Íbúar í Reykjanesbæ skora á bæjarstjórn Reykjanesbæjar að svara kalli íbúa og standa fyrir íbúafundi í Stapa Hljómahöll þar sem þingmönnum og ráðherra Suðurkjördæmis er boðið að sitja ásamt fulltrúum Lögreglustjóra og Brunavörnum Suðurnesja.
Þetta kemur fram í tilkynningu sem hópurinn sendi frá sér fyrir stundu, en eins og landsmenn hafa orðið varir við fréttaflutning að undanförnu þá er bærinn komin að þolmörkum hvað varðar móttöku flóttafólks og hælisleitanda.
Vinnumálastofnun hyggst draga úr fjölda þeirra umsækjenda um alþjóðlega vernd sem dvelja í Reykjanesbæ og hefur stofnunin kynnt aðgerðaáætlun til að bregðast við þeim mikla fjölda sem dvelur þar samanborið við önnur sveitarfélög.
Þá segir segir Margrét Sanders, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ, „að það sé uppselt í Reykjanesbæ. Innviðirnir séu sprungnir og bærinn er kominn langt yfir þolmörk hvað varðar fjöldann.“
Íbúar hafa ítrekað kallað eftir íbúafundi með bæjarfulltrúum vegna ástandsins en án árangurs. Hefur því hópur fólks tekið sig saman og komið af stað undirskriftarlista sem er nú aðgengilegur inn á Ísland.is
Það er facebook hópurinn Reykjanesbær - tökum samtalið sem stendur fyrir áskoruninni, þar segir orðrétt:
Við undirrituð skorum á bæjarstjórn Reykjanesbæjar að svara kalli íbúa og standa fyrir íbúafundi í Stapa Hljómahöll þar sem þingmönnum og ráðherra Suðurkjördæmis er boðið að sitja ásamt fulltrúum Lögreglustjóra og Brunavörnum Suðurnesja. Forsvarsmenn undirskriftalistans, þau Sigríður Haraldsdóttir og Sigurjón Hafsteinsson óska jafnframt eftir því að vera með í ráðum hvað varðar skipulag íbúafundar og framsetningu.
Hægt er að skrifa undir áskorunina hér.