Stanslausar blæðingar eftir Pfizer bólusetningu

frettinCovid bóluefni, Innlent2 Comments

Alexía Erla Hildur Hallgrímsdóttir er 31 árs á árinu og hefur verið með stanslausar blæðingar í nánast tvö ár, eða frá því að hún fór í fyrstu af þremur Pfizer bólusetningum. Alexía hefur velt því fyrir sér hvort hún eigi að láta fjarlægja úr sér legið til að stöðva blæðingarnar, en segist eiga þann draum að eignast barn með unnusta sínum, sem hún býr með ásamt tveimur stjúpbörnum.

Hún segist hafa fengið blæðingar og verki strax nokkrum dögum eftir fyrstu sprautuna og að kvalirnar séu oft óbærilegar. En þar sem hún var með hormónalykkjuna og hafði áður verið með óreglulegar blæðingar, taldi hún lykkjuna vera ástæðuna og grunaði alls ekki bóluefnið. En í dag er lykkjan farin og læknar hafa engin svör, allir vegir liggja því að bólusetningunni.

Alexía segist í samtali við Fréttina hafa farið í bólusetninguna vegna frelsisins sem henni átti að fylgja. Ferðalög voru tíð á þessum tíma og því var það ekki nokkur spurning að fá bóluefnið. Hana hafi aldrei grunað að þvílíkar kvalir og vanlíðan myndu fylgja þeirri ákvörðun.

Eins og helmingurinn af mér hafi týnst

Alexía var áður almennt heilbrigð, dugleg að taka þátt í öllu sem henni bauðst og stóð sig vel í vinnu. „Í dag er lífið aftur á móti allt annað og í raun líður mér eins og helmingur af mér hafi týnst. Oft hef ég ekki komist fram úr rúminu vegna verkja. Þegar ég stend uppi hef ég oft þurft að setjast á hækjur mér og reyna að draga andann eins eðlilega og hægt er vegna óbærilegra verkja. Ég hef þurft að sleppa mörgum viðburðum með fjölskyldunni, vinum og samstarfsfólki vegna kvala,“ segir Alexía.

„Og auðvitað fylgir þessu lægð í andlegri heilsu“, bætti hún við. „Það er óhjákvæmilegt að komast undan því þegar stanslausar hugsanir sækja á mann; að mér muni aldrei batna og ég sé að valda fólki í kringum mig vonbrigðum með veikindum sem eru ekki viðurkennd.“

Alexía segist hafa verið hjá nokkrum kvensjúkdómalæknum, farið í blóðrannsóknir, ómskoðun, strokusýni fyrir krabbameini og allt sem læknum dettur í hug, í von um niðurstöður svo hægt verði að taka næsta skref. En því miður er það ekki raunin, allt kemur eðlilega út; blóðið, eggjastokkarnir og annað virðist „í góðu lagi á pappírum.“ „Ég er send út frá öllum læknum með kveðjuorðunum: „Gangi þér vel.“

Aðspurð hvort læknar hafi ekki nefnt bóluefnin sem mögulega orsök þar sem mikill fjöldi kvenna hafi gengið í gegnum svipaða reynslu eftir Covid sprauturnar, svaraði Alexía því neitandi.

Aðrar konur hafa svipaða sögu að segja

Hún segir að sögur þeirra kvenna sem hún hefur heyrt og lesið um séu mjög svipaðar hennar og að þær konur tengi þetta einnig einungis við Covid-19 bólusetningu. Þær hafa nokkrar lent í fósturmissi og aðrar látið fjarlægja legið og þá loksins hætt á blæðingum og öllu sem því fylgir.

„Ég vil ekki láta taka legið úr mér strax þar sem draumurinn er að verða þunguð, en sá draumur verður fjarlægari með hverjum deginum,“ segir Alexía.

„Ég er nýbúin að tilkynna aukaverkanirnar til Lyfjastofnunar og vona að einn daginn verði gert eitthvað til að aðstoða mig og aðrar konur í sömu stöðu. Kostnaðurinn við allar rannsóknir og læknaheimsóknir er líka töluverður. Það er ekki í lagi að missa úr vinnu og því laun vegna bólusetninga sem nánast voru látnar líta út fyrir að vera skylda, guðsgjöf og þvílíkt tækifæri til betra lífs,“ segir hún, „og þar að auki fékk ég Covid, þrátt fyrir þessar þrjár sprautur.“

„Það er ekki í lagi að missa af afmæli barnsins míns. Það er ekki í lagi að geta ekki staðið í tvær fætur og hitt vini og vandamenn þar sem ég bókstaflega græt og get ekki haldið uppi almennilegum samræðum. Það er ekki í lagi að læknar séu hræddir við eða hreinlega hafi ekki tíma til þess að rannsaka þetta frekar og hjálpa okkur.“

Íhugar að sækja skaðabætur til ríkisins

Aðspurð hvort hún ætli sér að sækja skaðabætur til ríkisins sbr. lagabreytingar sem Alþingi samþykkti í tengslum við þessar bólusetningar, þar sem ríkið gekkst í ábyrgð fyrir lyfjafyrirtækin, svaraði Alexía því að ef það sé það eina stöðunni muni hún íhuga það, en á sama tíma segist hún ekki trúa því að það muni skila nokkru. Enginn hafi til þessa fengið greiddar neinar bætur eins og ríkið var búið að samþykkja.

„Ég vil bara vera heilbrigð og losna við þessar kvalir. Það eru ákveðnir fordómar sem fylgja því að þiggja eða hafna bólusetningu og því eru margir sem ekki vilja tjá sig um sína reynslu. Ég hef heldur ekki gaman að því að deila þessari reynslu minni en það er einungis til þess að halda í vonina um að einhver í læknastéttinni lesi sögu mína og vilji læra og hjálpa mér og öðrum í þessari stöðu,“ en ekki senda okkur burt trekk í trekk með ósk um gott gengi, segir Alexía að lokum.

2 Comments on “Stanslausar blæðingar eftir Pfizer bólusetningu”

  1. Hvaða fordómar fordómar fylgdu því að þiggja bólusetningu ????? Atur á móti voru þeir sem ekki vildu sprautuna teknir fyrir og og fólk vildi helst ekkert af þeim vita og skítkastið var mikið og ljótt á óbólusetta……..

  2. Ég hef séð að fólk er að laga sig eftir aukaverkanir með að fasta í 4 daga og drekka bara vatn ????

Skildu eftir skilaboð