Eftir Arnar Sverrisson:
Forseti Rússlands, Vladimir Putin, virðist hafa gefið Yevgeny Prigozhin, herforingja Wagner hersveitarinnar (sambærileg við Frönsku útlendingahersveitina og Blackwater í Bandaríkjunum) svipaða meðferð og hinum auðvöldunum (ólígörkunum), þ.e. skipti þeir sér af stjórnmálum, skuli þeir útlægir gerir.
Það var augljóslega ekki um tilraun til valdaráns að ræða. En Y. Prigozhin er herskár og virðist fyrir þær sakir njóta talsverðrar hylli, bæði innan hersins og utan.
Y. Prigozhin vildi - líklega eins og margir fleiri - leggja Úkraínu undir Rússa í einu tilhlaupi. Þeim þykir V. Putin of varfærinn, enda hefur það aldrei verið markmiðið hans að leggja Úkraínu að fótum Rússa. Það kynni þó að breytast nú. Kjarnorkuvopnasöngurinn er enn kyrjaður í bandaríska þinginu.
Barátta Y. Prigozhin við varnaramálaráðherrann, Sergei Shoigou, sem uppreisnarforinginn hafði hugsað sér að steypa af stóli, gæti einnig endurspeglað átök spilltra valdamanna í rússneskri stjórnsýslu. Það er varla ástæða til að ætla, að spillingin sé horfin úr stjórnmálunum.
Hinn misheppnaði uppreisnarforingi
Það verður fróðlegt að sjá, hvað verður um hinn misheppnaða uppreisnarforingja og hvernig forseti Hvíta-Rússlands, Alexander Lukashenko, sem skýtur yfir hann skjólshúsi, ætlar sér að spila úr stöðunni.
Áður en A. Lukashenko gerðist sáttasemjari í Rússlandi, hafði hann nefnilega spurnir af því, að Vesturlönd skipulegðu, áamt innlenda andófshernum, valdarán í landinu. M.a. hvöttu úkraínsk yfirvöld almenning til uppreisnar.
A. Lukashenko er skiljanlega á varðbergi og starfar greinilega náið með vini sínum, V. Putin, að öryggis- og varnarmálum. Það gefur auga leið, að báðir voru undirbúnir og höfðu njósnir af uppreisnum beggja vegna landamæranna. V. Putin á greinilega tryggan bandamann í forseta Hvíta-Rússlands í stríðinu við Vesturlönd í Úkraínu.
Allt samkvæmt áætlun
Nú mætti ætla, að Rússar létu loksins til skarar skríða í Úkraínu. En það hefur reyndar staðið einkennilega lengi til. V. Putin endurtekur stöðugt, "að allt sé samkvæmt áætlun." Það virkar þó ekki alveg trúverðugt. En nú hlýtur að vera lag; nothæfum strákum/körlum í Úkraínu hefur verið slátrað upp til hópa, gömlum vopnum eytt, svo og talsverðum hluta nýrra vopnaskrans frá Vesturlöndum. Það er ekki meira til og verksmiðjurnar hafa ekki undan.
(Það væri fróðlegt í þessu sambandi að vita um örlög hálfrar aldar gömlu hertrukkanna, sem vinir okkar, Norðmenn, sendu lýðræðis- og frelsishetjum Úkraínu.)
Allra nýjustu vopnin kunna Úkraínumenn ekki á og langan tíma tekur að þjálfa þá, sem enn halda lífi. Verði bandarískar og aðrar Nató-hersveitir sendar inn á vígvöllinn, aukast enn líkur á kjarnorkustríði.
Því er það skiljanlegt, að úkraínskum hermanni detti í hug, að fyrir yfirvöldum hans vaki að útrýma þjóðinni. Það er allavega opinber hernaðarstefna Nató; berjist til síðasta Úkraínu(karl)manns, segja heræsingamenn bandalagsins. Þórdís Kolbrún steytir hnefann og krefst - í nafni lýðræðis og friðar -fullnaðarsigurs Vesturlanda í Úkraínu.
“I do not know the plans of our government, but it looks like the extermination of its own population” — Ukrainian soldier on Bakhmut pic.twitter.com/kjkpmOxwPI
— Lord Bebo (@MyLordBebo) June 25, 2023
Wagner hersveitin er forvitnilegt fyrirbæri
(Ber nafn þýska tónjöfurins , Richard Wagner, vegna dálætis stofnandans á tónskáldinu.) Hún er reyndar ein af mögum hersveitum svipaðar tegundar, sem rússnesk hernaðaryfirvöld hafa gert tilraunir með. Trúlega er um einhvern ágreining að ræða í því efni milli forsætis- og varnarmálaráðherra, sem hefur gríðarlega ítök í Rússlandi og gæti hugsanlega ógnað sitjandi forseta.
En hvernig sem því líður hefur endurskipulagning hersins staðið yfir frá upplausn Ráðstjórnarríkjanna fyrir rúmum þrem áratugum síðan. Þá gengu spillingarflóðöldur yfir samfélagið. Auðvaldar rændu og rupluðu í skjóli Boris Yeltsin og vestrænna bakhjarla hans eins og Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseta.
Vladimir Putin sagði auðvöldunum stríð á hendur eins og hann virðist hafa gert gagnvart Y. Prigozhin, vini sínum, nú. Vináttubandið kynni þó að hafa trosnað.
Það er með hreinum ólíkindum, að skúrkinum þeim, þ.e. Y. Prigozhin, hafi verið gefinn svo laus taumurinn í Úkraínustríðinu. Hann hefur storkað ríkisstjórn Rússlands ítrekað í fjölmiðlum. Það er sjálfgefið, að rússneska leyniþjónustan hafi haft fingur á púlsinum og haft skýrt hugboð um, hvert stefndi.
Stjórnkænska Pútin
Hugsanlega erum við vitni að stjórnkænsku V. Putin. Hann er bæði klækjarefur, menntaður í leyniþjónustunni, og gagnmenntaður stjórnmálamaður á alþjóðavísu. Langlundargeðið gagnvart Vesturlöndum gæti þó komið honum í koll í innanbúðarvaldabaráttunni – eins og upphlaup Y. Progozhian, bendir til.
Vinatengslin eru – úr íslensku sjónarhorni séð – skemmtilega heimilisleg, því allir aðalleikendur eru (eða voru) góðir vinir, eins konar vinatroika; V. Putin, A. Lukashenko og Y. Prigozhin.
Upphlaup eða uppreisnir af svipuðu tagi og við keimlíkar aðstæður, hafa Vesturveldin gert í Kasakstan – með betri árangri - og Úsbekistan.
Það gæti verið til skilningsauka í stöðunni, að eftir misheppnaða „valdaránstilraun“ Y. Prigozhin féllu hlutabréf stríðsiðnaðarins í verði á mörkuðum.