glóruleysis þar sem stjórnmálamenn reyna að koma höggi á andstæðing sinn. Verkefnið er að uppræta svikastarsemi og ólögmæta sérhygli lygi og sviksemi í fjármálakerfinu og skapa traust.
Svo er annað mál hvort trúverðugleiki ákveðinna einstaklinga er orðinn slíkur að hentast væri að aðrir tækju við.
Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar sem fyrrum vann hjá Kviku banka, sem hefur falast eftir að sameinast Íslandsbanka, ætti að geta lagt margt gott og uppbyggilegt til þeirrar umræðu vegna þekkingar sinnar og reynslu. Nú reynir á og ætti að sjá úr hvaða efnivið hún er gerð, hvort þar fer stjórnmálamaður sem er á vetur setjandi eða pólitískur gasprari.